Aðeins einu sinni hafa umboðsmanni borist fleiri kvartanir en síðastliðið ár. Samtals voru þær 548 sem er tæplega 4% fjölgun milli ára. Tuttugu mál voru tekin upp að eigin frumkvæði, farið var í sjö heimsóknir á grundvelli OPCAT-eftirlits embættisins og gefnar út fjórar skýrslur í tengslum við það. 489 mál voru afgreidd, þar af 18 með áliti.
Álitin eru hlutfallslega færri en undanfarin ár sem að kann að töluverðu leyti að skýrast af fjölgun mála sem lokið var í kjölfar leiðréttingar, endurupptöku eða skýringar stjórnvalds. Í fyrra lyktaði þannig 23% kvartana með þeim hætti samanborið við 13% árið 2022. Þá ber að hafa í huga að í lokabréfum umboðsmanns kann að vera að finna ýmsar athugasemdir og ábendingar til stjórnvalda þótt þær séu ekki settar fram í formlegu áliti. Í nær öllum tilfellum hefur þegar verið farið að tilmælum umboðsmanns frá árinu 2023 og er aðeins eitt slíkt mál enn til meðferðar hjá stjórnvaldi.
Eins og oft áður laut helsta umkvörtunarefnið á árinu að töfum á afgreiðslu mála eða erinda af hálfu stjórnvalda eða hartnær fimmtungur. Kvartanir vegna málefna opinberra starfsmanna annars vegar og skatta og gjalda hins vegar námu 7% hvort.
Frumkvæðiseftirlit og OPCAT
Tuttugu frumkvæðismál hófust á árinu og 18 lauk, þar af tveimur með áliti. Annað laut að hæfi fjármálaráðherra, undirbúningi og ábyrgð við sölu á hlutum í Íslandsbanka hf. og hitt að ferðafrelsi barna við gosstöðvarnar í Meradölum.
Farið var í sjö OPCAT-eftirlitsheimsóknir. Tvær í fangelsin á Hólmsheiði og Sogni vegna þemaskýrslu um konur í fangelsum og aðbúnað þeirra. Búsetuúrræði Vinakots og Klettabæjar voru skoðuð, fangageymslur á Selfossi og lokuð deild fyrir fólk með heilabilunareinkenni á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð. Þá var farið í heimsókn á neyðarvistun Stuðla til að fylgja eftir fyrri OPCAT skýrslu umboðsmanns um úrræðið. Í kjölfarið þótti ástæða til frekari athugunar á starfsemi og aðbúnaði þar.
Fjórar OPCAT-skýrslur voru gefnar út á árinu. Ein fól í sér allsherjarúttekt á fangelsinu Litla-Hrauni, önnur fjallaði um öryggisúrræði á Akureyri og sú þriðja um fangageymslur lögreglunnar á Selfossi. Þá kom út þemaskýrsla um stöðu kvenna í fangelsum á Íslandi sem er sú fyrsta af þeim toga. Tvær skýrslur vegna heimsókna á árinu komu svo út fyrri part árs 2024.
Efst á baugi 2023
Í upphafi skýrslunnar fer umboðsmaður yfir það markverðasta sem kom til kasta hans í fyrra. Þar er m.a. fjallað um einingu og samhæfingu stjórnsýslukerfisins, stjórnunar- og eftirlitshlutverk ráðherra og stöðu úrskurðar- og kærunefnda.
Minnt er á að þótt stjórnvöld hafi lögum samkvæmt fjölbreytt og ólík verkefni, starfi á mismunandi stigum og stundum innan svæðisbundinna marka, þá er ríkið eitt og óskipt og innan þess gilda ein lög. Stjórnvöld sem mynda framkvæmdarvaldið annast lagaframkvæmd og því getur ekki verið um að ræða neina meðferð framkvæmdarvaldsins sem ekki er á ábyrgð einhvers ráðherra í ríkisstjórn.
