Opinberir starfsmenn. Áminning. Breytingar á störfum. Andmælaréttur. Vandaðir stjórnsýsluhættir. Skráningarskylda.

(Mál nr. 2680/1999)

A starfsmaður skattstjórans í X-umdæmi kvartaði yfir skriflegri áminningu er skattstjóri umdæmisins veitti honum en hann var starfsmaður skattstofunnar. Byggðist áminningin á því að A hefði óhlýðnast löglegum fyrirmælum yfirmanns hans.

Samkvæmt starfslýsingu í erindisbréfum var A falið að sinna ýmsum tilfallandi verkefnum á skattstofunni. Taldi umboðsmaður að skattstjóra hefði verið heimilt að gefa A fyrirmæli um að hann skyldi sinna þeim verkefnum með vísan til 19. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og að gefa út erindisbréf þess efnis að hann skyldi sinna þeim. Urðu þau fyrirmæli við það hluti af starfsskyldum A á skattstofunni og brot á þeim gátu því eftir atvikum orðið tilefni áminningar af hálfu forstöðumanns stofnunarinnar, sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996. Hins vegar taldi umboðsmaður það gagnrýnisvert að við áminninguna hefði verið byggt á starfslýsingu sem kom fram í bréfi sem honum hafði verið afhent 26. nóvember 1996 en var ekki að öllu leyti í samræmi við starfslýsingu er honum hafði verið afhent síðar þann sama dag.

Í álitinu kom fram að það væri skoðun umboðsmanns að tilkynning til starfsmanns sem fyrirhugað væri að áminna, yrði a.m.k. að uppfylla tvö skilyrði og vísaði þar í fyrra álit sitt í máli nr. 2475/1998. Skýr afmörkun á því hvaða hegðun og atvik væru til athugunar hjá þar til bæru stjórnvaldi þyrfti að koma þar fram auk þess sem nauðsynlegt væri að geta þess að þau tilvik væru til athugunar með tilliti til þess hvort rétt væri að áminna viðkomandi starfsmann. Taldi umboðsmaður það vera í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að afmörkun hegðunar eða atvika lægju fyrir með skriflegum hætti við málsmeðferðina. Í skýringum skattstjórans til umboðsmanns kom fram að A hefði verið áminntur fyrir að synja um að skipta um ljósaperu í afgreiðslu og tóner í ljósritunarvél. Vafi lék á því hvort A hefði verið tilkynnt með fullnægjandi hætti á fundi hans og skattstjórans um það hvaða atvik fyrirhugað væri að áminna hann fyrir. Með vísan til fyrrgreinds álits í máli nr. 2475/1998 og dóms Hæstaréttar í máli nr. 247/1998 taldi umboðsmaður að ekki lægi fyrir að skattstjórinn hefði tilkynnt A með fullnægjandi hætti að til stæði að veita honum áminningu vegna þessara atvika. Var honum því gert ókleift að koma að athugasemdum sínum varðandi atvik þau sem lágu til grundvallar áminningu eins og hann átti rétt á skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Umboðsmaður taldi það jafnframt annmarka á málsmeðferðinni að þess hefði ekki verið gætt að rita minnisblöð um þær upplýsingar er höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins og bárust skattstjóranum munnlega. Var málsmeðferðin að þessu leyti ekki í samræmi við fyrirmæli 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 að mati umboðsmanns.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til skattstjórans að hann tæki mál A til meðferðar á ný, ef hann færi fram á það, og að þá yrði tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram kæmu í álitinu.