Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Dómstólar og réttarfar. Lögreglu- og sakamál. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 12955/2024)

Kvartað var yfir ákvörðun Hæstaréttar að hafna kröfu aðstandenda um aðgang að gögnum í máli.  

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til Hæstaréttar voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um málið. Viðkomandi var hins vegar leiðbeint um hver gætu hugsanlega fengið aðgang að gögnunum og hvernig bera ætti sig eftir því.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi 15. október 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 10. október sl. er þér beinið að Hæstarétti Íslands. Í kvörtuninni kemur fram að Hæstiréttur hafi hafnað kröfu aðstandenda B og C um aðgang að gögnum í máli réttarins nr. [...]. Kvörtuninni fylgdi afrit af bréfi skrifstofustjóra réttarins þar sem m.a. kemur fram að hvorki í ákvæðum laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, né reglna dómstólasýslunnar sé að finna heimild fyrir skyldmenni brotaþola til þess að fá afhent afrit gagna úr dómsmáli í þeim tilgangi sem liggi beiðninni til grundvallar.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélag á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum, og að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en samkvæmt b-lið 4. mgr. sömu greinar tekur það ekki til starfa dómstóla. Í samræmi við síðastnefnda ákvæðið fellur það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um niðurstöður dómstóla, þar með talið þegar þeir taka ákvarðanir um aðgang að gögnum dómsmála. Því eru ekki skilyrði að lögum til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar hjá umboðsmanni.

Ég tek þó fram að af kvörtun yðar og gögnum málsins verður ráðið að umbeðin gögn séu gögn sakamáls í skilningi áðurnefndra laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Af því tilefni bendi ég yður á að samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna, sbr. lög nr. 61/2022, getur maki, sambúðarmaki, lögráða barn eða annar lögráða niðji, foreldri eða lögráða systkini látins einstaklings komið fram sem fyrirsvarsmaður hans þegar rannsókn máls varðar orsök andláts viðkomandi. Mér er jafnframt kunnugt um þá afstöðu embættis ríkissaksóknara að eftir gildistöku laga nr. 61/2022 sé réttarstaða aðstandanda eða fyrirsvarsmanns látins einstaklings, m.a. hvað varðar aðgang að gögnum sakamáls, sambærileg réttarstöðu brotaþola. Samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara nr. 9/2017, um aðgang að gögnum sakamála sem er lokið, má heimila brotaþola aðgang að rannsóknargögnum sakamáls sem er lokið nema sérstök sjónarmið til verndar sakborningi, vitnum eða öðrum aðilum mæli gegn því. Sama gildir um hvern þann sem sýnir fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta.

Samkvæmt framangreindu gætu þeir aðstandendur einstaklinganna sem umrætt mál Hæstaréttar varðar, sem uppfylla skilyrði þess að teljast fyrirsvarsmenn þeirra, því freistað þess að óska eftir aðgangi að rannsóknargögnum sakamálsins hjá lögreglu, eða eftir atvikum handhöfum ákæruvalds, telji þeir tilefni til þess. Ef beiðandi teldi sig enn órétti beittan, að fenginni afstöðu stjórnvalda til slíkrar beiðni, gæti hann leitað til umboðsmanns Alþingis að nýju innan árs frá því að sú niðurstaða lægi fyrir, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Ég tek fram að ég hef með þessari ábendingu enga afstöðu tekið til þess hver viðbrögð stjórnvalda við slíku erindi ættu að vera.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður hefur farið með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

  

 

Helgi Ingólfur Jónsson