Jafnréttismál. Jafnrétti kynjanna. Jafnlaunavottun. Kostnaður.

(Mál nr. 12716/2024)

Kvartað var yfir svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn um skyldu fyrirtækis til að greiða kostnað við svokallaða millivottun vegna jafnlaunavottunar.  

Í svari ráðuneytisins var að hluta til tekið undir athugasemdir í kvörtuninni og greint frá því að ráðgert væri hefja endurskoðun á vottunarferlinu. Taldi umboðsmaður því ekki tilefni til að halda athugun sinni áfram að svo stöddu en fylgst yrði með framganginum.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 16. júlí 2024.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar, f.h. A ehf., 19. apríl sl. er þér beinið að forsætisráðuneytinu. Í kvörtuninni kemur nánar tiltekið fram að kvartað sé yfir svari ráðuneytisins 4. apríl sl., við fyrirspurn um skyldu fyrirtækisins til að greiða kostnað við svokallaða millivottun vegna jafnlaunavottunar, sbr. lög nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Samkvæmt kvörtuninni beinduð þér upphaflega erindi til Jafnréttisstofu 4. mars sl. þar sem óskað var eftir afstöðu hennar til þess hvort fyrirtæki beri að greiða fyrir milliúttekt árlega milli þess sem jafnlaunavottun sé tekin út af hálfu vottunaraðila og hún endurnýjuð að þremur árum liðnum. Í svari Jafnréttisstofu 7. mars sl. kemur fram að stofan hafi ekki gert athugasemdir við verklag vottunarstofa þegar kæmi að milliúttektum. Slíka kröfu sé að finna í staðlinum ISO 17021 (ISO 17021-1:2015 Samræmismat - Kröfur til stofnana sem annast úttektir og vottun stjórnunarkerfa - Hluti 1: Kröfur) sem til sé vísað í reglugerð nr. 1030/2017, um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85. Í niðurlagi svarsins kemur fram að það sé afstaða Jafnréttisstofu að krafa um milliúttekt mætti koma skýrar fram í regluverkinu og því hafi stofan sent forsætisráðuneytinu erindi þar að lútandi. Þá var yður leiðbeint um að beina erindi yðar til ráðuneytisins.

Í svari forsætisráðuneytisins 4. apríl sl., er kvörtun yðar lýtur að, segir að gert sé ráð fyrir að framkvæma þurfi milliúttekt í staðlinum ISO 17021. Um sé að ræða staðal sem skilgreini kröfur til vottunaraðila sem annist úttektir og vottun stjórnunarkerfa. Vísað sé til staðalsins í íslensku regluverki, m.a. í 2. gr. reglugerðar nr. 1030/2017, um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85. Kveðið sé á um það í reglugerðinni að vottunaraðilar verði að starfa í samræmi við þær alþjóðlegu kröfur sem gilda um vottun og vottunaraðila og fram koma í téðum staðli og jafnframt að vottunaraðilar skuli hafa faggildingu því til staðfestingar. Staðallinn ISO 17021 skilgreini þannig verklag vottunaraðila en mæli ekki fyrir um kröfur til fyrirtækja og stofnana við innleiðingu jafnlaunastaðalsins. Ekki sé því þörf á að fyrirtæki og stofnanir kaupi staðalinn. Þá sagði í svari ráðuneytisins að miðað við þær upplýsingar sem liggi fyrir á vefsvæðum vottunaraðila sé það skýrt að viðhaldsvottun eða millivottun skuli fara fram árlega þegar um jafnlaunavottun sé að ræða. Viðhaldsvottunin og kostnaðurinn við hana sé samkvæmt því skilgreind sem hluti af jafnlaunavottunarferlinu í heild.

  

II

Í tilefni af kvörtuninni var forsætisráðuneytinu ritað bréf 15. maí sl. og óskað eftir því að ráðuneytið léti umboðsmanni í té afrit af öllum gögnum málsins. Auk þess var óskað eftir því að ráðuneytið léti í ljós afstöðu sína til þess hvort það sé skilyrði þess að hljóta jafnlaunavottun á grundvelli 7. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, að viðkomandi fyrirtæki eða stofnun undirgangist árlega svokallaða milliúttekt á jafnlaunakerfi með tilheyrandi kostnað. Óskað var eftir þeim lagasjónarmiðum sem afstaða ráðuneytisins væri reist á að þessu leyti. Þá var óskað eftir því að ráðuneytið lýsti afstöðu sinni til þess hvort sú framsetning á ákvæðum staðalsins ISO 17021 í reglugerð nr. 1030/2021, sem lýst er að framan, tryggi nægjanlega að fyrirtæki og stofnanir sem skylt er að gangast undir jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu samkvæmt ákvæðum laga nr. 150/2020, eigi möguleika á því að kynna sér fyrirfram þær kröfur sem gerðar eru til þeirra í vottunarferlinu. Loks var óskað eftir því að ráðuneytið upplýsti hvort því hefði borist erindi frá Jafnréttisstofu vegna málsins og upplýsti eftir atvikum hvort það hefði gripið til ráðstafana vegna þess og þá hvaða.

