A leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir tilgreindum atriðum vegna ráðningar óperustjóra hjá Íslensku óperunni en hann var meðal umsækjenda um starfið. A taldi reglur stjórnsýsluréttar eiga við um starfsemi óperunnar og umrætt ráðningarferli.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 3. júlí 2015. Þar benti hann á að Íslenska óperan væri sjálfseignarstofnun sem stundaði atvinnurekstur eins og m.a. kæmi fram í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Af gögnum málsins yrði ráðið að hún hafi verið stofnuð með staðfestri skipulagsskrá en um hana giltu tilteknar samþykktir. Um stofnunina giltu lög nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Félagið teldist því einkaaðili þótt það fengi fjárframlög frá ríkinu. Ákvarðanir Íslensku óperunnar um ráðningu í starf væru því einkaréttarlegs eðlis en ekki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Taldi umboðsmaður því ekki lagaskilyrði til að taka ákvörðun um ráðningu óperustjóra til meðferðar og lauk athugun sinni á málinu.