Opinberir starfsmenn. Framhaldsskólar.

(Mál nr. 12913/2024)

Kvartað var yfir ákvörðun mennta- og barnamálaráðherra um að synja umsókn um námsorlof á þeim grundvelli að það hillti undir lok starfsævi umsækjandans.  

Af svörum ráðuneytisins varð ekki annað ráðið en að ráðherra hefði byggt niðurstöðu sína á heildstæðu mati á þeim sjónarmiðum sem talin eru upp í reglu­gerð um námsorlof, þ.m.t. sjónarmiðum um eðlilega dreifingu milli skólastofnana og hvernig námið kæmi til með að nýtast viðkomandi stofnun og tengdist starfi viðkomandi. Í kvörtun var gerð athugasemd við að litið hefði verið til þess að starfsævi umsækjandans lyki senn. Umboðsmaður taldi í sjálfu sér ekki tilefni til athugasemda við að við mat á því sjónarmiði hvort og hvernig námið kæmi til með að nýtast skólastofnun og skólakerfi gæti verið málefnalegt að horfa til þess hvort starfslok væru í augsýn. Ekki yrði séð að það sjónarmið hefði ráðið úrslitum við mat á umsókninni heldur yrði ráðið af svörum ráðuneytisins að synjunin hefði byggst á heildstæðu mati á þeim sjónarmiðum sem það hefði lagt til grundvallar. Taldi umboðsmaður ekki tilefni til athugasemda við niðurstöðu ráðherra.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi 17. október 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 11. september sl. yfir ákvörðun mennta- og barnamálaráðherra í desember 2023 um að synja umsókn yðar um námsorlof fyrir skólaárið 2024-2025. Í kvörtuninni sagði að ráðherra hefði grundvallað ákvörðunina á því að starfsævi yðar væri að ljúka. Þess var óskað að umboðsmaður tæki til athugunar afgreiðslu á umsókn yðar svo og hvort meðferð umsókna um námsorlof almennt væri í samræmi við lög.

Um námsorlof kennara, skólameistara, annarra faglegra stjórnenda og náms- og starfsráðgjafa í framhaldsskólum er fjallað í 11. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla. Þar segir í 1. mgr. að kennari sem starfað hefur í a.m.k. fimm ár geti óskað eftir að fá sérstakt námsorlof til að efla þekkingu sína og kennarahæfni og skal hann senda ráðuneytinu beiðni um námsorlof. Þá kemur fram að ráðuneytið geti, að fenginni umsögn skólameistara, veitt námsorlof allt að einu ári á föstum launum. Kennari er nýtur námsorlofs geti jafnframt sótt um styrk til að standa straum af kostnaði við ferðalög og námsdvöl í sambandi við námsorlofið. Sá sem fær orlof skilar skýrslu til ráðuneytisins um hvernig því var varið. Af 2. mgr. leiðir að ákvæðið á einnig við um skólameistara og aðra faglega stjórnendur.

Nánar er kveðið á um námsorlof í reglugerð nr. 762/2010, um námsorlof kennara og stjórnenda framhaldsskóla. Í 5. gr. reglugerðarinnar kemur fram að þriggja manna nefnd geri tillögur til ráðherra um úthlutun námsorlofa. Í ákvæðinu er tekið fram að við meðferð umsókna skuli nefndin leita um­sagnar skólameistara og m.a. taka tillit til hvers konar nám umsækjandi hyggst stunda og hvernig það muni nýtast viðkomandi stofnun eða skóla­kerfinu í heild, starfsaldurs umsækjenda sem sækja um í eigin nafni, eðlilegrar dreifingar milli skólastofnana, námsgreina, skólasvæða og kynja og rökstuðnings skólameistara fyrir umsókn um orlof fyrir einstaka kennara í nafni skóla.