Í svari forsætisráðuneytisins 14. júní sl. kemur m.a. fram að í 3. gr. laga nr. 36/2003, um staðla og Staðlaráð Íslands, sé kveðið á um heimild stjórnvalda til að gera notkun staðals skyldubundna með vísun til hans og hlutaðeigandi laga. Skuli hann þá staðfestur með reglugerð af hlutaðeigandi ráðuneyti og vísað til hans í reglugerðinni. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi sem varð að lögum nr. 36/2003 segi m.a. að með vísun til staðals í reglugerð sé ekki nauðsynlegt að birta ítarleg tæknileg fyrirmæli og forskriftir í sjálfri reglugerðinni, enda sé þar oft um að ræða hundruð blaðsíðna staðla sem fyrst og fremst snúi að fagmönnum. Á því hafi verið byggt af hálfu ráðuneytisins að nægileg lagastoð sé fyrir þeim kröfum sem gerðar eru til vottunaraðila við framkvæmd jafnlaunavottunar. Að því er lúti að skyldu fyrirtækja og stofnana til að undirgangast árlega milliúttekt verði á hinn bóginn ekki annað skilið af orðalagi 7. gr. laga nr. 150/2020 en að einungis sé þar gerð krafa um að jafnlaunakerfi þeirra uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85:2012 til að hljóta vottunina og hana skuli endurnýja á þriggja ára fresti.

Í svarinu kemur einnig fram að staðallinn ISO 17021 sé eingöngu aðgengilegur á ensku og gegn greiðslu. Vottunarferlið geri ráð fyrir því að fyrirtæki og stofnanir kaupi þjónustu af faggiltum vottunaraðilum til að framkvæma úttekt og annast vottun á jafnlaunakerfi þeirra. Kostnaður við vottanir ætti því að koma fram í þeim samningum sem vottunaraðilar gera við fyrirtæki og stofnanir. Hins vegar megi taka undir þau sjónarmið sem fram koma í bréfi umboðsmanns að ferlið sé ekki að fullu fyrirsjáanlegt fyrir fyrirtæki og stofnanir. Þar með eigi þau erfiðara um vik að átta sig á þeim kröfum sem gerðar eru til vottunaraðila og þeim heildarkostnaði sem hlýst af þjónustunni.

Loks segir í svarbréfi ráðuneytisins að tilgangurinn með staðlinum ISO 17021 sé að tryggja faglega aðkomu vottunaraðila að vottunarferlinu og snúi hann fyrst og fremst að verklagi þeirra fagmanna sem að því koma. Með vísun í staðalinn í reglugerð nr. 1030/2017 hafi ekki verið stefnt að því að leggja auknar kröfur á fyrirtæki og stofnanir enda þurfi íþyngjandi ákvarðanir stjórnvalda að byggja á skýrri heimild í lögum. Forsætisráðherra hafi borist minnisblað jafnréttisstofu 22. febrúar 2023 um viðhaldsúttektir vegna jafnlaunavottunar, þar sem m.a. komi fram það sjónarmið að heppilegra væri að skilyrði um viðhaldsvottanir væru orðuð með skýrari hætti í lögum. Afrit af minnisblaðinu fylgdi svarinu. Ráðuneytið ráðgeri að hefja endurskoðun á vottunarferlinu, m.a. að því er lýtur að árlegum milliúttektum og því hvort hægt sé að undanskilja kröfu um milliúttektir samkvæmt staðlinum ISO 17021.

  

III

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og þær siðareglur sem tilgreindar eru í lögunum. Í 2. mgr. 4. gr. er svo kveðið á um að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir starfssvið umboðsmanns, geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Í 10. gr. laga nr. 85/1997 er fjallað um lyktir máls. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að telji umboðsmaður þegar í upphafi að kvörtun gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar eða uppfylli ekki skilyrði laganna til frekari meðferðar skuli hann tilkynna þeim sem kvartað hefur þá niðurstöðu. Í b-lið 2. mgr. greinarinnar segir að hafi umboðsmaður tekið mál til nánari athugunar geti hann látið í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum eða þeim siðareglum sem nánar eru tilgreindar í lögunum. Þá segir að sæti athafnir stjórnvalds aðfinnslum eða gagnrýni umboðsmanns geti hann jafnframt beint tilmælum til stjórnvalds um úrbætur. Í c-lið málsgreinarinnar kemur fram að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.

Á grundvelli 10. gr. laga nr. 85/1997, sbr. einnig 5. gr. sömu laga, hefur umboðsmaður Alþingis svigrúm til að ákveða hvaða mál hann telur tilefni til að fjalla nánar um og þá með hvaða hætti, m.a. með tilliti til mikilvægis þeirra, fjölda mála og þeirra takmörkuðu fjárveitinga og mannafla sem umboðsmaður hefur til umráða. Hér kann einnig að skipta máli hvort og þá hvaða möguleikar eru á að umboðsmaður geti beint tilmælum til stjórnvalds sem kunna að hafa þýðingu fyrir réttarstöðu þess sem hefur kvartað til umboðsmanns. Ef stjórnvald hefur fallist á afstöðu þess sem kvartar til umboðsmanns Alþingis er að jafnaði ekki tilefni fyrir embættið að taka málsmeðferð stjórnvaldsins til sérstakrar athugunar þótt undantekningar geti verið þar á.

Með vísan til þess sem rakið er að framan og þar sem ekki verður annað ráðið af gögnum málsins, einkum svari forsætisráðuneytisins 14. júní sl., en að það taki a.m.k. að hluta undir athugasemdir í kvörtun yðar og ráðgeri að hefja endurskoðun á vottunarferli samkvæmt lögum  nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, tel ég að svo búnu ekki tilefni til að halda athugun minni á málinu áfram. Ég mun þó áfram fylgjast með því hvernig framangreindar ráðagerðir ráðuneytisins ganga eftir og óska þá eftir frekari upplýsingum ef ég tel tilefni til.

  

IV

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.