A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir málsmeðferð kærunefndar jafnréttismála og þeirri niðurstöðu að forsætisráðherra hefði brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla við skipun A í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu og samfélagsþróunar í ráðuneytinu. Sá einstaklingur sem kærði ákvörðun forsætisráðuneytisins til kærunefndarinnar, B, hafði höfðað mál gegn íslenska ríkinu í framhaldi af niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála og verið dæmdar miskabætur. Settur umboðsmaður taldi, með hliðsjón af niðurstöðu héraðsdómsins og þess að A hafði hvorki verið aðili að málinu hjá kærunefnd jafnréttismála né að dómsmálinu, að hann gæti tekið kvörtun A til skoðunar.
Settur umboðsmaður tók fram að í þeim tilvikum þegar einstaklingur, sem ekki hefði hlotið starf, kærði ákvörðun atvinnurekenda til kærunefndar jafnréttismála, yrði að ganga út frá því að sá er starfið hlyti teldist að jafnaði aðili að máli fyrir nefndinni, a.m.k. ef nefndin teldi að málið væri tækt til efnismeðferðar. Henni bæri þannig eftir atvikum að gæta réttaröryggisreglna stjórnsýslulaga gagnvart þeim einstaklingi við meðferð kærumálsins. Athugun setts umboðsmanns beindist að öðru leyti að því hvort sú aðferð sem kærunefnd jafnréttismála hefði lagt til grundvallar í málinu hefði verið í samræmi við lögbundið hlutverk hennar samkvæmt lögum nr. 10/2008.
Í álitinu gerði settur umboðsmaður ítarlega grein fyrir sönnunarreglu 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og matsgrundvelli kærunefndar jafnréttismála. Hann tók fram að við beitingu sönnunarreglu 4. mgr. 26. gr. laganna og matsviðmiða 5. mgr. sömu greinar yrði kærunefndin að hafa í huga þær lagareglur sem gilda um þann aðila sem ræður í starf hverju sinni. Þegar í hlut ætti opinber aðili, eins og í máli þessu, yrði beiting sönnunarreglunnar þannig að taka mið af því að hinum opinbera veitingarvaldshafa væri jafnframt skylt að gæta að skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins. Verkefni kærunefndarinnar væri ekki að endurmeta hvern hefði átt að ráða í umrætt starf heldur að taka afstöðu til þess hvort forsætisráðuneytið hefði brotið í bága við 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Kærunefndinni hefði borið að játa ráðuneytinu svigrúm við mat á þeim málefnalegu sjónarmiðum sem það hefði lagt til grundvallar og þá hvernig B og A féllu að þeim. Það félli ekki undir starfssvið kærunefndarinnar að endurskoða mat ráðuneytisins á því hvaða umsækjandi félli best að sjónarmiðum er réðu úrslitum við ráðningu í starfið nema bersýnilega hefði mátt draga þá ályktun af gögnum málsins að mat ráðuneytisins og ályktanir þess hefðu verið óforsvaranlegar og þá í andstöðu við réttmætisregluna.
Settur umboðsmaður gerði því næst grein fyrir atvikum málsins, skýringum forsætisráðuneytisins og úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Að því virtu var niðurstaða hans sú að kærunefndin hefði ekki rökstutt á fullnægjandi hátt að þau sjónarmið sem ráðuneytið hefði lagt til grundvallar, innbyrðis vægi þeirra eða mat þess á umsækjendum, hefði leitt líkur að beinni eða óbeinni mismunun á grundvelli kyns í merkingu laga nr. 10/2008. Hann fengi ekki annað séð en að kærunefndin hefði beitt öðrum matsgrundvelli en forsætisráðuneytið hefði byggt á og að nefndin hefði lagt sjálfstætt mat á hæfni A og B í ljósi þeirra sjónarmiða um menntun, starfsreynslu og aðra hæfni sem nefndin taldi málefnaleg og viðeigandi fyrir starfið. Þótt kærunefndinni bæri að taka mið af þeim atriðum sem fram kæmu í 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 fælist ekki í því ákvæði heimild til að byggja á öðrum sjónarmiðum en veitingarvaldshafi hefði lagt til grundvallar og endurmeta innbyrðis vægi þeirra með sjálfstæðum hætti, enda væru sjónarmið veitingarvaldshafans málefnaleg og mat hans heildstætt virt innan þess svigrúms sem honum væri fengið samkvæmt grundvallarreglum stjórnsýsluréttar. Slík aðferð ætti sér ekki stoð í 4. og 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Niðurstaða setts umboðsmanns var því sú að mat og aðferð kærunefndar jafnréttismála, sem hafði verið lögð til grundvallar niðurstöðu hennar í málinu, hefði ekki verið í samræmi við lögbundið hlutverk hennar samkvæmt lögum nr. 10/2008.
Settur umboðsmaður benti jafnframt á að óvissa virtist ríkja um það hver væri þýðing 4. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 en þar væri meðal annars kveðið á um að úrskurðir kærunefndarinnar væru bindandi. Með hliðsjón af því teldi hann rétt að vekja athygli Alþingis á þessari óvissu, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, með það í huga að tekin yrði skýr afstaða til þess hvaða réttaráhrif úrskurðir kærunefndar jafnréttismála skyldu hafa. Slíkt hefði enda verulega þýðingu fyrir málsaðila.
Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til kærunefndar jafnréttismála að hafa sjónarmið um aðilastöðu þess einstaklings sem hlýtur starf, sem annar umsækjandi kærir ráðningu í til kærunefndarinnar, framvegis í huga í störfum sínum. Þá tók hann fram að eins og atvikum væri háttað léti hann að öðru leyti við það sitja að beina þeim tilmælum til kærunefndar jafnréttismála að hún legði þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu til grundvallar við úrlausn síðari mála sem borin væru fyrir nefndina.