Fyrir skömmu var samnorrænn fundur OPCAT-teyma umboðsmanna Norðurlandanna, sem sinna eftirliti með aðstæðum frelsissviptra, haldinn í Reykjavík. Þetta er árlegur viðburður sem þátttökuríkin skiptast á að halda og í annað sinn sem fundað er á Íslandi. Ásamt Íslendingum sóttu Danir, Finnar, Norðmenn og Svíar fundinn.
Á fundinum var fjallað um lyfjafjötra með sérstakri áherslu á róandi lyfjagjöf á hjúkrunarheimilum. Einnig var rætt um árangursríkar leiðir til að beina tilmælum og ábendingum til stjórnvalda, einkum þegar það reynist þeim erfitt að innleiða breytingar nema með miklum tilkostnaði. Að lokum var rætt um aðferðafræðileg og siðferðisleg álitaefni í tengslum við eftirlitsheimsóknir. Meðal annars um árangursrík viðtöl í heimsóknum, hvernig skuli tryggja nafnleynd viðmælenda og hvernig haga skuli heimsóknum þannig að sem minnst röskun verði á starfsemi staðanna sem heimsóttir eru. Matthías Matthíasson sálfræðingur og teymisstjóri Geðheilsuteymis fangelsa var gestafyrirlesari á fundinum. Fjallaði hann um fanga sem glíma við geðræn vandamál og hvaða hlutverki fangelsismálayfirvöld og heilbrigðisyfirvöld gegna í að koma til móts við þennan hóp og standa vörð um öryggi hans og velferð.

Næsti fundur OPCAT-teyma Norðurlandanna fer fram í Ósló næsta haust.