Í lögum nr. 92/2008 og reglugerð nr. 762/2010 er ekki að finna nánari fyrirmæli um það hvernig ráðherra skuli standa að veitingu náms­or­lofs. Ráðherra hefur því allnokkurt svigrúm við veitingu námsorlofs til að velja þá umsækjendur sem falla best að þeim sjónarmiðum sem um ræðir í 5. gr. reglugerðarinnar. Þegar löggjafinn hefur með þessum hætti falið stjórnvöldum að taka ákvörðun á matskenndum grundvelli er það almennt ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis við athugun máls á grundvelli laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að endurskoða slíkt mat stjórnvalda. Í slíkum tilvikum lýtur athugun umboðsmanns því fyrst og fremst að því að kanna hvort stjórnvöld hafi reist niðurstöðu sína á málefnalegum sjónarmiðum og forsvaranlegu mati á gögnum máls.

Í svörum mennta- og barnamálaráðuneytisins til yðar 30. júlí sl., sem fylgdu kvörtuninni, er gerð nánari grein fyrir þeirri ákvörðun ráðuneytisins 12. desember 2023 að synja umsókn yðar um námsorlof. Þar sagði m.a:  

Lagt var mat á umsókn þína með með hliðsjón af umsóknum annarra kennara, m.a. með tilliti til þess hvernig námið myndi nýtast viðkomandi stofnun eða skólakerfinu í heild, hvort námið tengdist starfssviði þínu sem og með tilliti til eðlilegrar dreifingar á milli skólastofnana, námsgreina, skólasvæða og kynja. Niðurstaða ráðherra um að synja þér úthlutun námsorlofs var byggð á heildstæðu mati á þeim sjónarmiðum sem talin eru upp í 5. gr. reglugerðar um námsorlof [...]

Af framangreindum svörum ráðuneytisins fæ ég ekki annað ráðið en að ráðherra hafi byggt niðurstöðu sína á heildstæðu mati á þeim sjónarmiðum sem talin eru upp í 5. gr. fyrrgreindrar reglu­gerðar, þ.m.t. sjónarmiðum um eðlilega dreifingu milli skólastofnana og hvernig námið kæmi til með að nýtast viðkomandi stofnun og tengdist starfi yðar. Ég ítreka að eins og ákvæði 11. gr. laga nr. 92/2008 og reglugerðar nr. 762/2010 eru úr garði gerð hefur ráðherra talsvert svigrúm við veitingu námsorlofs innan marka þessara ákvæða.

Í kvörtun yðar er sem fyrr segir gerð athugasemd við að litið hafi verið til þess að starfsævi yðar væri senn að ljúka. Af því tilefni tek ég fram að ég tel í sjálfu sér ekki tilefni til athugasemda við að við mat á því sjónarmiði hvort og hvernig námið komi til með að nýtast skólastofnun og skólakerfi geti verið málefnalegt að horfa til þess hvort starfslok séu í augsýn. Ég tek hins vegar fram að  ég fæ ekki séð að það sjónarmið hafi ráðið úrslitum við mat á umsókn yðar heldur ræð ég sem fyrr segir af framangreindum svörum ráðuneytisins að synjunin hafi byggst á heildstæðu mati á þeim sjónarmiðum sem það lagði til grundvallar. Að þessu gættu og eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og meðfylgjandi gögn tel ég ólíklegt að athugun á málinu af minni hálfu muni leiða til þess að ég hafi forsendur til að gera athugasemdir við þá ákvörðun mennta- og barnamálaráðuneytisins að synja umsókn yðar um námsorlof.

Vegna beiðni yðar um athugun á meðferð umsókna um námsorlof almennt skal bent á að samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997 getur umboðsmaður ákveðið að taka starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar. Við mat á því hvort hefja skuli frumkvæðisathugun er m.a. litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verði málefnið tekið til athugunar er almennt ekki upplýst um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Hinn 30. september sl. var undirritaður settur umboðsmaður Alþingis frá 1. október sl. á grundvelli 3. mgr. 1. gr. sömu laga og hefur farið með mál þetta frá þeim tíma.

  

  

Helgi I. Jónsson