Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að hætta stuðningsþjónustu og málsmeðferð í tengslum við þá ákvörðun var ekki lögð í réttan farveg af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála. Hefði það verið gert má ætla að nefndinni hefði orðið ljóst að ákvarðanirnar voru ekki teknar af þar til bærum aðilum innan sveitarfélagsins.
Málið varðaði framsendingu úrskurðarnefndar velferðarmála á kæru til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem laut að ákvörðun sveitarfélagsins um að hætta að veita stuðningsþjónustu. Fyrir lá að hvorki samþykkt fyrir velferðarráð né reglur borgarinnar um stoð- og stuðningsþjónustu, sem ákvörðunin var byggð á, hefðu hlotið þá málsmeðferð sem sveitarstjórnarlög gera ráð fyrir varðandi samþykktir um stjórn sveitarfélaga. Var framsal á valdi Reykjavíkurborgar til að taka ákvörðun í tengslum við stuðningsþjónustu því ekki í samræmi við lög. Varð því að leggja til grundvallar að hvorki starfsmaður velferðarsviðs né áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi verið bær til þess að taka ákvörðun í málinu. Samkvæmt því var ákvörðun Reykjavíkurborgar um að hætta að veita stuðningsþjónustuna ekki tekin af þar til bærum aðila innan sveitarfélagsins. Þar sem fram hafði komið að borgin hyggðist gera breytingar á samþykktum sínum, að þessu leyti, taldi umboðsmaður ekki ástæðu til sérstakra tilmæla þar um en mun fylgjast með þeim breytingum sem hafa verið boðaðar.
Þá gerði umboðsmaður athugasemdir við þá framkvæmd úrskurðarnefndar velferðarmála að framsenda kærur til Reykjavíkurborgar án þess að ganga úr skugga um grundvöll ákvörðunarinnar sem kærurnar beindust að. Það hafi hvorki verið í samræmi við þær rannsóknarskyldur sem hvíli á nefndinni né eftirlits- og réttaröryggishlutverk hennar gagnvart borginni. Í ljósi þess að viðkomandi hafði fengið stuðningsþjónustu að nýju var ekki tilefni til að beina því til nefndarinnar að taka málið til nýrrar meðferðar en mælst var til þess að hún gætti framvegis að þessu.
Álit umboðsmanns í máli nr. 12250