Opinberir starfsmenn. Forstöðumenn ríkisstofnana. Laun. Stjórnvaldsákvörðun. Aðili máls.

(Mál nr. 10343/2019 og 10475/2020)

A og B leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra um laun fyrir störf þeirra sem forstöðumenn ríkisstofnana. Settur umboðsmaður afmarkaði athugun sína við þá afstöðu ráðuneytisins að stjórnsýslulög ættu ekki við um ákvarðanirnar þar sem slíkar ákvarðanir væru stjórnvaldsfyrirmæli sem beindust ekki að einstökum forstöðumönnum. Athugunin laut einkum að því hvort ákvörðun ráðherra um laun fyrir starf forstöðumanns væri stjórnvaldsákvörðun og hvort sá sem gegnir starfinu þegar slík ákvörðun er tekin teldist aðili máls.

Settur umboðsmaður fjallaði um breytingar sem hefðu verið gerðar undanfarin ár á því hvernig laun forstöðumanna ríkisstofnana eru ákveðin. Hann benti á að samkvæmt gildandi fyrirkomulagi ákvæði fjármála- og efnahagsráðherra laun þeirra á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það sem væri kallað „reglubundin heildarlaun“ eða „föst heildarlaun“ af hálfu ráðuneytisins samanstæði af föstum launum fyrir dagvinnu og öðrum launum er starfi fylgja.

Settur umboðsmaður gerði grein fyrir því að lagt hefði verið til grundvallar að vissar ákvarðanir um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna væru stjórnvaldsákvarðanir sem falla undir gildissvið stjórnsýslulaga. Þegar stjórnvald tæki einhliða ákvörðun um laun ríkisstarfsmanns, sem byggðist á lögum en ekki samningi, hefði um langt skeið verið lagt til grundvallar í störfum umboðsmanns að stjórnsýslulögin giltu um slíkar ákvarðanir.

Settur umboðsmaður benti á að um rétt forstöðumanna ríkisstofnana til launa fyrir störf sín væri mælt fyrir um í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt fyrirkomulaginu væri niðurstaða um grunnmat starfs viðkomandi forstöðumanns svo samofin ákvörðunum ráðherra um laun hans að hún hefði veruleg áhrif á niðurstöðu um launin. Ekki væri því unnt að líta á ákvörðun um grunnmat starfs með öðrum hætti en að hún væri liður í ákvörðun um laun fyrir að gegna starfinu. Þá væri sá grundvallarmunur á stöðu forstöðumanna og almennra ríkisstarfsmanna að þeir síðarnefndu semdu um laun sín og fengju þau greidd á grundvelli kjarasamnings en ákvarðanir um laun forstöðumanna ríkisstofnana væru í núverandi framkvæmd teknar einhliða á grundvelli laga.

Settur umboðsmaður leit enn fremur til þess að ákvörðun ráðherra um laun væri tekin einhliða á grundvelli laga og beindist að lögbundnum réttindum þess einstaklings sem gegnir starfinu hverju sinni. Því yrði að leggja til grundvallar að hagsmunir forstöðumanna af því að eiga aðild að ákvörðunum sem hefðu bein áhrif á laun þeirra væru með þeim hætti að þeir nytu að réttu lagi þeirrar stöðu sem aðila máls er veitt samkvæmt stjórnsýslureglum. Það var því niðurstaða setts umboðsmanns að ákvörðun um laun forstöðumanns væri stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga og að viðkomandi forstöðumaður ætti aðild að máli um þá ákvörðun.

Settur umboðsmaður beindi því til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að taka erindi A og B til meðferðar að nýju, kæmu fram beiðnir þess efnis frá þeim, og að það leysti þá úr þeim í samræmi við þau sjónarmið sem væru rakin í álitinu. Jafnframt beindi hann því til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.