A leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem laut að ákvörðun skólastjóra X í Hafnarfirði um að hætta við ráðningu í starf deildarstjóra tómstundamiðstöðvar við skólann á þeirri forsendu að enginn umsækjenda væri hæfur til að gegna því. A var meðal umsækjenda um starfið og hafði þegið boð um það. Í kvörtun A var byggt á því að ekki hefðu verið forsendur til að falla frá ráðningunni, enda hefði hann fullnægt þeim hæfnikröfum sem hefðu verið gerðar til starfsins, þar á meðal kröfu um menntun. Athugun umboðsmanns laut einkum að þeim hæfnikröfum sem gerðar voru til starfsins, nánar tiltekið þeirri kröfu um menntun sem fram kom í auglýsingu starfsins. Þá laut athugunin jafnframt að þeirri málsmeðferð sem fram fór í kjölfar þess að A var boðið starfið og hvort afturköllun þeirrar ákvörðunar hefði verið lögmæt.
Í auglýsingu um starfið var tilgreind sú menntunarkrafa að viðkomandi hefði bakkalár háskólapróf, svo sem á sviði uppeldis- og menntunarfræði, tómstundafræði „eða annað háskólanám sem nýtist í starfi“. Fyrir lá að A var með bakkalárpróf í stjórnmálafræði. Umboðsmaður taldi ekki hægt að fallast á að umsækjendur um starfið hefðu mátt vænta þess að með auglýsingunni væri þess krafist að umsækjendur hefðu lokið bakkalárnámi sem teldist „sambærilegt“ námi á sviði uppeldis- og menntunarfræði eða tómstundafræði og að annað nám væri þar með útilokað. Þvert á móti hefði orðalag auglýsingarinnar gefið til kynna að einstaklingar með bakkalárpróf af öðrum sviðum kæmu til greina, svo lengi sem námið nýttist í starfinu.
Með hliðsjón af þessu fjallaði umboðsmaður um hvort skilyrði hefðu verið til staðar til að afturkalla ráðningu A. Hún tók meðal annars fram að sveitarfélagið hefði kosið að orða auglýsinguna með fyrrgreindum hætti og þar með hefðu umsækjendur mátt hafa ákveðnar væntingar um að þeir uppfylltu þær kröfur sem þar kæmu fram, þar á meðal um menntun. A hefði sótt um starfið á þessum grundvelli og ekki yrði annað ráðið en að mat hefði farið fram á hæfni hans til að gegna starfinu, þar á meðal á menntun hans auk reynslu, og niðurstaða þess mats hefði verið sú að hann fullnægði þeim kröfum sem hefðu komið fram í auglýsingu starfsins. Taldi umboðsmaður ekki hægt að fallast á að skilyrði hefðu verið til þess að afturkalla ráðningu A.
Því næst fjallaði umboðsmaður nánar um málsmeðferð við afturköllun ráðningarinnar. Benti hún meðal annars á að A hefði ekki verið upplýstur um að til stæði að afturkalla fyrri ákvörðun sveitarfélagsins um ráðningu. Hann hefði því ekki fengið tækifæri til að tjá sig um efni málsins áður en ákvörðun um ráðninguna hefði verið afturkölluð. Umboðsmaður taldi jafnframt að við meðferð málsins hefðu komið í ljós nýjar upplýsingar sem A hefði verið ókunnugt um að væru meðal gagna málsins og af efni tiltekinna samskipta á milli starfsmanna bæjarins yrði óhjákvæmilega dregin sú ályktun að um hefði verið að ræða upplýsingar sem gátu verið A í óhag og þar með haft verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Því hefði borið að upplýsa hann um þessar upplýsingar og gefa honum færi á að nýta andmælarétt sinn. Hefði málsmeðferðin því ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Hafnarfjarðarbæjar að leita leiða til að rétta hlut A og að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 28. nóvember 2025.