Útgerðarfélagið A ehf. kvartaði yfir úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þar sem ákvörðun Fiskistofu um að áminna félagið var staðfest. Var félagið talið hafa brotið af sér með því að bátur, sem það gerði út og hafði veiðileyfi með krókaaflamarki, stundaði veiðar á kúfskel til beitu með plógi. Töldu stjórnvöld að háttsemin varðaði við ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða og þágildandi reglugerð um veiðar í atvinnuskyni. Ásamt því að taka kvörtun félagsins til skoðunar varð málið umboðsmanni tilefni að staðnæmast við tiltekin álitaefni um hvort lög og stjórnvaldsfyrirmæli á sviði fiskveiði séu haldin meinbugum að teknu tilliti til krafna sem eru gerðar til laga sem takmarka atvinnufrelsi og geta verið grundvöllur viðurlaga.
Umboðsmaður rakti ákvæði laga og reglna um veiðar báta sem hafa veiðileyfi með krókaaflamarki og forsögu þess ákvæðis í lögum um stjórn fiskveiða sem stjórnvöld höfðu byggt á. Benti hann á að samkvæmt ákvæðinu hefði bát A ehf. verið heimilt að stunda veiðar úr þeim tegundum sem hann hefði krókaaflamark í og enn fremur tegundum sem ekki sættu takmörkunum á leyfilegum heildarafla. Þegar atvik málsins hefðu átt sér stað hefðu veiðar á kúfskel ekki sætt takmörkunum á leyfilegum heildarafla í reglugerðum. Því hafi reynt á hvort þær reglur sem almennt giltu um veiðarfæri krókaaflamarksbáta settu bátunum skorður að þessu leyti, eins og stjórnvöld hefðu byggt á. Með vísan til orðalags og forsögu þess lagaákvæðis sem stjórnvöld byggðu á taldi umboðsmaður ekki unnt að fallast á afstöðu ráðuneytisins um skýringu þess. Jafnframt féllst hann ekki á að ákvæði þágildandi reglugerðar um veiðar í atvinnuskyni hefði átt stoð í lagaákvæðinu með þeim hætti að unnt hefði verið að byggja ákvörðun í máli A ehf. á því að það hefði gerst brotlegt við ákvæði reglugerðarinnar. Af þeim sökum og vegna þess að ekki hefði verið fjallað um þýðingu þágildandi reglugerðar um veiðar á kúfskel í úrskurði ráðuneytisins var það álit umboðsmanns að skort hefði á að sá lagagrundvöllur sem hann var byggður á hefði verið nægjanlega skýr til að áminna félagið. Var það því niðurstaða umboðsmanns að úrskurðurinn hefði ekki verið byggður á fullnægjandi lagagrundvelli.
Umboðsmaður fjallaði einnig um ýmis atriði sem hann hafði staðnæmst við í þessu máli og öðrum á sviði fiskveiða og vörðuðu aðferðir við setningu laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Benti hann á að ítrekaðar lagabreytingar á þessu sviði yfir langt árabil án þess að hugað væri að endurskoðun laganna í heild gæti orðið þess valdandi að óskýrt verði hver sé gildandi réttur. Jafnframt benti umboðsmaður á að í stjórnvaldsfyrirmælum á þessu sviði tíðkaðist að nokkru marki að í reglugerðum væri um stoð þeirra vísað almennt til laga eða jafnvel nokkurra lagabálka án þess að nánar væri tilgreint hver væri sú lagaheimild sem stjórnvaldið byggði á þegar reglugerð eða nánari ákvæði hennar væru sett. Við framsetningu stjórnvaldsfyrirmæla á þessu sviði virtist auk þess ekki hafa verið gætt að taka nægjanlega skýrt tillit til þeirrar meginreglu að veiðar úr þeim tegundum sjávardýra, sem ekki sæta takmörkun á leyfilegum heildarafla, væru frjálsar þeim skipum sem fengu leyfi til veiða í atvinnuskyni, þó með takörkunum sem leiddu af almennum reglum. Vakti umboðsmaður athygli ráðherra á þeim sjónarmiðum sem rakin voru í álitinu um lög og stjórnvaldsfyrirmæli á sviði fiskveiða með það fyrir augum að hugað yrði að því hvort og þá hvaða breytingar þyrfti að gera af því tilefni.
Umboðsmaður beindi því til ráðuneytisins að taka mál A ehf. til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem hefðu verið rakin í álitinu. Jafnframt beindi hann því til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.