Gjaldeyrismál. Lagaheimild. Refsikennd viðurlög. Afturköllun. Endurupptaka.

(Mál nr. 9730/2018)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að Seðlabanki Íslands hefði synjað kröfu hans um „afturköllun“ ákvörðunar um álagningu stjórnvaldssektar sem A hafði verið gert að greiða vegna brota á reglum um gjaldeyrismál. Synjun seðlabankans á að taka mál A aftur til meðferðar byggðist einkum á því að þau sjónarmið sem hann hafði fært fram, um að bankinn hefði ekki byggt ákvörðun sína á fullnægjandi lagagrundvelli, hefðu legið fyrir þegar upphafleg ákvörðun var tekin og afstaða bankans til þeirra hefði því verið ljós á þeim tíma.

Krafa A um afturköllun og kvörtun hans til umboðsmanns byggði m.a. á því að þegar seðlabankinn tók umrædda ákvörðun hefði bankanum, ólíkt A, verið kunnugt um afstöðu ríkissaksóknara í tilteknum málum til gildis laga og reglna um gjaldeyrismál sem refsiheimilda, en hún ætti við um mál hans og hefði seðlabankanum því borið að taka tillit til hennar. Athugun umboðsmann var afmörkuð við svar seðlabankans við beiðni A um „afturköllun“ fyrri ákvörðunar bankans og þá með hliðsjón af því sem A hefði fært fram til stuðnings beiðninni og fyrri athugunum umboðsmanns á málum vegna þeirra refsiheimilda sem hefði reynt á í máli hans.

Umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að með svari Seðlabanka Íslands við erindi A um afturköllun ákvörðunar bankans hefði ekki verið leyst með fullnægjandi hætti úr erindi hans. Benti hann á að ekki yrði séð að seðlabankinn hefði við afgreiðslu málsins tekið afstöðu til þeirra röksemda sem A vísaði til beiðni sinni til stuðnings. Seðlabankanum hefði að minnsta kosti borið að leggja efnislegt mat á þær ástæður sem hann byggði beiðni sína á, og þá einkum tilvísun hans til afstöðu ríkissaksóknara til ákvæðis I til bráðabirgða við lög um gjaldeyrismál og reglna seðlabankans um gjaldeyrismál, og þá hvort þær upplýsingar hefðu getað haft þýðingu fyrir úrlausn á máli hans. Taldi umboðsmaður því að svar seðlabankans hefði ekki verið í samræmi við lög.

Þá urðu atvik málsins og ekki síður svör Seðlabanka Íslands við fyrirspurnum umboðsmanns í tilefni af kvörtun A umboðsmanni tilefni til að árétta sjónarmið sem hann hafði áður komið á framfæri við stjórnvöld um refsiheimildir vegna meintra brota á reglum um gjaldeyrismál. Tók hann fram að á þeim tíma sem hann hefði komið þeim sjónarmiðum á framfæri á árinu 2015 hefði honum ekki verið kunnugt um afstöðu ríkissaksóknara í þeim málum sem A vísaði til og öðrum málum. Benti umboðsmaður á að þrátt fyrir að hann hefði gert áþekkar athugasemdir og hefðu komið fram í afstöðu ríkissaksóknara, um heimild seðlabankans til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á reglum um gjaldeyrismál sem höfðu verið settar á grundvelli ákvæðis I til bráðabirgða við lög um gjaldeyrismál, hefði seðlabankinn ekki gert umboðsmanni grein fyrir því í samskiptum við hann. Þessi vinnubrögð sem og það hvernig skýringar seðlabankans til umboðsmanns í tilefni af kvörtun A voru úr garði gerðar taldi umboðsmaður til marks um vinnubrögð sem væru gagnrýniverð í ljósi þess eftirlits sem hann hefði með stjórnvöldum, m.a. í ljósi þess eftirlits sem umboðsmanni er falið lögum samkvæmt. Í ljósi athugasemda sem umboðsmaður hefði komið á framfæri um refsiheimildir vegna meintra brota á reglum um gjaldeyrismál og afstöðu ríkissaksóknara sem seðlabankanum hefði verið kunnugt um, og í samræmi við þá reglu að stjórnvöld þyrftu að gæta þess að ákvarðanir þeirra byggðu á réttum lagagrundvelli, taldi umboðsmaður að seðlabankinn hefði, að því marki sem erindi A hefði ekki þegar verið ráðið til lykta á grundvelli þeirra raka sem hann hefði fært fram í beiðni sinni, jafnframt þurft við úrlausn málsins að huga að lagagrundvelli ákvörðunarinnar um að leggja stjórnvaldssekt á A í heild sinni.

Umboðsmaður beindi því til Seðlabanka Íslands að taka erindi A til nýrrar meðferðar, kæmi fram ósk þess efnis frá honum, og haga þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem hefði verið gerð grein fyrir í álitinu. Jafnframt beindi umboðsmaður þeim tilmælum til seðlabankans að taka framvegis og við úrlausn sambærilegra mála mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu. Í ljósi eftirlitshlutverks bankaráðs seðlabankans ákvað umboðsmaður að senda því jafnframt afrit af álitinu til upplýsingar.