Sjávarútvegur.

(Mál nr. 6273/2011)

A ehf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þar sem staðfest var ákvörðun um að synja um flutning á grásleppuveiðileyfi til A.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um málið með bréfi, dags. 20. september 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. og c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Af gögnum málsins varð ekki séð að A ehf. hefði, í kjölfar sölu á bátnum X til Y ehf. árið 2005, tilkynnt Fiskistofu um að grásleppuveiðileyfið ætti ekki að fylgja bátnum, svo sem skylt var. Í því sambandi tók umboðsmaður fram að umsókn A um flutning á grásleppuveiðiréttindum til geymslu hefði ekki getað falið í sér slíka tilkynningu, en auk þess hefði sú umsókn verið lögð fram tveimur mánuðum áður en báturinn var seldur. Umboðsmaður gat því ekki fallist á að í umsókninni hefði verið fólgin tilkynning um að til stæði að skilja leyfið frá X og skrá það á A ehf. eingöngu. Þá taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að draga í efa að Fiskistofu hefði fyrst orðið kunnugt um söluna á X til Y ehf. í febrúar árið 2010 en A hafði ekki lagt fram gögn sem sýndu fram á annað. Að virtum fyrirliggjandi gögnum málsins taldi umboðsmaður sig jafnframt ekki hafa forsendur til að gera athugasemd við þá afstöðu ráðuneytisins að A ehf. hefði ekki sinnt tilkynningarskyldu um eigendaskipti samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006. Þá taldi umboðsmaður eðlilegra að dómstólar leystu úr ágreiningi A ehf. annars vegar og Fiskistofu og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins hins vegar um atvik málsins, þ.e. hvort Fiskistofa hefði gert mistök með því að taka ekki til frekari athugunar athugasemd í afsali Z ehf., sem hafði keypt bátinn X af Y ehf. og síðar selt hann Þ en haldið veiðileyfinu, um að grásleppuveiðileyfi fylgdi ekki með í sölunni til Þ, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður taldi hins vegar að sá annmarki væri á úrskurði ráðuneytisins í málinu að fullyrðing í honum, um að samkvæmt skrám Fiskistofu hefði grásleppuleyfi fylgt bátnum X til þess tíma er Y ehf. gaf út afsal fyrir honum hefði ekki byggst á fullnægjandi forsendum. Umboðsmaður taldi sig hins vegar ekki hafa forsendur til að fullyrða að annmarkinn væri með þeim hætti að úrskurðurinn væri í heild sinni ólögmætur, m.a. vegna brots A ehf. á tilkynningarskyldu og ágreinings félagsins við stjórnvöld um atvik málsins. Þau sjónarmið taldi umboðsmaður einnig eiga við um þá afstöðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, að andmælaréttur hefði ekki verið brotinn á A ehf. þegar Fiskistofa skráði umrætt grásleppuveiðileyfi í geymslu á nafn og kennitölu Y ehf., þar sem A ehf. hefði ekki átt aðild að því máli.