Kirkjumál og trúfélög. Kirkjugarðar.

(Mál nr. 12801/2024)

Kvartað var yfir því að Kirkjugarðar Reykjavíkur hefðu nýverið ákveðið að bjóða upp á þjónustu við umhirðu á leiðum og nýti til þess upplýsingar sem ekki séu aðgengilegar almenningi. Þá veiti kirkjugarðarnir ekki upplýsingar um aðra þjónustuaðila sem sinni umhirðu leiða. Jafnframt voru gerðar athugasemdir við nánar greinda háttsemi sem væri skaðleg samkeppni og ylli tjóni.  

Ekki varð ráðið að athugasemdirnar hefðu verið lagðar fyrir stjórn kirkjugarðanna og eftir atvikum kirkjugarðaráðs og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði að svo stöddu um kvörtunina. Hvað samkeppni og tjón snerti var viðkomandi bent á að leita til Samkeppniseftirlitsins.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. júlí 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 18. júlí sl. Af kvörtuninni verður ráðið að hún lúti í meginatriðum að því að Kirkjugarðar Reykjavíkur hafi nýverið ákveðið að bjóða upp á þjónustu við umhirðu á leiðum og nýti til þess upplýsingar sem ekki séu aðgengilegar almenningi. Þá veiti Kirkjugarðar Reykjavíkur ekki upplýsingar um aðra þjónustuaðila sem sinni umhirðu leiða. Jafnframt gerið þér athugasemdir við nánar greinda háttsemi stofnunarinnar sem þér teljið skaðlega samkeppni og valdi félagi yðar tjóni.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, er hver kirkjugarður þjóðkirkjunnar sjálfseignarstofnun með sérstöku fjárhaldi, í umsjón og ábyrgð safnaðar undir yfirstjórn prófasts og biskups. Í 2. mgr. segir að sóknarnefnd eða sérnefnd kjörin af safnaðarfundi, sbr. 9. gr., hafi á hendi umsjón og fjárhald kirkjugarðs samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum. Er hún í lögunum nefnd kirkjugarðsstjórn. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laganna sér kirkjugarðsstjórn um að láta taka allar grafir í garðinum og sér um árlegt viðhald legstaða. Þá segir í 2. mgr. 19. gr. að kirkjugarðsstjórnir skuli stuðla að því að legstaðir séu smekklega prýddir blómjurtum og vel um þá hirt. Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 36/1993 kemur fram að kirkjugarðaráð hafi yfirumsjón með kirkjugörðum landsins svo sem nánar er mælt fyrir um í lögunum.

Lagt hefur verið til grundvallar, þar sem starfsemi kirkjugarðanna er lögmælt og þeim er sem stofnunum komið á fót með lögum og eru reknir fyrir fjármuni sem greiddir eru úr ríkissjóði samkvæmt fjárveitingu í fjárlögum, sbr. 39. gr. laga nr. 36/1993, að þeir teljist til opinberrar stjórnsýslu. Þótt kirkjugarðar séu lögmæltar sjálfseignarstofnanir þarf því starfsemi þeirra að vera í samræmi við þær meginreglur sem gilda um stjórnsýsluna, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 11. júlí 2006 í máli nr. 4417/2005.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra sett stjórnvald, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Ástæða þess að framangreint er rakið er að ekki verður ráðið af kvörtun yðar hvort þér hafið lagt athugasemdir yðar um starfshætti Kirkjugarða Reykjavíkur fyrir stjórn stofnunarinnar. Með hliðsjón af þeim lögum og reglum sem gilda um starfsemi Kirkjugarða Reykjavíkur sem rakin eru hér að framan tel ég rétt að þér freistið þess að leita til stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkur og eftir atvikum til kirkjugarðaráðs í kjölfarið ef þér teljið yður eða félag yðar rangsleitni beitt að fenginni afstöðu stjórnarinnar til málsins.

Í kvörtun yðar er því lýst að Kirkjugarðar Reykjavíkur hafi valdið félagi yðar tjóni með nánar greindri háttsemi. Ég legg þann skilning í þann þátt kvörtunar yðar að þér teljið athafnir Kirkjugarða Reykjavíkur skaðlega fyrir samkeppni á þeim markaði sem félag yðar starfi á og lúti að hreinsun á leiðum í kirkjugörðum.

Af þessu tilefni tek ég fram að Samkeppniseftirlitið annast eftirlit samkvæmt samkeppnislögum nr. 44/2005 og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Í c-lið 1. mgr. 8. gr. laganna kemur fram að hlutverk Samkeppniseftirlitsins sé að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaði. Í b-lið 1. mgr. 16. gr. laga nr. 44/2005 kemur fram að Sam­keppnis­­eftirlitið geti gripið til aðgerða gegn athöfnum opinberra aðila að því marki sem þær kunna að hafa skaðleg áhrif á samkeppni að því tilskildu að sérlög hafi ekki að geyma sérstakar reglur um heimild eða skyldu til slíkra athafna.

Þar sem ekkert liggur fyrir um að þér hafið beint erindi til Samkeppnis­eftirlitsins vegna athugasemda yðar viðvíkjandi þeirri háttsemi Kirkjugarða Reykjavíkur sem þér teljið hafa skaðleg áhrif á samkeppni og eftir atvikum kært ákvörðun eftirlitsins um erindi yðar til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 44/2005, eru ekki uppfyllt skilyrði til að ég taki kvörtun yðar til meðferðar að þessu leyti, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Ég tek fram að með framangreindum ábendingum hefur engin afstaða verið tekin til þess hvaða meðferð og afgreiðslu slík erindi yðar ættu að hljóta. Teljið þér yður eða það félag sem þér eruð í forsvari fyrir enn rangsleitni beitt að fenginni afstöðu stjórnar kirkjugarðaráðs og samkeppnisyfirvalda til umkvörtunarefna yðar getið þér leitað til mín á nýjan leik og verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málið getur komið til umfjöllunar af hálfu umboðsmanns.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.