Hvalur hf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir undirbúningi og setningu reglugerðar, settri 20. júní 2023 samkvæmt heimild í 4. gr. laga um hvalveiðar, þar sem mælt var fyrir um að á því ári skyldu veiðar á langreyðum ekki hefjast fyrr en 1. september. Í kvörtun Hvals hf. til umboðsmanns var m.a. þeirri afstöðu lýst að brostið hefði lagaheimild fyrir útgáfu reglugerðarinnar auk þess sem vegið hefði verið að stjórnarskrárvörðum atvinnu- og eignarréttindum félagsins. Umboðsmaður afmarkaði umfjöllun sína við það hvort útgáfa reglugerðarinnar hefði átt sér fullnægjandi stoð í heimildarlögum sínum og hvort gætt hefði verið krafna um meðalhóf við þær aðstæður sem uppi voru.
Umboðsmaður fjallaði um stjórnskipulega vernd atvinnufrelsis og atvinnuréttinda og túlkun og beitingu lagaheimilda stjórnvalda til að setja slíkum réttindum skorður með almennum fyrirmælum. Benti umboðsmaður m.a. á að ef löggjafinn ákvæði að fela stjórnvöldum að útfæra nánar með stjórnvaldsfyrirmælum hvernig setja skyldi stjórnskipulega vernduðum atvinnuréttindum skorður væri sérstakt tilefni til þess að vandað væri til stjórnsýsluframkvæmdar þannig að tryggt væri að niðurstaðan ætti sér nægilega stoð í lögum og samræmdist þeim að öðru leyti. Einnig fjallaði umboðsmaður um viðmið um velferð dýra á alþjóðlegum vettvangi og þýðingu þeirra fyrir framkvæmd laga um hvalveiðar. Tók umboðsmaður m.a. fram að hann teldi ekki útilokað að líta til sjónarmiða um velferð dýra við framkvæmd á þeim lögum. Aftur á móti yrði sú ályktun ekki dregin af alþjóðlegum reglum að veiðar á langreyðum bæri að banna á ákveðnum tímum eða mögulega fyrir fullt og allt á grundvelli dýravelferðarsjónarmiða. Umrædd reglugerð, sem í reynd hefði falið í sér tímabundið bann við veiðum á langreyðum, hefði því ekki getað helgast af því markmiði að með einhverjum hætti væri verið að innleiða alþjóðleg viðmið um mannúðlegar veiðar. Jafnframt tók umboðsmaður fram að hann gæti ekki fallist á að skýra bæri b-lið 4. gr. laga um hvalveiðar, sem reglugerðin sótti einkum stoð sína til, til samræmis við alþjóðlegar reglur um mannúðlegar veiðar þannig að ráðherra gæti á slíkum grundvelli bannað veiðar tímabundið.
Umboðsmaður dró þá ályktun af gildandi löggjöf að hún gerði allt að einu ráð fyrir ákveðinni samþættingu markmiða nýtingar og dýravelferðar í lagaframkvæmd. Það tillit sem bæri að taka til lagasamræmis að þessu leyti breytti því þó ekki að löggjafinn hefði komið sérstökum reglum um velferð dýra fyrir í lögum þar um og að sama skapi hefðu lög um hvalveiðar þá hagsmuni ekki að meginmarkmiði. Af þessu leiddi að þegar ráðherra nýtti sér heimildir sínar samkvæmt lögum um hvalveiðar gæti hún ekki litið fram hjá markmiðum þeirra laga og horft einvörðungu til þeirra hagsmuna sem lögum um velferð dýra væri ætlað að tryggja. Ekki fengist séð að við útgáfu umræddrar reglugerðar hefði ráðherra tekið tillit til markmiða laga um hvalveiðar eða leitast við að samþætta þau sjónarmiðum um velferð dýra. Það var því álit umboðsmanns að ráðherra hefði við útgáfu reglugerðarinnar skort nægilega skýra stoð í 4. gr. laga um hvalveiðar, eins og sú grein yrði skýrð með hliðsjón af markmiðum sínum, lagasamræmi og grunnreglum stjórnskipunarréttar um vernd atvinnuréttinda og atvinnufrelsis.
Því næst fjallaði umboðsmaður um aðdraganda reglugerðarinnar með hliðsjón af kröfum stjórnsýsluréttar um meðalhóf. Taldi hann að miða yrði við að Hvalur hf. hefði, við þær aðstæður sem uppi voru í júní 2023, haft réttmæta ástæðu til að ætla að það gæti að meginstefnu haldið áfram atvinnustarfsemi sinni þá um sumarið að óbreyttum lögum Alþingis. Þá hefði Hvalur hf., í ljósi hins skamma aðdraganda og skorts á upplýsingum, fengið ófullnægjandi færi á að mæta þeirri röskun hagsmuna sem fyrirhugað tímabundið veiðibann var til þess fallið að valda félaginu. Því yrði að leggja til grundvallar að útgáfa reglugerðarinnar hefði falið í sér fyrirvaralausa og verulega íþyngjandi ráðstöfun m.t.t. stöðu og hagsmuna Hvals hf. Taldi umboðsmaður, einkum í ljósi réttmætra væntinga félagsins, að við þær aðstæður sem uppi voru við útgáfu reglugerðarinnar, yrði að leggja til grundvallar strangar kröfur til þess að gætt væri meðalhófs m.t.t. stöðu og hagsmuna þess. Var það álit umboðsmanns að útgáfa reglugerðarinnar hefði ekki samrýmst kröfum um meðalhóf og þ.a.l. ekki verið í samræmi við lög að þessu leyti.
Þar sem ástand það sem leiddi af útgáfu reglugerðarinnar var liðið undir lok taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að beina sérstökum tilmælum til ráðherra um úrbætur þar að lútandi.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 5. janúar 2024.