Sjávarútvegsmál.

(Mál nr. 6623/2011)

Samtökin A kvörtuðu yfir banni við dragnótaveiðum út af Ströndum, sbr. reglugerð nr. 296/2011. Samtökin töldu bannið ólögmætt og fela í sér takmörkun á stjórnarskrárvörðum atvinnuréttindum félagsmanna sinna. Jafnframt töldu A að reglugerðin ætti sér ekki lagastoð.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 13. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. og a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að reglugerð nr. 296/2011 væri samskonar að efni til og reglugerð nr. 678/2010, þ.e. hún fæli í sér að veiðar með dragnót væru bannaðar á tilteknu svæði á ákveðnu tímabili. Bannið væri þannig tímabundið, staðbundið og takmarkað við tiltekið veiðarfæri. Að því virtu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 443/2011, þar sem reglugerð nr. 678/2010 var talin eiga sér viðhlítandi stoð í 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, féllst umboðsmaður ekki á að umrædd reglugerð ætti sér ekki lagastoð. Að virtum tilgangi laga nr. 79/1997 og efni ákvæða 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 8. gr. laganna taldi umboðsmaður sig enn fremur ekki hafa forsendur til að gera athugasemd við þau sjónarmið sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið lagði til grundvallar við setningu reglugerðar nr. 296/2011 og rakin voru í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins. Í því sambandi tók umboðsmaður m.a. fram að af skýringunum yrði ráðið að bannið hefði m.a. verið byggt á því sjónarmiði að veiðum með ólíkum veiðarfærum sem ekki færu saman yrði haldið aðskildum með skipulögðum hætti. Umboðsmaður taldi að ekki yrði betur séð, að teknu tilliti til niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 442/2011 og lögskýringargagna með lögum nr. 79/1997, en að bannið hefði að þessu leyti byggst á málefnalegum og lögmætum forsendum. Með vísan til þessa taldi umboðsmaður að reglugerð nr. 296/2011 fæli ekki í sér brot gegn atvinnuréttindum félagsmanna A. Hann taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar út af kvörtuninni og lauk umfjöllun sinni um málið.