Lögreglu og sakamál. Stjórnsýslueftirlit. Ábending.

(Mál nr. 12400/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun nefndar um eftirlit með lögreglu um að vísa frá erindi þess efnis að nefndin hæfi rannsókn á meintri opinberri spillingu innan lögreglunnar. Byggðist frávísunin á að þetta lyti að atriðum sem féllu ekki undir valdsvið nefndarinnar.  

Í bréfi nefndarinnar var viðurkennt að vanda hefði mátt betur til við ritun forsendna hennar fyrir ákvörðuninni. Koma hefði mátt betur fram að málefni fyrrverandi lögreglumanna heyrðu ekki undir nefndina. Tafir á afgreiðslu erindisins mætti rekja til vanhæfis nefndarmanns í málinu, starfsskilyrða nefndarinnar og veikindaleyfis. Taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við efnislega niðurstöðu nefndarinnar sem að fengnum skýringum virtist byggjast á að ekki væri tilefni til frekari athugunar fremur en að erindið félli að öllu leyti utan starfssviðs hennar.  Henni voru þó sendar ábendingar og áréttað mikilvægi þess að greina þau erindi sem nefndinni berast m.a. með tilliti til þess hvort og þá að hvaða marki þau beinast efnislega að starfsaðferðum og verklagi lögreglu. Taki hún þá rökstudda afstöðu til þess hvort tilefni sé til að grípa til frekari aðgerða af því tilefni í stað þess að vísa slíku máli frá.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. ágúst 2024.

   

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 9. október 2023 yfir ákvörðun nefndar um eftirlit með lögreglu nr. 48/2023, sem tekin var á fundi nefndarinnar 3. október þess árs. Í erindi yðar til nefndarinnar 22. febrúar 2023 er að finna ábendingar um framgöngu og framkomu nafngreinds fyrrverandi lögreglumanns í yðar garð sem þér teljið til marks um spillingu og misneytingu á valdi innan lögreglunnar. Fóruð þér fram á að nefndin hæfi opinbera rannsókn á meintri spillingu innan lögreglunnar. Með ákvörðuninni var erindi yðar vísað frá nefndinni með vísan til þess að það lyti að atriðum sem féllu ekki undir valdsvið nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. a lögreglulaga, nr. 90/1996. Fyrri kvörtun yðar vegna tafa á afgreiðslu erindisins lauk með bréfi 20. september 2023. Í kvörtun yðar nú eru gerðar athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar og málshraða.

    

II

Í tilefni af kvörtuninni var nefnd um eftirlit með lögreglu ritað bréf 23. nóvember 2023 og þess óskað að nefndin skýrði nánar ályktun sína um inntak erindis yðar. Þá var óskað upplýsinga um það hvort nefndin hefði beint erindinu til héraðssaksóknara í samræmi við 4. mgr. 35. gr. a laga nr. 90/1996 og skýringa ef svo væri ekki. Loks var þess óskað að nefndin afhenti umboðsmanni afrit af gögnum málsins og lýsti viðhorfi sínu til kvörtunar yðar ef hún teldi tilefni til.

Í svarbréfi nefndar um eftirlit með lögreglu 11. janúar sl. kemur fram að í 4. mgr. 35. gr. a lögreglulaga, nr. 90/1996, eins og henni var breytt með 8. gr. laga nr. 50/2021, sé ekki gert ráð fyrir því að nefndin greini erindi um ætlaða refsiverða háttsemi heldur áframsendi þau beint til héraðssaksóknara eða ríkissaksóknara til þóknanlegrar meðferðar. Almennt hafi framkvæmdin gengið vel hjá nefndinni, sér í lagi þar sem gögn séu til staðar sem gefi til kynna refsiverða háttsemi og erindi skýr. Ákvörðunum nefndarinnar hafi þar af leiðandi fækkað örlítið. Flest erindi til nefndarinnar varði hins vegar atvik sem séu óljós og þarfnist gagna til greiningar.

