A leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna afgreiðslu sveitarfélagsins X á umsókn viðkomandi um starf hjá sveitarfélaginu í fagi sem A hefur menntað sig í og hafði starfsleyfi til að sinna. Var A í kjölfarið tilkynnt af hálfu sveitarfélagsins að A gæti ekki fengið starf hjá sveitarfélaginu þar sem A hefði verið leyst frá störfum vegna veikinda árið 2014 og þegið lausnarlaun. Kvörtun A var byggð á því að ekki væri heimilt að útiloka umsækjendur frá störfum án þess að það byggðist á mati á aðstæðum hverju sinni. Bent var á að ekki hefðu legið fyrir upplýsingar um varanlegan heilsubrest A þegar A sneri ekki aftur til fyrra starfs hjá sveitarfélaginu og afstaða sveitarfélagsins ætti sér ekki stoð í kjarasamningnum. Í samræmi við framangreint beindist athugun umboðsmanns að því hvort heimilt hefði verið að líta framhjá umsókn A um starf hjá sveitarfélaginu vegna þess að viðkomandi þáði lausnarlaun nokkrum árum áður vegna annars starfs.
Umboðsmaður benti á að sveitarfélaginu X hefði verið skylt að fylgja stjórnsýslulögum og almennum grundvallarreglum í stjórnsýslurétti um undirbúning ráðningar og mat á hæfni umsækjenda í ráðningarferlinu. Ekki væri séð að mælt væri fyrir um þær takmarkanir sem sveitarfélagið byggði á í lögum eða reglum sem gilda um starfsemi sveitarfélaga eða ráðningarmál á þeirra vegum. Umrædd afstaða sveitarfélagsins ætti sér því hvorki stoð í lögum og reglum sem gilda um starfsemi sveitarfélaga né viðkomandi kjarasamningi. Þá væri ekki séð að sveitarfélagið hefði kallað eftir frekari gögnum og upplýsingum til að meta hæfi A til að gegna starfinu, þ. á m. ef það taldi sig þurfa frekari upplýsingar um heilsufar viðkomandi. Ákvörðun um að útiloka einstakling frá því að koma til greina í starf hjá sveitarfélagi þyrfti að byggjast á fullnægjandi lagaheimild.
Var það niðurstaða umboðsmanns að meðferð sveitarfélagsins á umsókn A hefði ekki verið í samræmi við skyldu þess til að meta umsækjendur um störf hjá sveitarfélaginu með tilliti til þeirrar meginreglu að velja bæri hæfasta umsækjandann að loknu heildstæðu mati á þeim sem sótt hefðu um starfið, þar sem málefnaleg sjónarmið væru lögð til grundvallar við samanburð á umsækjendum. Þar sem umsókn A hefði ekki komið til mats í ráðningarferlinu yrði ekki séð að sveitarfélagið hefði fullnægt þeirri skyldu að meta og rannsaka hæfi viðkomandi til að gegna starfinu í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Án fullnægjandi lagaheimildar hefði jafnframt verið óheimilt að tengja meðferð þessara tveggja mála saman með þeim hætti sem gert var.
Í málinu hafði sveitarfélagið X leitað eftir og fengið afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna túlkunar þess á áhrifum lausnarlauna á möguleika viðkomandi á að koma til greina í starf hjá sveitarfélaginu. Þar sem gerðar voru athugasemdir við þessa túlkun í álitinu, og í ljósi hlutverks sambandsins sem sameiginlegs málsvara sveitarfélaga í landinu, ákvað umboðsmaður því að kynna því álitið. Benti umboðsmaður jafnframt á að þetta mál og fleiri kvartanir og ábendingar sem honum hefðu borist að undanförnu vegna starfsmannamála sveitarfélaga hafi orðið honum tilefni til þess að vekja athygli samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins vegna eftirlits þess með sveitarfélögunum, og Sambands íslenskra sveitarfélaga á tilteknum atriðum er vörðuðu umrædd mál.