17. desember 2024

Neyðarvistun barna á lögreglustöð í Hafnarfirði tekin út

Umboðsmaður og starfsfólk í OPCAT-teymi hennar skoðuðu í síðustu viku neyðarvistun barna sem er nú um stundir á lögreglustöðinni við Flatahraun í Hafnarfirði.

Í október var greint frá því að neyðarvistunin yrði að hluta til við Flatahraun næstu mánuði, þ.e.a.s. svokölluð þyngri vistun. Óskaði umboðsmaður í kjölfarið eftir tilteknum upplýsingum vegna úrræðisins. Hún og starfsfólk OPCAT-teymisins skoðuðu síðan aðstæður barnanna og funduðu með Barna- og fjölskyldustofu á fimmtudaginn var. Í framhaldinu verða svo tekin viðtöl við börn sem þarna hafa vistast með áherslu á líðan og aðbúnað þeirra.

Gerð er skýrsla um hverja eftirlitsheimsókn þar sem greint er frá niðurstöðum og bent á leiðir til úrbóta ef tilefni þykir til. Skýrslur eru birtar á vef umboðsmanns þegar þær liggja fyrir.