A leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem beindist að úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála. Með úrskurðinum staðfesti nefndin ákvörðun Tryggingastofnunar um endurútreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A en við uppgjörið var farið með greiðslur sem hún fékk vegna örorku frá norsku vinnu- og velferðarstofnuninni (NAV) sem erlendan lífeyri sem hefði sömu áhrif á tekjutryggingu hennar og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Þar sem slíkar greiðslur töldust til tekna komu þær til skerðingar á tekjutryggingu hennar. Athugun umboðsmanns laut að þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að greiðslur A frá NAV teldust ekki sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, eins og ákvæði laganna yrðu skýrð með hliðsjón af skuldbindingum íslenska ríkisins á grundvelli EES-samningsins.
Umboðsmaður rakti þágildandi ákvæði laga um almannatryggingar en samkvæmt þeim taldist lífeyrir á meðal þeirra tekna sem kæmu til skerðingar á tekjutryggingu örorkulífeyrisþega. Hins vegar töldust bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og sambærilegar bætur frá ríkjum sem væru aðilar að EES-samningnum ekki til slíkra tekna. Umboðsmaður tók fram að við úrslausn á því hvort örorkubæturnar sem A fengi frá NAV í Noregi teldust sambærilegar bótum almannatrygginga reyndi á þær reglur sem giltu samkvæmt EES-samningnum um hvernig haga skyldi greiðslu bóta vegna örorku þegar einstaklingur fengi greiddar slíkar bætur frá fleiri en einu aðildarríki EES-samningsins. Helstu reglur þess efnis væri að finna í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) um samræmingu almannatryggingakerfa, sem tekin hefði verið upp í EES-samninginn og innleidd í íslenskan rétt.
Umboðsmaður taldi ljóst að þær greiðslur sem um ræddi í málinu féllu undir gildissvið reglugerðarinnar. Þegar tekin væri afstaða til þess hvort greiðslur A frá NAV ættu að hafa sambærileg áhrif til skerðingar á tekjutryggingu hennar og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum yrði að meta hvort greiðslurnar sem hún fengi frá Noregi væru jafngildar bótum almannatrygginga í skilningi reglugerðarinnar. Vísaði umboðsmaður til þess að af hálfu ESB-dómstólsins hefði verið lagt til grundvallar að þegar leyst væri úr því hvort bætur í einu ríki teldust jafngildar bótum sem greiddar væru úr öðru EES-ríki yrði að líta til þess hvort bæturnar væru sambærilegar með hliðsjón af því markmiði sem stefnt væri að með greiðslu bótanna og efni þeirrar löggjafar sem bótagreiðslurnar byggðu á.
Það var niðurstaða umboðsmanns að þegar ákvæði norsku almannatryggingalaganna væru virt heildstætt gæti hann ekki fallist á þá afstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála að örorkubætur þeirra og bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar teldust ekki jafngildar. Þá taldi hann að leggja yrði til grundvallar að örorkubætur A frá NAV teldust sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, eins og ákvæði laganna yrðu skýrð með hliðsjón af EES-samningnum. Var það því niðurstaða umboðsmanns að úrskurður nefndarinnar hefði ekki verið í samræmi við lög.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar að taka mál A upp að nýju, kæmi fram ósk um það frá henni, og leysa þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakinu væru í álitinu. Þá beindi umboðsmaður því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem þar væru rakin við úrslausn sambærilegra mála.