14. mars 2025

Fangageymsla lögreglu hentar ekki sem úrræði fyrir neyðarvistuð börn

Fangageymsla á lögreglustöðinni á Flatahrauni í Hafnarfirði er ekki viðeigandi vistunarstaður fyrir börn og er því beint til Barna- og fjölskyldustofu að endurskoða þá tilhögun. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu umboðsmanns um starfsemi neyðarvistunar Stuðla sem að hluta hefur verið þarna til húsa frá því í nóvember 2024.

Afstaða umboðsmanns er skýr um að ekki sé við hæfi að vista börn í fangageymslunni vegna aðbúnaðar þar. Það er hins vegar ekki á valdi umboðsmanns að stöðva notkun úrræðisins heldur þeirra stjórnvalda sem fara með málefni barnaverndar. Í ljósi þess, og þeirrar staðreyndar að úrræðið er enn í notkun, eru einstök atriði er snúa að aðbúnaði og starfsemi í fangageymslunni tekin til umfjöllunar í skýrslunni og tilmælum og ábendingum beint til viðeigandi stjórnvalda. Er þá sérstaklega vísað til þess að hægt verði að hafa ábendingar og tilmæli umboðsmanns til hliðsjónar við val á húsnæði neyðarvistunar og í starfsemi hennar framvegis.

Aðstaða neyðarvistunar Stuðla á Flatahrauni hefur yfirbragð hefðbundinnar fangageymslu og ber með sér að vera sérútbúin fyrir vistun fólks við hátt öryggisstig. Allur aðbúnaður er rammgerður og kuldalegur og aðstaðan er gluggalaus. Börn sofa á plastklæddri dýnu á steyptum bekkjum og hreinlætistæki eru úr stáli. Þá eru hvorki klukkur né speglar í fangageymslunni. Ekki eru neinar merkingar frá neyðarvistun í húsnæðinu en í umhverfi þess er ýmislegt sem gefur til kynna að starfsemi lögreglu fari þar fram. Því er ekki útilokað að börn telji sig hafa verið handtekin og færð í fangageymslu lögreglu á þeim grundvelli.

Að mati umboðsmanns Alþingis leiða aðstæður í fangageymslunni jafnframt til aukinna takmarkana á réttindum barnanna og frekari hættu á að þvingunum og öðrum íþyngjandi inngripum sé beitt í ríkari mæli, til dæmis við leit, takmarkanir á samskiptum og myndvöktun.

  

Skýrsla umboðsmanns um neyðarvistun Stuðla á lögreglustöðinni á Flatahrauni