Skattar og gjöld. Endurupptaka. Kæruleiðbeiningar. Hlutverk lægra settra stjórnvalda í kærumálum borgaranna. Vandaðir stjórnsýsluhættir. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. F99/2021)

Umboðsmaður tók til athugunar þá afstöðu ríkisskattstjóra að synjun um endurupptöku máls á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga fæli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun og þar af leiðandi væri ekki fyrir hendi kæruréttur til yfirskattanefndar vegna hennar. Jafnframt var tekin til skoðunar framsetning og efni umsagnar ríkisskattstjóra í kærumáli sem bar yfirskriftina „kröfugerð“ og þar sem „krafist“ var frávísunar á stjórnsýslukæru til yfirskattanefndar. Umboðsmaður hafði veitt þessum atriðum athygli við athugun á kvörtun frá skattaðila yfir úrskurði yfirskattanefndar og tók þau til athugunar með tilliti til þess hvort þau væru til marks um almenna starfshætti og framgöngu ríkisskattstjóra.

Umboðsmaður taldi að leggja yrði til grundvallar að ákvörðun um að synja beiðni um endurupptöku máls lyti að rétti aðila þess að lögum og væri þar af leiðandi ákvörðun um rétt hans eða skyldu í skilningi stjórnsýslulaga. Slíkar ákvarðanir væru kæranlegar til æðra stjórnvalds á grundvelli almennrar kæruheimildar stjórnsýslulaga eða sérstakra kæruheimilda ef ekki væri kveðið á um takmarkanir að þessu leyti í lögum. Það væri þá verkefni æðra stjórnvaldsins að leggja mat á og taka afstöðu til þess hvort skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga væri fullnægt. Niðurstaða slíkrar endurskoðunar gæti verið að staðfesta synjunina eða leggja fyrir lægra setta stjórnvaldið að taka endurupptökubeiðni til nýrrar umfjöllunar. Stjórnvaldi sem hefði synjað eða vísað frá beiðni um endurupptöku bæri því að leiðbeina aðila máls um rétt sinn til þess að fá málið endurupptekið. Umboðsmaður taldi því að sú afstaða sem hafði kom fram af hálfu ríkisskattstjóra um eðli þessara ákvarðana hefði ekki verið í samræmi við lög og leiðbeiningar embættisins í máli því sem leiddi til athugunarinnar ekki hafa fullnægt áskilnaði stjórnsýslulaga um kæruleiðbeiningar. Í þessu sambandi benti umboðsmaður á að væri ekki unnt að kæra ákvörðun ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar kynni að vera hægt að leita til fjármála- og efnahagsráðherra með stjórnsýslukæru. Hún taldi jafnframt að af málinu yrði ráðið að almenn stjórnsýsluframkvæmd ríkisskattstjóra að þessu leyti hefði ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður rakti einnig að hlutverk lægra setts stjórnvalds við stjórnsýslukæru væri einkum að stuðla að því að það yrði leitt til lykta í samræmi við lög og réttar upplýsingar en ekki að koma í veg fyrir að máli fái efnislega skoðun. Það sé hlutverk æðra stjórnvaldsins að gæta þeirra opinberu hagsmuna sem kunna að felast í því að kæruskilyrðum sé fullnægt. Aðkoma lægra setta stjórnvaldsins takmarkist hins vegar almennt við að veita upplýsingar eða skýringar á hinni kærðu ákvörðun, sem með hlutlægri umsögn eða skýringum á því hvernig leyst hefur verið úr máli og þar sem við á, koma á framfæri leiðréttingum og öðrum athugasemdum við efni stjórnsýslukæru, eftir atvikum að sérstakri beiðni æðra stjórnvaldsins. Hún taldi að þótt ríkisskattstjóra væru falin tiltekin verkefni lögum samkvæmt og bæri að gæta að almannahagsmunum á þeim grundvelli yrði ekki annað ráðið af gildandi lögum en að embætti hans væri ætlað að hafa aðkomu að kærumálum fyrir nefndinni með þeim hætti sem leiddi af almennum reglum stjórnsýsluréttar. Umboðsmaður mæltist til þess að framvegis yrði tekið mið af sjónarmiðum sem rakin voru á álitinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 9. janúar 2025.