A kvartaði til umboðsmanns f.h. B og C ehf. og leitaði álits á því hvort framkvæmd sjávarútvegsráðuneytisins og sveitarfélagsins Æ á úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2005/2006 hefðu verið samkvæmt lögum. Athugun umboðsmanns beindist einkum að því almenna fyrirkomulagi sem ákveðið var, með birtingu auglýsingar nr. 412/2006 (VI), um staðfestingu reglna sveitarfélags, að viðhafa við úthlutunina í sveitarfélaginu Æ.
Umboðsmaður tók fram að sjávarútvegsráðuneytið hefði fallist á þá tillögu við úthlutun byggðakvóta í Æ að hún færi fram á grundvelli samnings sveitarfélagsins við einkaaðila, þ.e. fiskverkendur og útgerðaraðila, í byggðarlaginu. Samkvæmt efni samningsins hefði tilgangur hans verið sá að efla byggð í Æ með því að auka aflamark byggðarlagsins með skipulögðum hætti. Að þessu marki hefði verið stefnt með því að setja það skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta að umsækjendur tækjust á hendur skuldbindingu um að greiða fé í sérstakan kvótasjóð sem rekinn var á grundvelli samningsins. Umboðsmaður benti á að sérstök stjórn hefði farið með umsjón sjóðsins. Hlutverk hennar hefði verið að ákveða hversu mikill kvóti yrði keyptur eða leigður fyrir það fé sem til væri í kvótasjóðnum við hverja úthlutun. Greiðsla fyrir þann kvóta skyldi vera innt af hendi áður en eiginleg úthlutun byggðakvótans færi fram. Umboðsmaður leit svo á að með því að bæjarstjórn Æ hefði útfært úthlutunina með samningsfyrirkomulagi og sjávarútvegsráðuneytið staðfest það fyrirkomulag með birtingu auglýsingar nr. 412/2006, lægi fyrir að stjórnvöld ákváðu, a.m.k að hluta til, að víkja frá því almenna fyrirkomulagi að ákvarðanir um úthlutun byggðakvótans skyldu byggðar á einhliða ákvörðunum sem þau tækju á grundvelli þeirra reglna sem kæmu fram í lögum um stjórn fiskveiða og stjórnsýslulögum, auk hinna almennu reglna sem giltu um ákvarðanir og meðferð stjórnsýsluvalds. Umboðsmaður dró þá ályktun af því fyrirkomulagi sem kom fram í samningnum að aðrir en þeir sem voru aðilar að honum hefðu ekki komið til greina við tillögugerð sveitarfélagsins Æ um það hverjum skyldi úthlutað byggðakvóta. Þeir sem sóttust eftir úthlutun hefðu því þurft að vera aðilar að honum.
Umboðsmaður tók fram í áliti sínu að miðað við efni samningsins og réttindi og skyldur aðila að honum svipaði samningnum um margt til samþykkta félags eða félagssamnings. Benti umboðsmaður á að sjávarútvegsráðherra hefði með staðfestingu sinni á því að úthlutun byggðakvóta í Æ skyldi fara fram skv. samningnum í reynd verið að kveða á um skylduaðild þeirra sem gátu notið úthlutunar byggðakvóta að því verkefni sem stofnað var til með samningnum. Umboðsmaður taldi rétt að vekja sérstaka athygli sjávarútvegsráðuneytisins á ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, sem mæli fyrir um að skerða megi hið neikvæða félagafrelsi sem felist í 1. málsl. 2. mgr. 74. gr., með tilliti til þess að ekki yrði séð í gildandi lögum á þeim tíma sem samningurinn var gerður að löggjafinn hefði tekið afstöðu til þess að unnt væri að fara þessa leið.
Um það skilyrði að umsækjendur um byggðakvóta hefðu þurft að greiða fjárhæð í sérstakan kvótasjóð sem stjórn samstarfsverkefnisins ákvað með atbeina sveitarstjórnar Æ sagði umboðsmaður að almennt yrði að vera fyrir hendi sérstök lagaheimild til þess að stjórnvöld gætu við úthlutun takmarkaðra gæða gert það að skilyrði að þeim sem úthlutað yrði inntu af hendi sérstaka fjárgreiðslu. Það var niðurstaða umboðsmanns að ekki hefði verið fullnægjandi lagagrundvöllur í þágildandi 9. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, fyrir því að setja slíkt skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta úr hendi sjávarútvegsráðherra.