„Þegar málefni virðist heyra undir málefnasvið fleiri ráðherra, eða jafnvel einskis þeirra, reynir á samstarf og samhæfingu innan stjórnsýslunnar. Það er þannig ósamrýmanlegt grunnreglum stjórnskipunarinnar að mismunandi einingar stjórnsýslukerfisins bendi hver á aðra og ekkert stjórnvald axli í reynd ábyrgð á lagasetningu sem ætlað er að tryggja borgurunum ákveðin réttindi. Sama á við ef enginn innan stjórnsýslukerfisins telur sig hafa það hlutverk að leysa úr aðsteðjandi vanda með viðeigandi ráðstöfunum [...]. Þeir sem starfa innan stjórnsýslunnar, hvort heldur er á æðri eða lægri stigum hennar, þurfa því að mínum dómi að hafa í huga að ekkert stjórnvald er eyland heldur hluti kerfis sem í heild er trúað fyrir því að halda uppi lögum Alþingis.“
Í þessu samhengi hnykkir umboðsmaður á því yfirstjórnar- og eftirlitshlutverki sem ráðherrar gegna og varar við því að undirstofnanir fari á nokkurs konar sjálfstýringu. Ráðherra geti aldrei sagt fyrirvaralaust að kerfislægur vandi stofnunar, sem undir hann heyri, komi honum ekki við.
Fjallað er um þá þróun, sem nefnd hefur verið í fyrri ársskýrslum, að eftirlit með stjórnsýslunni hafi að einhverju leyti verið tekið út úr ráðuneytum og falið úrskurðar- og kærunefndum. Þeim sé ætlað að starfa meira eða minna sjálfstætt sem feli í sér hættu á „ábyrgðarleysisvæðingu“. Með þeirri skírskotun er átt við að ráðuneyti líti svo á að hlutaðeigandi málefni komi því lítið eða ekkert við eftir að sjálfstæðri úrskurðarnefnd hefur verið komið á laggirnar.
Þar sem umboðsmaður hefur ekki réttarskipandi vald getur hann ekki gefið stjórnvöldum bindandi fyrirmæli, hvorki almennt né vegna einstakra mála. Reynslan sýnir þó að í öllum þorra tilvika fallast stjórnvöld á ábendingar hans og tilmæli. Í þeim undantekningartilvikum sem þetta er ekki gert hefur umboðsmaður fá úrræði önnur en að vekja athygli Alþingis á málinu auk þess sem hann getur mælt með gjafsókn ef viðkomandi hyggst láta reyna á mál sitt fyrir dómstólum. Staða þingsins og eftirlitshlutverk liggur þó ekki alveg ljóst fyrir gagnvart stjórnvöldum sem samkvæmt lögum eru að meira eða minna leyti sjálfstæð gagnvart ráðherra. Á þetta meðal annars við um úrskurðarnefndir sem ætla er að vera sjálfstæðar að þessu leyti og bera hvorki lagalega né pólitíska ábyrgða gagnvart þinginu.
„Sú staða hefur enn ekki komið upp að sjálfstætt stjórnvald, svo sem úrskurðarnefnd, hafi hafnað því kerfisbundið að fara að tilmælum umboðsmanns. Kæmi slík staða upp yrði það að ráðast af atvikum hver yrðu viðbrögð umboðsmanns og hugsanlega Alþingis. Ég tel það hins vegar skjóta með ákveðnum hætti skökku við ef löggjöf, sem kveður á um sjálfstæði úrskurðarnefndar, verður til þess að skarð sé höggvið í þá réttarvernd sem Alþingi hefur falið umboðsmanni að tryggja borgurunum gagnvart stjórnsýslunni. Þetta tel ég einnig að þeir sem sitja í úrskurðarnefndum ættu að hafa í huga.“
Ítarlegri umfjöllun um allt ofangreint og margt fleira sem ástæða væri til að tíunda úr starfseminni getur að líta skýrslunni. Í rafrænni útgáfu hennar má svo smella á málsnúmer til að kalla fram viðkomandi álit eða bréf ásamt viðbrögðum stjórnvalds við tilmælum umboðsmanns sé þeim til að dreifa. Þá er stytt útgáfa skýrslunnar væntanleg á ensku innan tíðar.
Skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2023