Í framhaldi af svörum heilbrigðisráðuneytis um gjaldtöku vegna bólusetningar barna gegn HPV-sýkingum hefur umboðsmaður óskað eftir frekari upplýsingum.
Nú er spurt nánar út í fyrri framkvæmd bólusetningarinnar. Hverjum hafi staðið hún til boða að kostnaðarlausu á rúmlega 10 ára tímabili, hvort einhver hafi greitt fyrir hana á þeim tíma og þá m.a. um fjárhæð og lagagrundvöll gjaldsins. Einnig er óskað eftir því að gerð verði almenn grein fyrir fyrirkomulagi bólusetninganna núna. Þar á meðal hvort aldursmörk í viðauka reglugerðar séu ófrávíkjanleg svo bólusetning geti verið gjaldfrjáls en einnig almennt um fyrirkomulag bólusetningarinnar á árinu 2024, s.s. um hugsanlega gjaldtöku og lagagrundvöll hennar. Að lokum, með vísan til laga um sjúkratryggingar þar sem kveðið er á um að ekki sé heimilt að taka gjald fyrir heilsugæslu í skólum, er óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort bólusetningar í skólum teljist almennt til „heilsugæslu í skólum“ í skilningi laganna. Óskað er eftir svörum fyrir 9. mars nk.
Bréf umboðsmanns til heilbrigðisráðuneytisins
Tengd frétt
Óskað eftir upplýsingum um gjaldtöku vegna HPV bólusetningar barna