Umboðsmaður komst einnig að þeirri niðurstöðu að með þeirri ákvörðun að úthlutun byggðakvóta í Æ skyldi fara samkvæmt samstarfssamningi Æ við fiskverkendur og útgerðarmenn hefði sjávarútvegsráðherra í raun framselt ákvörðunarvald um hverjum yrði úthlutað kvótanum til aðila og stjórnar samstarfsverkefnisins. Aðkoma sveitarstjórnar Æ að því að samþykkja eða synja tillögu stjórnar verkefnisins um úthlutunina, sbr. gr. 5.3 í samningnum, hefði í reynd verið formsatriði. Hefðu að minnsta kosti ekki verið gerðir fyrirvarar um annað í samningnum. Tók umboðsmaður fram að þeir sem voru aðilar að verkefninu eða stóðu utan við það hefðu ekki getað gert kröfu um að stjórn verkefnisins fylgdi þeim reglum sem fram komu í stjórnsýslulögum, upplýsingalögum eða sveitarstjórnarlögum og öðrum þeim réttaröryggisreglum sem giltu um störf og ákvarðanatöku stjórnvalda.
Niðurstaða umboðsmanns var að sjávarútvegsráðherra hefði ekki haft til þess fullnægjandi heimild að lögum að ákveða með auglýsingu nr. 412/2006 að úthlutun byggðakvóta í Æ fiskveiðiárið 2005/2006 skyldi fara samkvæmt samstarfssamningi Æ við fiskverkendur og útgerðarmenn frá 1. mars 2006. Umboðsmaður gerði einnig athugasemdir við það að í þeim reglum sem birtar voru með auglýsingu nr. 412/2006 hefði ekki verið lýst úthlutunarfyrirkomulagi og skilyrðum sem umsækjendur skyldu fullnægja fyrir úthlutun, heldur vísað til samnings sem sjávarútvegsráðuneytið hafði undir höndum. Taldi hann að í auglýsingunni hefði a.m.k. þurft að birta helstu efnisreglur og skilyrði sem umsækjendur þurftu að uppfylla til að fá úthlutað byggðakvóta í Æ. Þar sem það var ekki gert fullnægði auglýsingin ekki kröfum sem leiddu af 2. mgr. 9. gr. laga nr. 38/1990, með síðari breytingum, um að ráðherra skyldi setja reglugerð um nánari framkvæmd við úthlutun byggðakvótans. Umboðsmaður gerði einnig athugasemd við það að sjávarútvegsráðuneytið hefði staðfest úthlutun til tveggja báta. Taldi hann að staðfestingin hefði ekki verið í samræmi við þau efnisskilyrði sem komu fram í gr. 5.5 í samstarfssamningi Æ við fiskverkendur og útgerðaraðila og þurfti að uppfylla til að fá úthlutað byggðakvóta. Loks fann umboðsmaður að því að bæjarstjórn Æ hefði hvorki kynnt úthlutunarreglur þær sem komu fram í samstarfssamningnum né gefið aðilum kost á að sækja um byggðakvóta eftir að sjávarútvegsráðuneytið hefði birt auglýsingu nr. 412/2006 í B–deild Stjórnartíðinda. Var talið að þessi framkvæmd hefði ekki verið í samræmi við fyrirmæli reglugerðar nr. 722/2005, um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2005/2006. Ráðuneytið hefði ekki gætt þess að ganga úr skugga um að Æ hefði gætt þeirra formskilyrða og reglna sem leiddu af reglugerðinni áður en það féllst á tillögur Æ um úthlutanir til einstakra skipa, sbr. þær kröfur sem leiða af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.
Umboðsmaður beindi ekki þeim tilmælum til sjávarútvegsráðuneytisins að það tæki mál A til endurskoðunar kæmi fram ósk um það frá honum. Hins vegar tók hann fram að teldi A eða aðrir, sig hafa borið skarðan hlut frá borði vegna þeirra annmarka sem voru á ákvörðunum sjávarútvegsráðherra í málinu yrði ekki leyst úr því með öðrum hætti en í hugsanlegu skaðabótamáli. Það yrði að vera hlutverk dómstóla að fjalla um slíkt. Umboðsmaður ítrekaði fyrri ábendingar sínar til ráðuneytisins um að betur yrði framvegis vandað til stjórnsýslu ráðuneytisins við ákvarðanir um hvaða reglum skyldi fylgt við úthlutun byggðakvóta samkvæmt. lögum um stjórn fiskveiða.