Opinberir starfsmenn. Lausn úr starfi vegna skipulagsbreytinga. Meðalhófsreglan. Ráðning í starf hjá sveitarfélagi. Mat á hæfni umsækjenda. Sjónarmið sem ákvörðun verður byggð á. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 12273/2023)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem laut annars vegar að uppsögn hennar úr starfi forstöðumanns skólaþjónustu hjá byggðasamlagi og hins vegar ákvörðun um ráðningu í starf teymisstjóra hjá sömu þjónustu. Athugun umboðsmanns laut einkum að því hvort gætt hefði verið að rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga þegar A var sagt upp störfum í kjölfar þess að starf hennar var lagt niður. Jafnframt laut athugun umboðsmanns að því mati sem fram fór á hæfni umsækjenda um stöðu teymisstjóra hjá skólaþjónustunni.

Umboðsmaður taldi að ákvörðun stjórnar byggðasamlagsins að breyta skipulagi þess og leggja niður það starf sem A gegndi hefði verið tekin að undangengnu mati á því hvernig gildandi fyrirkomulag félli að breyttu lagaumhverfi. Lögmætar ástæður hefðu því legið til grundvallar skipulagsbreytingunum og þeirri ákvörðun að samhliða þeim yrði starf A lagt niður. Umboðsmaður taldi hins vegar nægilega fram komið að í reynd hefði ekkert mat farið fram á hæfni A til að gegna áfram einhverju starfi hjá byggðasamlaginu þegar fyrir lá að starf hennar yrði lagt niður. Það var því álit umboðsmanns að ekki hefði verið gætt rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga við uppsögn A.

Umboðsmaður tók fram að í auglýsingu um starf teymisstjóra hjá skólaþjónustunni hefði hvergi verið vikið að starfsreynslu með beinum hætti. Hins vegar hefði komið fram að leitað væri eftir „metnaðarfullum einstaklingi sem [byggi] yfir góðri þekkingu á stjórnsýslu og skólamálum og [hefði] hæfni til að leiða þau verkefni sem undir skólaþjónustuna [heyrðu]“ auk þess sem umsókn þurfti að fylgja starfsferilskrá. Þá varð ekki séð að rök hefðu verið talin standa til þess að gefa sjónarmiðum um faglega reynslu lítið eða ekkert vægi. Taldi umboðsmaður því að við mat á hæfni umsækjenda hefði borið að horfa til þeirra persónulegu eiginleika, menntunar og starfsreynslu sem almennt séð gátu varpað ljósi á væntanlega frammistöðu umsækjanda í starfi. Undir slíka þætti hefði hlotið að falla fagleg starfsreynsla umsækjenda. Við meðferð málsins hefði því borið að afla upplýsinga um slíkra reynslu og taka tillit til hennar við heildarmat á hæfni umsækjenda. Þar sem af gögnum málsins varð ekki ráðið að gert hefði verið ráð fyrir markvissu mati á faglegri reynslu umsækjenda var það álit umboðsmanns að ekki lægi fyrir að fullnægjandi heildstæður samanburður á þeim hefði farið fram. Því hefði skort á að heildstætt og efnislegt mat hefði verið lagt hæfni A af hálfu stjórnar byggðasamlagsins við meðferð málsins.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til byggðasamlagsins að það leitaði leiða til að rétta hlut A, auk þess að beina þeim tilmælum til samlagsins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 17. apríl 2024.