19. desember 2024

Ýmsu ábótavant er varðar aðbúnað og umgjörð starfseminnar á neyðarvistun Stuðla

Óviðunandi eftirlit með börnum, ófullnægjandi húsnæði og samskiptamöguleikar, heilbrigðisþjónusta, valdbeiting og útivistarkostir eru á meðal atriða sem umboðsmaður gerir athugasemdir við í nýrri skýrslu um neyðarvistun Stuðla og mælist til að verði færð til betri vegar.

Í tengslum við gerð skýrslunnar var farið í þrjár eftirlitsheimsóknir á Stuðla á tæplega eins árs tímabili, frá nóvember 2023 til október 2024, þar af eina óvænta. Þótt allar hafa verið farnar fyrir eldsvoðann í október eiga öll tilmæli og ábendingar umboðsmanns við eftir sem áður. Vegna brunans og tímabundinni breytinga á starfsemi Stuðla í kjölfarið, var einnig farið í eftirlit á lögreglustöðina við Flatahraun í Hafnarfirði í síðustu viku þar sem hluti neyðarvistunarinnar er til húsa um þessar mundir. 

Á neyðarvistun Stuðla dvelja 12-18 ára gömul börn. Að mati umboðsmanns eru ekki nægir möguleikar til að skilja þau að, til að mynda eftir aldri og kyni, ef þess gerist þörf. Þá hefur börnum með geðræn vandamál fjölgað þar undanfarin misseri. Sum þeirra þurfa á sérhæfðri meðferð að halda en er komið fyrir á deildinni vegna skorts á viðeigandi úrræðum. Athygli bæði mennta- og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra er vakin á þessari stöðu og því beint til þeirra að sjá til þess að húsnæðið fullnægi hverju sinni þeim kröfum sem gerðar eru til starfseminnar og taki mið af umfangi hennar. 

Gerðar eru athugasemdir við að í einu rými deildarinnar, sem stundum var notað sem svefnherbergi, var stöðug myndvöktun án þess að börnin sem þar voru vistuð fengju viðhlítandi upplýsingar um það. Þá þarf að tryggja rétta skráningu, geymslu og förgun vímuefna sem tekin eru af börnum við komu. Að gefnu tilefni er því einnig beint til neyðarvistunarinnar að veita stjórnvöldum ætíð réttar og nákvæmar upplýsingar. Ennfremur eru ítrekuð þau tilmæli og ábendingar sem sett voru fram í skýrslu umboðsmanns sem kom út fyrir fjórum árum og enn hefur ekki verið brugðist við með viðunandi hætti. Þar á meðal að tryggja börnunum almenna heilsufarsskoðun við komuna á Stuðla og að líkamsleit sé almennt ekki heimil nema við sérstakara aðstæður.

Áfram verður fylgst með þróun mála og er óskað eftir að stjórnvöld geri grein fyrir viðbrögðum sínum eigi síðar en 1. júlí 2025.

  

   

Skýrsla umboðsmanns um neyðarvistun Stuðla – desember 2024