Útgerðarfélagið A ehf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins þar staðfest var ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2009/2010 til tiltekins fiskiskips. Í úrskurðinum var lagt til grundvallar að skilyrði 6. gr. reglugerðar nr. 82/2010 um löndunarskyldu innan byggðarlaga sveitarfélags þar sem kvótanum var úthlutað hefði ekki verið fullnægt og því kæmi ekki til frekari úthlutunar til fiskiskipsins.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. júní 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Þar sem í stjórnsýslukæru A ehf. kom fram að allur afli sem veiddur var í þorskanet hefði verið seldur til vinnslu í öðru sveitarfélagi taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemd við það mat sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að ekki hefði verið verið uppfyllt skilyrði 6. gr. reglugerðar nr. 82/2010 og auglýsingar nr. 163/2010, um skyldu til að landa afla innan hlutaðeigandi byggðarlaga fyrir úthlutun annars aflamarks sem upphaflega hafði verið úthlutað til bátsins af byggðakvóta.
Umboðsmaður fékk ekki séð að Verðlagsstofa skiptaverðs hefði það stjórnsýsluhlutverk að lögum að ákveða sjálfstætt verð fyrir afla eins og mælt væri fyrir um í 7. gr. reglugerðar nr. 82/2010. Þá tók hann fram að Alþingi hefði með 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, gert ráðherra að kveða á lágmarksverð fyrir afla sem er úthlutað af byggðakvóta en ráðherra hefði við útgáfu reglugerðar nr. 82/2010 valið leið sem í reynd fæli ekki í sér beina ákvörðun um hvaða verð sú fiskvinnsla sem kaupir umræddan afla til vinnslu bæri að greiða. Umboðsmaður fékk því ekki séð að A ehf. gæti byggt á því að lagaheimild hefði staðið til þess víkja frá skilyrðinu um löndun afla innan sveitarfélags þar sem verð sem fiskverkun í byggðarlaginu vildi greiða fyrir aflann hefði verið undir viðmiðunarverðum Verðlagsstofu skiptaverðs. Umboðsmaður taldi þar af leiðandi ekki tilefni til að gera athugasemd við þá afstöðu ráðuneytisins sem fram kom í úrskurði í máli A ehf. að þrátt fyrir ákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 82/2010 væri ekki heimild í ákvæðum laga og stjórnvaldsfyrirmæla til að verða við kröfum A ehf. um að bátnum yrði úthlutað fullum byggðakvóta byggt á því magni sem báturinn landaði í byggðarlaginu og „hefði selt til vinnslu á staðnum ef skilyrði um lágmarksverð [hefðu] verið uppfyllt“.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu en vakti athygli A ehf. á því að ef félagið teldi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þess annmarka sem væri á 7. gr. reglugerðar nr. 82/2010 yrði að leysa úr því á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar og þá um hugsanlega skaðabótaskyldu ríkisins. Það yrði að vera hlutverk dómstóla að fjalla um slíkt. Þá ákvað umboðsmaður að rita sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bréf þar sem hann kom á framfæri tilteknum ábendingum vegna athugunar sinnar á málinu.