Félagið A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun innviðaráðherra um að staðfesta tillögu svæðisráðs að strandsvæðisskipulagi Austfjarða. Í kvörtuninni voru meðal annars gerðar athugasemdir við hæfi starfsmanns innviðaráðuneytisins vegna aðkomu hans að gerð strandsvæðisskipulagsins í fyrra starfi hans hjá Skipulagsstofnun. Byggt var á því að hann hefði tekið þátt í meðferð málsins í báðum störfum. Athugun umboðsmanns var afmörkuð við það álitaefni hvort aðkoma umrædds starfsmanns að staðfestingu strandsvæðisskipulagsins hefði verið í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar um sérstakt hæfi.
Samkvæmt gögnum málsins lá fyrir að á meðan tillaga svæðisráðs var til meðferðar hjá ráðuneytinu sat starfsmaðurinn fund innviðaráðherra með fulltrúum A þar sem málefni strandsvæðisskipulags Austfjarða var til umræðu. Þá vann starfsmaðurinn jafnframt drög að minnisblaði fyrir skrifstofustjóra í ráðuneytinu þar sem dregið var saman hvert hlutverk þess væri við afgreiðslu tillögu að strandsvæðisskipulagi, farið var yfir feril málsins hjá svæðisráðinu og dæmi voru tekin um aðra stefnumörkun stjórnvalda sem horfa þyrfti til við afgreiðsluna.
Umboðsmaður vísaði til þess að starfsmaðurinn hefði unnið að undirbúningi tillögu svæðisráðs að strandsvæðisskipulagi Austfjarða í starfi sínu hjá Skipulagsstofnun og setið alla 17 fundi ráðsins frá skipun þess þar til skipulagstillaga ráðsins var samþykkt og send ráðherra til staðfestingar. Hún taldi ekki fara á milli mála að slík aðkoma starfsmanns að undirbúningi og meðferð ákvörðunar væri almennnt til þess fallin að hann brysti hæfi til að taka þátt í meðferð málsins hjá öðru stjórnvaldi sem ætlað væri að hafa eftirlit með því að sú ákvörðun væri í samræmi við lög. Þá taldi umboðsmaður ekki unnt að líta svo á að hagsmunir starfsmanns af því að fyrri ákvörðun hans væri bæði lögleg og rétt við þessar aðstæður væru svo smávægilegir að ekki væri hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hefðu áhrif á hann við úrlausn málsins.
Umboðsmaður taldi jafnframt að þrátt fyrir að í minnisblaði starfsmannsins hefði ekki verið tekin afstaða til lögmætis tillögu svæðisráðs gæti hún ekki litið fram hjá því að með því að fela honum að taka saman slíkt minnisblað, sem ætlað var að fjalla um hlutverk ráðuneytisins við afgeiðslu tillögu svæðisráðs og tiltekin atriði sem horfa þyrfti til við afgreiðslu þess, hefði starfsmaðurinn í reynd verið í slíkri aðstöðu að hann hefði getað haft áhrif á þann farveg sem athugun ráðherra færi í, sem orðuð væri með víðtækum og matskenndum hætti í lögum. Umboðsmaður gat því ekki fallist á að þáttur starfsmannsins hefði verið svo lítilfjörlegur að augljóst væri að ekki hefði verið hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hefðu áhrif á úrlausn málsins, þótt því yrði ekki slegið föstu að slík sjónarmið hefðu þar í reynd verið lögð til grundvallar. Það var því niðurstaða umboðsmanns að aðkoma starfsmannsins hefði ekki verið í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar um sérstakt hæfi.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til félags- og húsnæðismálaráðuneytisins, sem tekið hafði við skipulagsmálum frá innviðaráðuneytinu, að taka til skoðunar hvort og þá hvaða áhrif þessi niðurstaða hefði á ákvörðun innviðaráðherra um að staðfesta strandsvæðisskipulag Austfjarða. Einnig beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að hafa þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu í huga í störfum sínum.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 11. apríl 2025.