Umhverfismál.

(Mál nr. 12669/2024)

Kvartað var yfir kynningu og kynningarferli Umhverfisstofnunar á tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár í tengslum við Melrakkasléttu.

Viðbrögð stofnunarinnar við þessum athugasemdum lágu ekki fyrir og því ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar. Hann benti einnig á að mögulega mætti leita til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins vegna þessa.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. apríl 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 16. mars sl., sem beinist að Umhverfisstofnun og lýtur að kynningu og kynningarferli stofnunarinnar á tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár í tengslum við Melrakkasléttu. Lúta athugasemdir yðar m.a. að kynningarfundi 11. janúar sl. með landeigendum norður Melrakkasléttu sem mun vera hluti af tillögusvæðinu en um fjarfund var að ræða.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 60/2013, um náttúruvernd, fer umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra með yfirstjórn náttúruverndarmála. Ráðherra gefur út náttúruminjaskrá og leggur fram á Alþingi, eigi sjaldnar en á fimm ára fresti, tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar fer Umhverfisstofnun m.a. með eftirlit með framkvæmd laganna, veitir leyfi og umsagnir samkvæmt ákvæðum þeirra, annast umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða, ber ábyrgð á gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir friðlýst svæði, sinnir fræðslu og veitir ráðherra ráðgjöf um náttúruverndarmál. Þá annast stofnunin undirbúning friðlýsinga, metur nauðsynlegar verndarráðstafanir á svæðum sem til greina kemur að setja á framkvæmdaáætlun og sér um kynningu tillögu að endurskoðaðri náttúruminjaskrá og úrvinnslu umsagna vegna hennar.

Nánar er fjallað um náttúruminjaskrá í VI. kafla laga nr. 60/2013, en þar kemur t.a.m. fram í 1. mgr. 36. gr. að ráðherra leggi fram tillögu að endurskoðaðri náttúruminjaskrá og skuli Umhverfisstofnun annast kynningu á þeim þætti hennar sem snúi að tillögu að framkvæmdaáætlun og nýskráningum í C-hluta. Í 3. mgr. greinarinnar kemur fram að eftir að kynningartíma lýkur tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir og skilar til ráðherra. Stofnunin skal þá gera þeim aðilum sem gerðu athugasemdir við tillöguna grein fyrir umsögn sinni um þær. Í 91. gr. laganna er fjallað um ágreining um framkvæmd þeirra. Þar kemur m.a. fram í 2. mgr. að ákvarðanir sem lúta að framkvæmd laganna og ráðherra tekur ekki sjálfur eða staðfestir sæta kæru til hans sem kveði upp endanlegan úrskurð á stjórnsýslustigi.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans almennt að hafa eftirlit með stjórnvöldum og geta þeir, sem telja sig hafa verið beitta rangsleitni af hálfu þeirra, kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Þá segir í 3. mgr. 6. gr. laganna að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrir en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skulu fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra. Af framangreindum ákvæðum leiðir m.a. að umboðsmaður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka af­stöðu til þeirra eða á meðan það er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður enn fremur almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en hann tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar og þá einnig í þeim tilvikum þar sem afstaða æðra stjórnvaldsins til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Ástæða þess að þetta er rakið er að af kvörtun yðar verður ráðið að athugasemdir yðar lúti fyrst og fremst að því hvernig staðið hafi verið að kynningu Umhverfisstofnunar á tillögu að framkvæmdaáætlun vegna framangreinds svæðis. Kemur í kvörtuninni fram að þér hafið komið athugasemdum yðar á framfæri við Umhverfisstofnun, en ekki liggur fyrir hvort þér hafið fengið formleg viðbrögð stofnunarinnar við þeim. Í ljósi þess og með hliðsjón af framangreindu tel ég ekki uppfyllt skilyrði til að taka kvörtun yðar til athugunar að svo stöddu heldur tel ég rétt, teljið þér tilefni til þess, að þér ítrekið athugsemdir yðar við stofnunina og óskið eftir afstöðu hennar til þeirra. Yður kann þá jafnframt að vera fært að leita til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins með athugasemdir yðar að þessu leyti. Ég tek þó fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu erindi yðar ætti að hljóta hjá ráðuneytinu. Teljið þér yður enn rangsleitni beitta að fenginni afstöðu framangreindra stjórnvalda getið þér leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi og verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málið getur komið til athugunar af hálfu umboðsmanns.

Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég máli yðar lokið af minni hálfu.