14. nóvember 2025

Eftirlit að nóttu til í fangageymslu lögreglu

Umboðsmaður og starfsmenn hennar fóru í október í næturlangt eftirlit í fangageymslu lögreglunnar við Hverfisgötu, frá föstudagskvöldi til laugardagsmorguns. Heimsóknin er liður í athugun umboðsmanns sem beinist sérstaklega að umönnun og aðbúnaði þeirra sem vistast í fangageymslunni en ábendingar sem umboðsmanni bárust urðu til þess að ákveðið var að  stofna til þessarar athugunar.

OPCAT-eftirlit umboðsmanns felur í sér að fylgjast með aðstæðum þeirra sem hafa verið svipt frelsi sínu. Að þessu sinni var heimsóknin liður í afmarkaðri athugun á meðferð þeirra sem færðir eru í fangageymslu lögreglunnar við Hverfisgötu. Við slíka athugun er horft til þess hvort mannúðar sé gætt gagnvart fólki. Undir það fellur meðal annars framkoma, viðmót, viðbragð og aðstoð þeirra sem koma að þeirri vistun. Fylgst var með starfseminni um nóttina og rætt, eins og hægt var, við þau sem gistu fangageymslurnar. Jafnframt var farið yfir upptökur af vistunum í fangageymslunni sem kallað hafði verið eftir fyrirfram.

Sérstök skýrsla verður gefin út vegna heimsóknarinnar.