Styrkveitingar. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir.

(Mál nr. 12558/2024)

Kvartað var yfir því að háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefði ekki brugðist við erindi um úthlutun vaxtarstyrks úr Tækniþróunarsjóði.  

Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns aflaði ráðuneytið frekari upplýsinga frá Tækniþróunarsjóði og Rannís. Í framhaldi af því voru stjórn beggja sendar ábendingar um að gæta að stjórnsýslulögum við málsmeðferð við úthlutun styrkja. Sérstaklega yrði hugað að skráningarskyldu stjórnvalda þannig að umsækjendur gætu neytt réttar síns á grundvelli stjórnsýslulaga og að atviksbundið mat ætti sér stað áður en ákvörðun væri tekin um synjun afhendingu gagna auk annars. Af svörum ráðuneytisins varð ekki betur séð en athugasemdirnar hefðu leitt til viðbragða þess gagnvart sjóðnum í samræmi við yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir þess og því ekki tilefni til að umboðsmaður aðhefðist frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 13. maí 2024.

   

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis frá 18. október 2023 (mál nr. 12418/2023 í málaskrá embættisins) yfir því að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefði ekki brugðist við erindi yðar frá 11. september 2023 um úthlutun vaxtastyrks úr Tækniþróunarsjóði. Eins og yður var tilkynnt með bréfi 22. janúar sl. var því máli lokið af hálfu umboðsmanns þar sem fyrir lá að ráðuneytið hefði svarað téðu erindi yðar með bréfi 19. október 2023.

Í kjölfar þess að yður barst svar ráðuneytisins senduð þér umboðsmanni tölvubréf 9. nóvember 2023 þar sem gerðar voru ýmsar athugasemdir við efni svarsins. Lutu athugasemdir yðar einkum að því að veigamiklum atriðum í fyrirspurn yðar hefði ekki verið svarað. Af þeim sökum ákvað umboðsmaður að stofna nýtt mál hjá embættinu undir málsnúmerinu 12558/2024.

  

II

Vegna kvörtunar yðar var háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu ritað bréf 22. janúar sl. þar sem þess var óskað að ráðuneytið lýsti viðhorfi sínu til þeirra athugasemda sem þér færðuð fram í bréfinu 9. nóvember 2023. Þess var einnig óskað að ráðuneytið upplýsti hvort og þá hvernig afgreiðsla þess á fyrirspurn yðar hefði samrýmst  yfirstjórnar- og eftirlitsheimildum þeim sem hvíla á ráðuneytinu með starfsemi undirstofnana þess, sbr. IV. kafla laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands og 1. gr. laga nr. 26/2021, um tækniþróunarsjóð.

Í svari ráðuneytisins 15. mars sl., kom m.a. fram að ráðuneytið hefði 26. september 2023 og 19. febrúar sl. óskað eftir tilteknum upplýsingum frá stjórn Tækniþróunarsjóðs og Rannís vegna kvörtunarinnar. Af því tilefni hefði m.a. komið fram sú afstaða Rannís að það samrýmdist reglum sjóðsins að meta styrkhæfi umsækjenda hvenær sem væri áður en gengið væri til samninga. Það væri hins vegar viðhorf ráðuneytisins að eðlilegt teldist að lagt væri mat á styrkhæfið framar í ferlinu áður en endanleg ákvörðun stjórnar væri tekin. Þá hefði ráðuneytið, að teknu tilliti til þeirra upplýsinga sem því hefðu verið látnar í té, ákveðið að senda stjórn Tækniþróunarsjóðs og Rannís ábendingar um að stjórn gætti að stjórnsýslulögum við málsmeðferð við úthlutun styrkja. Sérstaklega væri þá hugað að skráningarskyldu stjórnvalda þannig að umsækjendur gætu neytt réttar síns á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga og atviksbundið mat hefði átt sér stað áður en ákvörðun væri tekin um synjun afhendingu gagna. Þá sagði enn fremur í svari ráðuneytisins að þótt svar Rannís um að reglur sjóðsins kvæði skýrt um það að ekki væri tekið við upplýsingum eftir umsóknarfrest, væri rétt að taka við beiðni umsækjenda ef þeir óskuðu eftir því að leiðrétta rangar upplýsingar eða staðreyndavillur sem hefðu komið til fyrir mistök.

Að endingu kom fram í svari ráðuneytisins að það myndi beina því til stjórnar Tækniþróunarsjóðs og Rannís að hugað yrði að þeim sjónarmiðum sem rakin væru í bréfinu og þau sett á dagskrá, auk þess hvort við hæfi væri að nýta biðlista ef ekki væri gengið til samninga við einhver verkefni.

Með bréfi 10. apríl sl. var þess óskað að þér senduð umboðsmanni þær athugasemdir sem þér telduð ástæðu til að gera í tilefni af svari ráðuneytisins fyrir 24. sama mánaðar. Tekið var fram að að þeim tíma liðnum myndi umboðsmaður taka ákvörðun um framhald málsins nema sérstaklega yrði óskað eftir frekari fresti að því leyti. Fyrir liggur að þér komuð ekki á framfæri sérstökum athugasemdum fyrir þann tíma en í símtali starfsmanns umboðsmanns við yður 2. maí sl. kom m.a. fram að þar sem ráðið yrði af svarinu að kvörtun yðar hefði leitt til íhlutunar ráðuneytisins gagnvart Tækniþróunarsjóði, telduð þér ekki tilefni til að koma á framfæri frekari sjónarmiðum við svar þess.

  

III

Af svörum háskóla-, iðnaðar, og nýsköpunarráðuneytisins verður ekki betur séð en að athugasemdir yðar hafi orðið til þess að ráðuneytið brást við gagnvart Tækniþróunarsjóði í samræmi við yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir sínar með því m.a. að afla tiltekinna upplýsinga og skýringa frá sjóðnum auk þess að koma tilteknum ábendingum á framfæri við stjórn hans. Ég tel því ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtun yðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um málið með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.