Stéttarfélagið A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir frávísun félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins á stjórnsýslukæru félagsins sem laut að ákvörðun ríkissáttasemjara um að leggja fram miðlunartillögu í kjaradeilu þess og B. Var úrskurður ráðuneytisins á því reistur að ekki væri fyrir hendi stjórnvaldsákvörðun sem heimilt væri að kæra til þess. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort afgreiðsla ráðuneytisins á erindi A hefði verið í samræmi við lög, þ. á m. að teknu tilliti til þess yfirstjórnar- og eftirlitshlutverks sem ráðherra félags- og vinnumarkaðsmála gegnir á sviði vinnumála.
Umboðsmaður taldi ljóst að ákvörðun ríkissáttasemjara um að leggja fram miðlunartillögu fæli í sér lögákveðna leið stjórnvalds til þess að koma á kjarasamningi til lausnar vinnudeilu milli samningsaðila. Þannig fæli miðlunartillaga hvorki í sér varanlega né tímabundna lausn á efnislegum réttindum og skyldum fyrr en hún hefði hlotið samþykki í atkvæðagreiðslu og kjarasamningur væri kominn á. Að því virtu taldi hann ekki unnt að líta svo á að með ákvörðun ríkissáttasemjara hefði verið tekin ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga. Þar sem ákvörðun ríkissáttasemjara fæli af þessum ástæðum ekki í sér stjórnvaldsákvörðun taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemd við þá efnislegu niðurstöðu ráðuneytisins að erindi A uppfyllti ekki skilyrði laga til þess að verða tekið til meðferðar hjá því á grundvelli stjórnsýslukæru.
Þrátt fyrir niðurstöðu umboðsmanns um eðli ákvörðunar ríkissáttasemjara taldi hann engu að síður ástæðu til að fjalla nánar um afgreiðslu ráðuneytisins á erindi A m.t.t. yfirstjórnar- og eftirlitshlutverks þess. Umboðsmaður rakti almenn sjónarmið um yfirstjórnar- og eftirlitshlutverk ráðherra og vísaði til þess að í stjórnsýslukæru A hefðu verið gerðar margþættar athugasemdir við ákvörðun ríkissáttasemjara og þess krafist að ráðuneytið beitti sér með þeim hætti að hún yrði felld úr gildi. Að mati umboðsmanns gaf erindið ráðuneytinu tilefni til að leggja mat á hvort lög og atvik málsins stæðu til þess að taka aðfinnslur félagsins til frekari athugunar á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda. Teldi ráðuneytið heimildir ráðherra að þessu leyti sæta takmörkunum vegna sjálfstæðis ríkissáttasemjara eða ekki væri tilefni til viðbragða á slíkum grundvelli, hefðu slík sjónarmið átt að vera kynnt A, s.s. með forsendum úrskurðar þess eða með öðrum hætti. Þar sem það hefði ekki verið gert taldi umboðsmaður að afgreiðsla ráðuneytisins á erindi A hefði að þessu leyti ekki verið í nógu góðu samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Beindi hann því til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu í þá veru.
Að endingu taldi umboðsmaður atvik málsins sýna að tilefni kynni að vera til að mæla skýrar fyrir um stjórnsýslulega stöðu ríkissáttasemjara í lögum, en óhjákvæmilegt væri að líta svo á að af gildandi löggjöf yrði ekki dregin fortakslaus ályktun um að ríkissáttasemjari væri sjálfstætt stjórnvald eða að hvaða marki ráðherra hefði þá heimildir til yfirstjórnar og eftirlits með honum. Hefði það verið vilji löggjafans að ríkissáttasemjari nyti sjálfstæðis að þessu leyti væri það að mati umboðsmanns í betra samræmi við meginregluna um stjórnskipulaga ábyrgð og yfirstjórn ráðherra að kveðið væri á um þá skipan með skýrum hætti í lögum. Taldi hann því rétt að vekja athygli Alþingis og félags- og vinnumarkaðsráðherra á þeim sjónarmiðum.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 5. júní 2024.