Verulegur vafi lék á með hvaða hætti starfslok við framhaldsskóla bar að þar sem enginn skriflegur gerningur lá fyrir um þau. Hafði ekki verið sýnt fram á að undirbúningur og úrlausn málsins hefði verið í samræmi við þá lögboðnu málsmeðferð sem ætlað er að tryggja réttaröryggi ríkisstarfsmanna við ákvörðunartöku um starfslok þeirra.
Kvartað var yfir uppsögn úr starfi hjá framhaldsskóla. Ekkert uppsagnarbréf hafði borist starfsmanninum frá skólanum en hann var í veikindaleyfi þegar starflokin komu til. Vinnuveitandinn taldi aftur á móti að starfsmaðurinn hefði viljað hætta störfum þótt skrifleg uppsögn hefði ekki borist honum og ekkert samkomulag milli aðila lá fyrir.
Í áliti umboðsmanns kemur meðal annars fram að uppsagnarbréf þurfi að vera þannig úr garði gerð að ekki fari á milli mála við hvaða tímamark uppsögn miðist, hver uppsagnarfresturinn sé og hvenær ráðningarslit skuli verða. Væru starfslok byggð á samkomulagi milli vinnuveitanda og starfsmanns yrði forstöðumaður að sýna fram á að slíkt samkomulag hefði verið gert og leggja fram gögn sem vörpuðu ljósi á málið ef eitthvað væri óljóst. Þá benti umboðsmaður á að samkvæmt kjarasamningi væri ekki heimilt að leysa starfsmann frá störfum vegna heilsubrests fyrr en á því tímamarki sem leiddi af samningnum nema hann hefði sjálfur óskað þess.
Álit umboðsmanns í máli nr. 12684/2024