22. júlí 2024

Athugun á notkun lögreglunnar á einkennismerkjum lokið

Með hliðsjón af svörum ríkislögreglustjóra um áformaðar breytingar á ákvæðum reglugerðar um einkenni og merki lögreglunnar hefur umboðsmaður lokið athugun sinni á málinu.

Athugunin hófst eftir að umboðsmanni var bent á að lögregluembætti notuðu lögreglumerki sem virtust ekki vera í samræmi við reglugerðir þar um. Óskaði hann því eftir nánari skýringum frá ríkislögreglustjóra sem veitti m.a. þau svör að endurskoðun reglugerðar um lögreglumerki væri hafin.  

Þrátt fyrir að málinu sé lokið hjá umboðsmanni áréttar hann mikilvægi þess að handhafar framkvæmdarvalds, þ. á m. lögreglan, sem hefur það grundvallarhlutverk að halda uppi lögum og reglum í landinu, fari að þeim réttarreglum sem gilda á hverjum tíma um starfsemi þeirra. Af svari ríkislögreglustjóra mátti ráða að framfylgni við ákvæði reglugerðarinnar hefði að einhverju leyti verið ábótavant. Er þeirri ábendingu beint til embættisins að hrinda breytingum ekki í framkvæmd áður en réttarreglum þar að lútandi hefur verið breytt með viðeigandi hætti. Er þá m.a. horft til þess að hin „stafræna stjarna“ sem lögreglan tók í notkun fyrir um sex árum hefur verið nýtt í margs konar tilgangi, m.a. við merkingar á lögreglubifreiðum, áður en formlega var borið undir dómsmálaráðherra í mars sl. hvort breyta þyrfti reglugerðinni. Óskar umboðsmaður eftir upplýsingum um framvindu málsins eigi síðar en 1. október nk.

  

  

Bréf umboðsmanns til ríkislögreglustjóra