Hvað erindi yðar varðar kemur fram í bréfinu að það lýsi m.a. meintum óeðlilegum samskiptum hjóna við fyrrverandi lögreglumann, lögregluyfirvöld og tollyfirvöld. Fyrrverandi lögreglumenn heyri hins vegar ekki undir valdsvið nefndarinnar. Af efni erindisins virðist vera ágreiningur á milli yðar og þeirra sem nefndir eru á nafn. Þá lúti erindið að notkun lögregluyfirvalda og tollyfirvalda á bifreiðastæðum sem eigandi þeirra eigi ekki að líða. Einnig hafi þér og sonur yðar sætt stöðvun vegna tollgæslu við heimkomu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Nefnd um eftirlit með lögreglu bendir í þessu sambandi á að vel sé þekkt að sögusagnir gangi í samfélaginu um að tilteknir einstaklingar hafi tengsl við lögregluna. Nefndin hafi metið erindið svo að hér væri ekki um meinta refsiverða háttsemi að ræða sem bæri að senda án tafar til héraðssaksóknara.

Í svarbréfi nefndar um eftirlit með lögreglu kemur síðan fram að nefndin viðurkenni að vanda hefði mátt betur til við ritun forsendna nefndarinnar í ákvörðuninni. Þá hefði betur mátt koma fram að málefni fyrrverandi lögreglumanna heyrðu ekki undir nefndina. Hvað málshraða varðar kemur fram að tafir á afgreiðslu erindis yðar megi rekja til vanhæfis nefndarmanns í málinu, starfsskilyrða nefndarinnar og veikindaleyfis.

   

III

Nefnd um eftirlit með lögreglu starfar á grundvelli VII. kafla laga nr. 90/1996. Nefndin er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og ekki er unnt að skjóta ákvörðunum hennar til æðra stjórnvalds, sbr. 1. mgr. 35. gr. laganna. Nefndinni var komið á fót með lögum nr. 62/2016, um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996.

Með lögum nr. 50/2021, um breytingu á m.a. lögreglulögum, var hlutverki nefndarinnar breytt, sbr. 8. gr. laganna. Eftir breytingarnar er það meðal hlutverka nefndarinnar að taka kvartanir til meðferðar vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald, sbr. b-lið 1. mgr. 35. gr. a laganna. Nefndin skal taka rökstudda afstöðu til hinnar ætluðu aðfinnsluverðu starfsaðferðar eða framkomu áður en kvörtunin er send viðeigandi embætti til frekari meðferðar, ef tilefni er til, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar. Var þessum breytingum m.a. ætlað að efla hlutverk nefndarinnar og gera störf hennar skilvirkari. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 50/2021 er m.a. tekið fram að til að ráða bót á m.a. skorti á heimildum nefndarinnar til að taka efnislega afstöðu til mála sé í frumvarpinu lagt til að henni verði falið að taka afstöðu til þeirra kvartana sem henni berast um aðfinnsluverða framkomu eða starfsaðferðir lögreglu. Með því sé átt við að nefndin skuli láta í ljós álit sitt á því hvort þau atvik sem um ræði hverju sinni samræmist lögum og viðurkenndu verklagi og komast þannig að rökstuddri niðurstöðu í hverju máli (þskj. 457 á 151. löggjafarþingi 2020-2021, bls. 5). Um ákvæði það sem varð að fyrrgreindri 2. mgr. 35. gr. a segir m.a. eftirfarandi í frumvarpinu:  

Sæti athafnir lögreglu aðfinnslum eða gagnrýni getur nefndin jafnframt beint almennum tilmælum til viðkomandi lögreglustjóra um mögulegar úrbætur, til að mynda um breytt verklag eða starfsaðferðir. Nefndin skal upplýsa kvartanda og viðkomandi embætti um niðurstöðu hvers máls. Sé niðurstaða nefndarinnar sú að starfsmaður lögreglu hafi viðhaft aðfinnsluverða framkomu eða starfsaðferð skal senda kvörtun til frekari meðferðar hjá viðkomandi embætti (þskj. 457 á 151. löggjafarþingi 2020-2021, bls. 12-13).

