02. maí 2024

Óskað eftir skýringum vegna gjaldskrár Sorpu

Sorpa bs. hefur verið beðin um upplýsingar um hvort gjaldskrá hennar hafi verið birt lögum samkvæmt og ef ekki er óskað skýringa á því. Þá biður umboðsmaður sérstaklega um skýringar á innheimtu gjalds fyrir meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs og hvernig hún samrýmist lögum um meðhöndlun úrgangs.

Í bréfi til Sorpu er bent á að samkvæmt lögunum skuli birta gjaldskrá fyrir förgun úrgangs í B-deild Stjórnartíðinda en ekki verði séð að það hafi verið gert. Umboðsmaður hóf skoðun á þessu í kjölfar kvörtunar sem honum barst nýverið. Þar var líka bent á að ákvæði í gjaldskránni viðvíkjandi raf- og rafeindatækjaúrgangi samrýmdist ekki fyrirmælum laga um meðhöndlun úrgangs þar sem segi að söfnunarstöðvum beri að taka við slíkum úrgangi gjaldfrjálst. Fyrirspurn umboðsmanns lýtur einnig að því atriði.

  

  

Bréf umboðsmanns til Sorpu