A ehf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefði ekki svarað erindi fyrirtækisins varðandi úthlutun byggðakvóta í sveitarfélaginu X fyrir fiskveiðiárið 2006/2007.
Umboðsmaður rakti að A ehf. hefði lagt erindi sitt fram hjá ráðuneytinu í apríl 2009. Málið væri engu að síður óafgreitt og hefði því verið til meðferðar í ráðuneytinu í 22 mánuði. Umboðsmaður taldi tafir á meðferð málsins ekki samrýmast gildandi rétti um málshraða og svör stjórnvalda við skriflegum erindum. Þá höfðu einnig orðið verulegar tafir á því að umboðsmanni bærust svör við fyrirspurnum sem hann sendi ráðuneytinu vegna þessa máls.
Umboðsmaður mæltist til þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið tæki mál A ehf. til úrlausnar og afgreiðslu án frekari tafa. Teldi ráðuneytið að það þyrfti frekari tíma til að svara erindinu voru það jafnframt tilmæli umboðsmanns að ráðuneytið gerði A ehf. grein fyrir því hverjar væru ástæður þess og hvenær vænta mætti svars. Þá beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að það hefði þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu framvegis í huga í störfum sínum. Að lokum mæltist umboðsmaður til þess að gerðar yrðu ráðstafanir til að tryggja að dráttur af því tagi sem varð á svörum til umboðsmanns Alþingis endurtæki sig ekki.