Heilbrigðismál. Réttindi sjúklinga. Málsmeðferð stjórnvalda. Eftirlitshlutverk landlæknis. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir.

(Mál nr. 12179/2023)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem laut að úrskurði heilbrigðisráðuneytisins þar sem ráðuneytið staðfesti málsmeðferð embættis landlæknis á kvörtun sem A hafði beint til embættisins yfir vanrækslu og ótilhlýðilegri framkomu sem hann taldi sig hafa orðið fyrir við veitingu heilbrigðisþjónustu. Ráðuneytið gerði ekki athugasemdir við að landlæknisembættið hefði litið á kvörtun A sem athugasemdir við þjónustu í skilningi laga um réttindi sjúklinga fremur en formlega kvörtun og lagt málið í farveg samkvæmt því. Athugun umboðsmanns laut einkum að því hvort það hefði verið í samræmi við þá málsmeðferð sem kveðið væri á um í lögum og þar með hvort niðurstaða ráðuneytisins vegna málsins hefði verið í samræmi við lög.

Í álitinu fjallaði umboðsmaður um réttindi sjúklinga og eftirlitshlutverk landlæknis og þá sérstaklega þá málsmeðferð sem lög um landlækni kvæðu á um að ætti sér stað þegar formlegri kvörtun væri beint til embættisins á grundvelli laga um landlækni. Benti umboðsmaður m.a. á að eftirliti landlæknis á þeim grundvelli væri ætlað að tryggja réttindi og hagsmuni sjúklinga gagnvart heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsmönnum. Ákvæði greinarinnar miðuðu við að sá sem legði fram slíka kvörtun skyldi njóta þess réttaröryggis og þeirra málsmeðferðarréttinda sem mælt væri fyrir um í stjórnsýslulögum. Um endurskoðunarhlutverk ráðuneytisins tók umboðsmaður m.a. fram að ekki væri gert ráð fyrir því að ráðuneytið gæti endurskoðað það efnislega mat eða sérfræðilega niðurstöðu embættis landlæknis sem sett hefði verið fram í áliti þess eða tekið sjálfstæða ákvörðun um atvik málsins. Undir kæruheimild til ráðuneytisins félli hins vegar ótvírætt álitaefni um hvort embætti landlæknis hefði við meðferð tiltekinnar kvörtunar fylgt réttum lagareglum.

Umboðsmaður benti á að ákvæði það sem reyndi á í málinu fæli í sér skýra heimild einstaklings til að beina kvörtun til landlæknis við tilteknar aðstæður í því skyni að gengið væri úr skugga um að lögákveðin réttindi sjúklings hefðu verið virt. Í orðalagi ákvæðisins kæmu ekki fram kröfur á þá leið að efni kvörtunar yrði að ná tilteknum lágmarks- eða alvarleikaþröskuldi svo hún yrði tekin til meðferðar á þessum grundvelli. Í ljósi þess að efni kvörtunar A hefði skýrlega fallið undir ákvæðið taldi umboðsmaður ekki fara á milli mála að embætti landlæknis hefði borið að taka hana til formlegrar meðferðar á þeim grundvelli. Landlækni hefði borið að ljúka málinu með formlegri afgreiðslu þar sem fram kæmi faglegt álit hans á atvikum málsins. Þar sem ekki yrði ráðið að landlæknir hefði farið með mál A á grundvelli ákvæðisins, svo sem honum hefði verið skylt, var það álit umboðsmanns að sú niðurstaða heilbrigðisráðuneytisins að staðfesta meðferð landlæknis á kvörtun A hefði ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka málið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis, auk þess að beina þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 7. júní 2024.