Kvartað var yfir stjórnsýslu byggðaráðs og sveitarstjórnar þar sem ákveðið var að hætta við ráðningu í starf og þess í stað flytja annan starfsmann sveitarfélagsins í starfið.
Í kvörtuninni kom fram að kvartað hefði verið yfir þessari stjórnsýslu til innviðaráðuneytisins sem hefði vísað hluta málsins frá þar sem starfsmannamál féllu ekki undir eftirlit þess. Umboðsmaður gerði ekki athugasemdir við þá niðurstöðu. Hvað athugasemdir í tengslum við ráðningu í starfið snerti var ljóst að þær beindust ekki að athöfn eða ákvörðun stjórnvalda sem viðkomandi ætti aðild að. Ekki voru því skilyrði til að taka það til frekari meðferðar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 6. september 2024.
I
Vísað er til kvörtunar yðar, fyrir hönd A, 23. apríl sl. sem beinist að sveitarfélaginu X og lýtur að stjórnsýslu byggðarráðs og sveitarstjórnar við ráðningu í starf [...]. Á fundi byggðarráðs [...] var ákveðið að hætta að við að ráða í starfið úr hópi umsækjenda og í stað þess flytja annan starfsmann sveitarfélagsins í starfið.
II
Í kvörtuninni kemur fram að þér tókuð sæti sem varamaður í byggðarráði X fyrir hönd minnihlutans þegar taka átti ákvörðun um að ráða í téð starf vegna þess að einn umsækjenda átti sæti í ráðinu og var því vanhæfur við meðferð málsins. Teljið þér að ekki hafi verið rétt staðið að afgreiðslu ráðsins þegar ákvörðun var tekin um að hætta við að ráða í starfið og færa þess í stað annan starfsmann sveitarfélagsins á milli starfa. Vísið þér í þessu samhengi m.a. til þess að ekki hafi legið fyrir öll gögn málsins. Þá hafi tillögur sveitarstjóra um mismunandi niðurstöður málsins ekki verið kynntar sérstaklega fyrir fundinn. Í gögnum málsins kemur jafnframt fram að þér teljið að yður hafi verið veittar rangar upplýsingar um mögulega framvindu málsins ef þér kysuð ekki með tillögu meirihlutans og af þeim sökum hafi þér samþykkt ráðstöfunina. Óskið þér eftir því að umboðsmaður taki stjórnsýslu X og þá sem bera ábyrgð á henni til skoðunar. Í kvörtuninni kemur einnig fram að yfirstjórnendur sveitarfélagsins hafi áður gerst brotlegir við lög og samþykktir sveitarfélagsins á þessu kjörtímabili, sbr. [...].
Eftir því sem fram kemur í kvörtuninni beinduð þér kvörtun yfir stjórnsýslu sveitarfélagsins í málinu til innviðaráðuneytisins 14. júlí 2023. Ráðuneytið vísaði hluta málsins frá 22. mars 2024 að fengnum skýringum sveitarfélagsins með vísan til þess að það félli utan eftirlitshlutverks þess að fjalla um ákvarðanir sveitarfélaga í starfsmannamálum, sbr. 2. málslið 2. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Ráðuneytið komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að framkvæmd við lokun fundar sveitarstjórnar [...], þar sem ræða átti framangreint mál, hefði ekki verið í samræmi við 16. gr. sveitarstjórnarlaga. Beindi ráðuneytið því til sveitarfélagsins að hafa fyrirmæli ákvæðisins í huga við meðferð sambærilegra mála.
