Jafnréttismál. Aðili máls.

(Mál nr. 10032/2019)

A kvartaði yfir því að kynjakvóti væri ekki virtur við skipan Jafnréttisráðs og gerði einnig athugasemdir við hvernig skipað er í ráðið.

Umboðsmaður benti A á að skipað væri í Jafnréttisráð samkvæmt lögum og það væri almennt ekki í verkahring sínum að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefði sett. Hins vegar gæti A freistað þess að koma athugasemdum sínum um það og annað sem að þessu lyti á framfæri við forsætisráðherra en einnig Jafnréttisstofu hvað snerti að hlutfall karla og kvenna í ráðinu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. mars 2019, sem hljóðar svo:

    

I

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 23. mars sl., yfir því að kynjakvóti sé ekki virtur við skipan Jafnréttisráðs en hlutfall karla er 36% en ekki 40% líkt og lög gera ráð fyrir, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Þá eruð þér jafnframt ósáttir við hvernig skipað er í ráðið en þér teljið að hópar sem berjast fyrir jafnrétti karla, einkum og sér í lagi þeir hópar sem vekja athygli á bágri stöðu karla í forsjármálum, ættu að koma að skipan ráðsins.

   

II

Í tilefni af kvörtun yðar er nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um hlutverk umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður Alþingis hefur í umboði þingsins eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og tryggir umboðsmaður rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Hann skal gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og tilteknar siðareglur sem settar eru á grundvelli laga. Í lögunum er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Í samræmi við framangreint er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðsmanns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið. Með hliðsjón af framangreindu og í ljósi þess að kvörtun yðar snýr almennt að skipan í Jafnréttisráðs en varðar ekki ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist sérstaklega að hagsmunum yðar umfram aðra er ekki tilefni til að ég fjalli frekar um erindi yðar sem kvörtun.

   

III

1

Þrátt fyrir framangreint og með hliðsjón af því sem fram kemur í kvörtun yðar tek ég fram að jafnréttismál heyra undir forsætisráðherra, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, fer forsætisráðherra með framkvæmd laganna. Í því felst m.a. að það er ráðherra, en ekki þeir aðilar sem þér tilgreinið í kvörtun yðar, sem hefur það hlutverk að skipa í Jafnréttisráð, sbr. 8. gr. laganna. Í greininni kemur síðan fram að formaður ráðsins sé skipaður án tilnefningar, tveir fulltrúar séu tilnefndir sameiginlega af samtökum launafólks, tveir fulltrúar séu tilnefndir sameiginlega af samtökum atvinnurekenda, tveir fulltrúar séu tilnefndir sameiginlega af Femínistafélagi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands og Kvenréttindafélagi Íslands, einn fulltrúi sé tilnefndur sameiginlega af Samtökum um kvennaathvarf og Stígamótum, einn fulltrúi sé tilnefndur af Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, einn fulltrúi sé tilnefndur af Félagi um foreldrajafnrétti og einn fulltrúi sé tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í athugasemdum að baki þessu ákvæði í greinargerð sem fylgdi með frumvarpi er varð að lögum nr. 10/2008 kemur fram að mikilvægt þyki að fulltrúar ráðsins endurspegli þekkingu á mörgum sviðum jafnréttismála og er í því sambandi tekið fram að sérstaklega mikilvægt þyki að Samtök um kvennaathvarf og Stígamót eigi sameiginlegan fulltrúa í ráðinu enda sé það eitt af markmiðum frumvarpsins að unnið sé gegn kynbundnu ofbeldi. Einnig er tekið fram að mikilvægt þyki að fræðasamfélagið eigi fulltrúa í Jafnréttisráði og þar þyki Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum hafa mikla reynslu af rannsóknum í kvenna- og kynjafræðum. (Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 1012.) Í þessu sambandi tek ég fram að Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum hefur tekið við hlutverki rannsóknarstofunnar.

Samkvæmt framangreindu er aðkoma þeirra aðila sem þér tilgreinið í kvörtun yðar lögbundin og verður ekki annað ráðið en að löggjafinn hafi metið það sem svo að upptaldir fulltrúar í 8. gr. laganna hafi þá sérþekkingu sem nauðsynleg er til að Jafnréttisráð geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt 9. gr. laga nr. 10/2008. Þar kemur fram að ráðið sé ráðherra og framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum sem tengjast jafnrétti kynjanna og skal sérstök áhersla lögð á að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs, auk þess sem ráðið undirbýr jafnréttis­þing í samráði við ráðherra. Af kvörtun yðar til mín verður ekki annað ráðið en að þér teljið þessa tilhögun fela í sér að það halli á hlut karla við skipan í ráðið. Af því tilefni er vert að taka fram að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki í verkahring umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Þér getið hins vegar, ef þér teljið tilefni til, freistað þess að koma athugasemdum yðar á framfæri við forsætisráðherra, sem auk þess að skipa í Jafnréttisráð, getur lagt til við Alþingi að gerðar verði breytingar á gildandi lögum. Ég tek þó sérstaklega fram að í þessari ábendingu felst ekki nein afstaða til þeirra sjónarmiða sem þér tilgreinið í kvörtun yðar að þessu leyti.

2

Í kvörtun yðar gerið þér jafnframt athugasemd við að karlar séu einungis 36% af þeim sem sæti eiga í jafnréttisráði.

Í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008 er kveðið á um að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa sé að ræða. Í ljósi þess að það er hlutverk forsætisráðherra að fara með framkvæmd laga nr. 10/2008 og skipa í Jafnréttisráð getið þér freistað þess að koma sjónarmiðum yðar varðandi núverandi hlutfall karla í ráðinu á framfæri við forsætisráðuneytið, s.s. jafnréttisfulltrúa þess sem starfar á grundvelli 13. gr. laganna, en slíkur fulltrúi fjallar um og hefur eftirlit með jafnréttisstarfi á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess og skal m.a. vinna að kynjasamþættingu á málefnisviði ráðuneytisins.  

Jafnframt bendi ég yður á að Jafnréttisstofa hefur eftirlit með framkvæmd laga nr. 10/2008, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. þeirra, og fær m.a. upplýsingar um skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneyta í Stjórnarráðinu í árlegri greinargerð sem jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna senda stofnuninni á grundvelli 13. gr. laganna. Á grundvelli þeirra gagna hefur Jafnréttisstofa gefið út árlegar skýrslur um hlutfall kynja í nefndum, ráðum og stjórnum sem eru aðgengilegar á vefsíðu stofnunarinnar, www.jafnretti.is. Þér getið því jafnframt freistað þess að koma sjónarmiðum yðar á framfæri við Jafnréttisstofu. 

   

IV

Með vísan til alls framangreinds lýk því hér með meðferð minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.