28. október 2024

Ekki gerðar athugasemdir við afgreiðslu á framkvæmdaleyfi þriðja áfanga Arnarnesvegar

Settur umboðsmaður telur hvorki efni til að gera athugasemdir við afgreiðslu Kópavogsbæjar á framkvæmdaleyfi fyrir þriðja áfanga Arnarnesvegar né þá niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að hafna kröfu um ógildingu leyfisins. 

Settur umboðsmaður vísaði til þess að fyrir lægi að í matsskýrslu Vegagerðarinnar hefði verið lagt upp með að bygging Arnarnesvegar yrði í þremur áföngum og heildaráhrif framkvæmdarinnar á umhverfið hefðu þar verið metin í einu lagi. Fallast yrði á með úrskurðarnefndinni að slík tilhögun, í stað þess að fjallað væri um einstaka áfanga óháð hver öðrum, væri í samræmi við þau markmið laga að tryggja að fyrir hendi væru nauðsynlegar upplýsingar og vitneskja um hvaða áhrif fyrirhuguð framkvæmd myndi hafa á umhverfið. Í ljósi þess að úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Arnarnesvegar hefði verið kveðinn upp árið 2003 og þar sem framkvæmdir við fyrsta áfanga hans hefðu hafist árið 2004 taldi settur umboðsmaður að framkvæmdirnar hefðu hafist innan þess frests sem mælt væri fyrir um í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Kópavogsbæ hefði þar með ekki verið skylt að óska eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þyrfti matsskýrslu framkvæmdarinnar.

Áður en ákvörðun um framkvæmdaleyfið hefði verið tekin hefði verið lögð fram sameiginleg greinargerð Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar um afgreiðslu þess í samræmi við lagafyrirmæli þess efnis. Í henni hefði verið að finna rökstudda afstöðu bæjarstjórnar til umverfismats framkvæmdarinnar og einstakra umhverfisþátta hennar. Taldi settur umboðsmaður, með tilliti til þeirra athugasemda sem komið hafði verið á framfæri við umhverfismat framkvæmdarinnar, ekkert fram komið sem leiddi til þess að hann hefði forsendur til að fullyrða að rannsókn málsins af hálfu Kópavogsbæjar hefði ekki verið fullnægjandi að þessu leyti. Af því leiddi jafnframt að hann gerði ekki athugasemdir við þá niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að hafna kröfu um ógildingu framkvæmdaleyfisins.

 

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 12281/2023