A ehf. kvartaði yfir úthlutunarreglum í auglýsingu um staðfestingu á reglum tiltekins sveitarfélags um úthlutun byggðakvóta. Kvörtunin beindist einnig að úthlutun byggðakvóta í sveitarfélaginu.
Settur umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 11. október 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Með staðfestingu ráðherra á reglum viðkomandi sveitarfélags voru sett sérstök skilyrði vegna úthlutunar byggðakvóta í tilteknu byggðarlagi innan sveitarfélagsins. Skilyrðin voru með þeim hætti að í stað þess að eingöngu skip sem höfðu landað afla í byggðarlaginu kæmu til greina við úthlutunina og löndunarskyldur þeirra væru bundnar við byggðarlagið var miðað við að skip sem hefðu landað í öðrum byggðarlögum í sveitarfélaginu kæmu einnig til greina og að jafnframt væri heimilt að landa aflanum í öðrum byggðarlögum sveitarfélagsins.
Eftir að hafa yfirfarið gögn málsins og skýringar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins vegna málsins taldi settur umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að draga í efa að ráðuneytið sjálft hefði lagt efnislegt mat á hvort uppfyllt hefðu verið skilyrði 4. málsl. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, til að fallast á tillögur sveitarfélagsins um setningu sérreglna vegna úthlutunar byggðakvóta til byggðarlagsins og þá að málefnalegar og staðbundnar ástæður og hagsmunir byggðarlagsins hefðu staðið til þess. Þar leit settur umboðsmaður m.a. til þess að tilteknar breytingar höfðu verið gerðar á almennum úthlutunarreglum um byggðakvóta. Ákvörðun um að mæla fyrir um að skip sem hefðu landað í öðrum byggðarlögum í sveitarfélaginu kæmu til greina við úthlutun byggðakvótans hefði verið reist á sjónarmiði um að viðhalda ákveðinni samfellu í fyrirkomulagi sem hafði verið í gildi við úthlutun byggðakvóta árið áður. Þannig hefði verið leitast við að koma til móts við þá sem landað höfðu innan sveitarfélagsins á undangengnu fiskveiðiári. Settur umboðsmaður taldi því ekki sýnilegt að sérreglan gengi gegn réttmætum væntingum einstakra aðila sem áttu hagsmuna að gæta. Hann taldi því ekki forsendur til að draga í efa að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefði lagt grundvöll að mati sínu á því að þessi sérregla auglýsingarinnar hefði samrýmst því efnisskilyrði laga nr. 116/2006 að vera reist á „málefnalegum og staðbundnum“ ástæðum.
Hvað varðaði sérregluna um að heimilt væri að landa afla innan annarra byggðarlaga í sveitarfélaginu minnti settur umboðsmaður á að ástæða þess hefði verið að ekki hefði verið fiskvinnsla í byggðarlaginu sjálfu. Tillaga um að afli yrði lagður á fiskmarkað innan sveitarfélagsins hefði verið sett fram til þess að hámarka vinnu í sveitarfélaginu vegna úthlutunarinnar, enda væri byggðakvóti ekki styrkur til útgerðaraðila heldur byggðatengdur og hefði þann tilgang að vera til hagsbóta fyrir byggðarlög sveitarfélags, jafnt fyrir aðra íbúa þess sem útgerðaraðila. Settur umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til þess að fullyrða að á hefði skort að ákvörðun ráðuneytisins um að staðfesta tillögu sveitarfélagsins að sérreglu um löndunarskyldu hefði byggst á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og þá að virtu því markmiði með byggðakvóta að styrkja og efla útgerð og fiskvinnslu í sjávarbyggðum. Settur umboðsmaður lauk því athugun sinni á kvörtuninni.