Það er einnig hlutverk nefndarinnar að taka atvik og verklag lögreglu til skoðunar að eigin frumkvæði, þegar hún telur tilefni til, sbr. c-lið 1. mgr. 35. gr. a laga nr. 90/1996, sbr. áður d-lið sömu lagagreinar fyrir þær breytingar sem gerðar voru á lögunum með 8. gr. laga nr. 50/2021. Verður að telja að til þessa njóti hún töluverðs svigrúms, t.a.m. við mat á því við hvaða aðstæður hún telji tilefni til að taka verklag hjá lögreglu til skoðunar og þá annaðhvort með almennum hætti eða í tengslum við atvik tiltekins máls.

Nánar er kveðið á um starfsemi nefndarinnar, þ. á m. tímafresti og eftirfylgni mála, í reglum um nefndina, nr. 222/2017, sem settar hafa verið á grundvelli heimildar í VII. kafla laga nr. 90/1996. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur t.a.m. fram að nefndin fari sjálf hvorki með ákæruvald, rannsókn sakamála né vald til að beita starfsmenn lögreglu viðurlögum. Nefndin skuli greina þau erindi sem henni berast og senda þau til meðferðar hjá viðeigandi stjórnvaldi, hafi slík meðferð ekki hafist, og fylgjast með afgreiðslu þeirra. Í 5. gr. reglnanna er fjallað um greiningu á tilkynningu til nefndarinnar. Kemur þar m.a. fram að nefndin skuli leggja mat á efni tilkynningar og hraða meðferð máls eftir því sem kostur er og rannsóknarhagsmunir krefjast og að jafnaði ljúka meðferð þess innan mánaðar frá móttöku tilkynningar. Telji nefndin ekki efni til að vísa tilkynningu borgara til frekari meðferðar skuli honum gerð grein fyrir því ásamt rökstuðningi, sbr. 2. mgr. 5. gr. reglnanna. Nánari umfjöllun um framsendingu á tilkynningu til viðeigandi stjórnvalds og málsmeðferð hjá viðkomandi stjórnvaldi er að finna í 6. til 9. gr. reglnanna.

Þegar löggjafinn hefur falið stjórnvöldum svigrúm til mats við ákvörðun sína beinist athugun umboðsmanns fyrst og fremst að því að kanna hvort þau hafi gætt málsmeðferðarreglna, lögfestra og ólögfestra, hvort byggt hafi verið á málefnalegum sjónarmiðum og hvort forsvaranlegar ályktanir hafi verið dregnar af gögnum máls. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að í 2. mgr. 35. gr. a lögreglulaga, nr. 90/1996, felst skylda nefndar um eftirlit með lögreglu til að taka rökstudda afstöðu til hinnar ætluðu aðfinnsluverðu starfsaðferðar eða framkomu og senda viðeigandi embætti kvörtun til frekari meðferðar ef hún telur tilefni til. Nefndin hefur því ákveðið svigrúm, m.a. að virtu eðli og alvarleika þeirra atriða sem tilgreind eru í kvörtun borgara, til að meta hvort ástæða er til að framsenda hana öðru stjórnvaldi á sviði löggæslu til meðferðar.

Eftir að hafa farið yfir gögn málsins er það niðurstaða mín að ég hafi ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá efnislegu niðurstöðu nefndar um eftirlit með lögreglu að ekki hafi verið tilefni til frekari athugunar í tilefni af kvörtun yðar til hennar. Hef ég þá einkum í huga að skýringar nefndarinnar í tilefni af fyrirspurn umboðsmanns vegna málsins gefa til kynna að niðurstaðan hafi byggst á því að nefndin hafi ekki talið tilefni, í skilningi 2. mgr. 35. gr. a lögreglulaga, til þess að grípa til frekari aðgerða vegna hluta þeirra atriða sem tilgreind voru í erindinu, fremur en að þau hafi öll fallið utan starfssviðs nefndarinnar. Er og í skýringunum viðurkennt að vanda hefði mátt betur til verka við ritun forsendna nefndarinnar fyrir ákvörðun sinni. Þá tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að aðrir hlutar kvörtunar yðar hafi fallið utan hlutverks hennar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 35. gr. a sömu laga.