Hvað starfsmannamálið varðar er rétt að taka fram að í 1. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga kemur fram að innviðaráðherra hafi eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt sveitarstjórnarlögum og öðrum löglegum fyrirmælum. Í 2. mgr. greinarinnar er tekið fram að tilteknir þættir í stjórnsýslu sveitarfélaga séu undanskildir stjórnsýslueftirliti ráðherra. Eru ákvarðanir sveitarfélaga í starfsmannamálum þar á meðal. Með ákvæðinu var stefnt að samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 og þá þannig að starfsmenn eigi eftir sem áður möguleika á að leita til umboðsmanns Alþingis eða dómstóla (Sjá nánar í frumvarpi til sveitarstjórnarlaga, Alþt. 2010-2011, 139.löggjafarþing, bls. 141). Í 3. mgr. 111. gr. laganna er mælt fyrir um frávik frá þessari undantekningu en samkvæmt því ákvæði getur starfsmaður sveitarfélags kært til ráðherra uppsögn sem rekja má til brota hans í starfi, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, til athafna í starfi eða utan þess sem þykja ósamrýmanlegar starfinu.
Kæra yðar til innviðaráðuneytisins beindist sem fyrr segir að málsmeðferð sveitarfélagsins við ráðningu í starf [...] sem auglýst var í [...]. Í áliti ráðuneytisins kom fram að við mat á því hvað falli undir hugtakið starfsmannamál í skilningi 109. gr. sveitarstjórnarlaga telji ráðuneytið að líta þurfi sérstaklega til ákvarðana sem fjallað er um í lögum nr. 70/1996. Hér sé litið til meginreglna sem gildi um veitingu og ráðningu í starf, flutning starfsmanna og réttindi og skyldur þeirra. Ráðuneytið telji að ákvarðanir sem snúi að framangreindum atriðum falli ekki undir eftirlit þess. Þá falli heldur ekki undir eftirlit þess að leggja mat á hvort sveitarfélög hafi gætt að óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar við meðferð starfsmannamála sem ljúki með stjórnvaldsákvörðun.
Með hliðsjón af því að kvörtun A til innviðaráðuneytisins sneri að málsmeðferð sveitarfélagsins við ráðningu í starf og þeirri undantekningu sem fram kemur í ákvæði 2. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að það falli utan við stjórnsýslueftirlit þess að fjalla um þessa ákvörðun sveitarfélagsins. Af því leiðir að ég geri ekki athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins að fjalla ekki frekar um kvörtun yðar að því marki sem hún sneri að téðu ráðningarmáli.
Kemur þá til skoðunar að hvaða marki umboðsmaður getur fjallað um stjórnsýslu sveitarfélagsins og athugasemdir A í tengslum við ráðningu í starfið. Af því tilefni tek ég fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem fellur undir ákvæði 1. eða 2. mgr. 3. gr. kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 85/1997 kemur fram að allir einstaklingar geti kvartað til umboðsmanns og sama gildi um félög. Þá segir í athugasemdunum að stjórnvöld geta aftur á móti ekki kvartað við umboðsmann yfir ákvörðunum og athöfnum annarra stjórnvalda eða óskað lögfræðilegs álits umboðsmanns á máli. Því næst segir að aðrir geti ekki borið fram kvörtun en þeir sem haldi því fram að þeir hafi sjálfir orðið fyrir rangsleitni af hálfu stjórnvalda. Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti snert beinlínis hagsmuni hans eða réttindi geti þó vakið athygli umboðsmanns á vandamáli. Sé umboðsmanni þá heimilt að taka það mál upp að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. frumvarpsins. (Alþt. 1996-1997 A-deild, bls. 2329). Samkvæmt framangreindu verður kvörtun að beinast sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snerta beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.
Af kvörtuninni er ljóst að hún beinist ekki að ákvörðun eða athöfn stjórnvalda í máli sem A var aðili að. Öllu heldur lýtur kvörtunin að málsmeðferð og undirbúningi ráðningarmáls sem fulltrúar A áttu ákveðna aðkomu að inna stjórnsýslu sveitarfélagsins. Ég get því ekki séð að þær athafnir sveitarfélagsins, sem kvörtunin lýtur að, snerti beinlínis hagsmuni eða réttindi A umfram aðra. Slíka hagsmuni myndu hins vegar þeir sem voru á meðal umsækjenda um starfið hafa. Að þessu virtu tel ég ekki uppfyllt lagaskilyrði til að kvörtun yðar, að því er framangreint varðar, verði tekin til frekari meðferðar.
III
Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, lýk ég hér með athugun minni vegna kvörtunar yðar.