27. júní 2024

Leggja bar mat á rétt íbúa hjúkrunarheimilis til reykinga á eigin herbergi

Réttur starfsmanna til reyklauss vinnuumhverfis útilokar ekki að íbúa hjúkrunarheimilis sé veitt undanþága til að reykja inni á eigin herbergi ef aðstæður leyfa.

Íbúi á hjúkrunarheimili kvartaði yfir því að mega ekki á reykja inni í eigin herbergi. Ákvörðun um að banna reykingar hafði m.a. byggst á rétti starfsfólks til reyklauss umhverfis og var vísað til þess af hálfu sveitarfélagsins, sem rak heimilið, að það þyrfti að sinna daglegri þjónustu inn á herbergjum íbúa.

Umboðsmaður staldraði við þá ríku áherslu sem sveitarfélagið lagði á að hjúkrunarheimilið væri vinnustaður án þess að ráðið yrði af svörum þess að tekið hefði verið tillit til þess að þetta væri jafnframt heimili þeirra sem þar dveldust. Benti hann á að í lögum væri sérstaklega gert ráð fyrir að heimilt væri að veita undanþágu frá reykingabanni á íbúðarherbergjum. Gæti réttur starfsmanna til reyklauss vinnuumhverfis ekki fortakslaust girt fyrir að sú heimild væri nýtt. Leggja þyrfti heildstætt mat á aðstæður, þ. á m. hagsmuni annarra heimilismanna og rétt starfsfólks til reyklauss umhverfis.

Þótt sveitarfélagið hefði í svörum sínum lagt áherslu á rétt starfsmanna til reyklauss umhverfis gat umboðsmaður ekki betur séð en reykingabannið hefði einnig grundvallast á mati á loftræstingu og loftgæðum í einstökum rýmum og að tóbaksreykingar á herbergjum væru ekki mögulegar án þess að þær spilltu loftgæðum annarra sem þar dveldust eða störfuðu. Þá hefðu verið gerðar ráðstafanir til þess að íbúar gætu reykt í sérstakri aðstöðu utan herbergja sinna. Taldi umboðsmaður því ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá efnislegu ákvörðun að fallast ekki á beiðni íbúans um undanþágu til reykinga inni á eigin herbergi.

   

  

Mál nr. 12414/2024