  

IV

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég hef þó ritað nefnd um lögreglu bréf sem fylgir hjálagt í ljósriti þar sem ég kem á framfæri tilteknum ábendingum. Þær ábendingar eru þó ekki til þess fallnar að hafa áhrif á niðurstöðu mína í málinu.

             

      


  

   

Bréf umboðsmanns til nefndar um eftirlit með lögreglu 2. september 2024.

   

Vísað er til fyrri bréfaskipta við nefnd um eftirlit með lögreglu í tilefni af kvörtun A til umboðsmanns Alþingis 9. október 2023. Líkt og fram kemur í bréfi mínu til A, sem fylgir í ljósriti, hef ég ákveðið að ljúka umfjöllun minni um kvörtunina, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það hef ég staðnæmst við þá afstöðu sem fram kom í ákvörðun nefndarinnar um að kvörtun A til nefndarinnar félli utan við starfssvið nefndarinnar og því bæri að vísa henni frá.  Af því tilefni kem ég eftirfarandi ábendingum á framfæri við nefndina og þá með það fyrir augum að þær verði hafðar í huga við meðferð mála hjá nefndinni eftirleiðis.

Í áliti umboðsmanns 6. október 2023 í máli nr. 11750/2022 var fjallað um kvörtun borgara yfir því að erindi hans hafði verið vísað frá nefnd um eftirlit með lögreglu. Kvörtunin barst nefndinni áður en lög nr. 50/2021, um breytingu á m.a. lögreglulögum, tóku gildi en með þeim voru gerðar tilteknar breytingar á starfssviði nefndarinnar. Samkvæmt b.-lið 35. gr. a lögreglulaga, nr. 90/1996, er það meðal hlutverka nefndarinnar að taka til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald. Í álitinu var það niðurstaða umboðsmanns að athugasemdir í kvörtun viðkomandi borgara til nefndarinnar hefðu m.a. lotið að starfsaðferðum og verklagi lögreglu. Því var ekki talið unnt að fallast á það að kvörtunin hafi alfarið fallið utan starfssviðs hennar.

Af kvörtun A til umboðsmanns, kvörtun hans til nefndar um eftirlit með lögreglu og gögnum málsins að öðru leyti fæ ég ekki betur séð en að athugasemdir hans hafi að hluta lotið að starfsaðferðum og verklagi lögreglu í skilningi téðs lagaákvæðis. Meðal annars er því haldið fram að kærumál á hendur A hafi fengið óeðlilega skjóta meðferð hjá lögreglu auk þess sem tollyfirvöld, sem fara með lögregluvald á sínu starfssviði, sbr. 4. tölulið 9. gr. laga nr. 90/1996, hafi tekið við fyrirmælum frá utanaðkomandi aðilum við töku ákvörðunar um afskipti af A við heimkomu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á árinu 2022. Í því sambandi tel ég ekki skipta máli hvort á meðal þeirra aðila sem nefndir voru í því sambandi séu fyrrverandi lögreglumenn heldur teldist það tvímælalaust til starfsaðferða lögreglu að taka við slíkum fyrirmælum án tillits til þess frá hverjum þau stöfuðu. Get ég því ekki fallist á það að athugasemdir í kvörtun A til nefndarinnar hafi alfarið fallið utan starfssviðs hennar. Líkt og fram kemur í bréfi mínu til hans tel ég hins vegar að skýringar nefndarinnar til mín 11. janúar sl. beri með sér að hún telji að rökstuðningi ákvörðunarinnar hafi verið áfátt að þessu leyti.

Í ljósi framangreinds ítreka ég þau tilmæli mín til nefndarinnar, sem fram komu í áðurnefndu áliti umboðsmanns, að haga meðferð mála í samræmi við þau sjónarmið sem þar eru rakin. Í því sambandi árétta ég mikilvægi þess að nefndin greini þau erindi sem henni berast hverju sinni, m.a. með tilliti til þess hvort og þá að hvaða marki þau beinast efnislega að starfsaðferðum og verklagi lögreglu. Taki hún þá rökstudda afstöðu til þess hvort tilefni sé til að grípa til frekari aðgerða af því tilefni, sbr. 2. mgr. 35. gr. a lögreglulaga í stað þess t.d. að vísa slíku máli frá.