Fólk sem dæmt er í ótímabundna öryggisgæslu þarf að eiga raunhæfan kost á því að fá þá niðurstöðu endurskoðaða reglulega. Líkt og áður hefur verið bent á er ekki til lagaumgjörð um framkvæmd slíkrar öryggisgæslu. Nú liggja hins vegar fyrir áform félags- og vinnumarkaðsráðherra um að bæta þar úr. Samkvæmt þeim er tekið tillit til fyrri tilmæla umboðsmanns um að skýra þurfi réttarstöðu dómþola m.a. þegar kemur að endurmati á vistuninni.
Þetta kemur fram í OPCAT-skýrslu umboðsmanns eftir fyrstu heimsókn hans í öryggisúrræði af þessum toga en áður hefur hann heimsótt réttargeðdeild þar sem fólk er oft vistað á sama grundvelli.
Dómar um öryggisgæslu eru ótímabundnir. Bent er á að dómþoli eigi sjálfur að hafa raunhæfa möguleika á að fá vistun sína endurmetna fyrir dómstólum. Í úrræðinu er það almennt gert á fimm ára fresti en í heimsókninni kom fram að einstaklingur kynni að uppfylla skilyrði fyrir lausn úr öryggisgæslu eða rýmkun á skilyrðum hennar áður en til endurmats kemur. Vísað er til fyrri umfjöllunar umboðsmanns, m.a. um óljóst hlutverk tilsjónarmanna þegar kemur að því að hafa eftirlit með því að vistun vari ekki lengur en þörf er á og skort á eftirliti með störfum þeirra. Þar sem fyrir liggja áform ráðherra um að skýra þessi atriði verður fylgst með því hvort þau nái fram að ganga.
Löggjöf um fatlað fólk tekur til þeirra sem í úrræðinu dvelja. Í henni er lagt almennt bann við að beita nauðung í samskiptum og sækja verður um undanþágu frá því til sérstakrar nefndar. Í heimsókninni fengust þær upplýsingar að nefndin hefði vísað slíkum umsóknum frá. Það stæði þó til að sækja um að nýju á grundvelli upplýsinga um að afstaða nefndarinnar kynni að hafa breyst. Umboðsmaður beinir tilmælum til velferðarsviðs sveitarfélagsins að fylgja þeim áformum eftir.
Þótt engin undanþága frá nefndinni liggi fyrir kunna þeir sem þarna dvelja að vera beittir nauðung. Þvinguð lyfjagjöf, mynd– og hljóðvöktun, auk takmarkana sem vistmönnum eru settar í tengslum við samskipti, útiveru og aðgengi að fjármunum var því skoðað og tilmæli og ábendingar þar að lútandi veittar.
Í skýrslunni er vikið að því hvort raunhæft sé fyrir vistmenn að kæra einstakar ákvarðanir eða koma á framfæri kvörtunum þegar lagaumgjörðin er jafn flókin og raun ber vitni. Greina þurfi kvörtunar- og kæruleiðir, veita vistmönnum upplýsingar um þær og skýra verklag.
Aðbúnaður var m.a. skoðaður m.t.t. aðgengi að námi, vinnu, tómstundum og heilbrigðisþjónustu. Tryggja þarf að öll hafi möguleika á að hafa eitthvað fyrir stafni.
Þótt þjálfun starfsfólks sé almennt í góðu horfi er bent á að hún verði að taka nægilegt mið af aðstæðum íbúa. Einnig að starfsfólk í afleysingum hljóti fullnægjandi þjálfun áður en það tekur til starfa.
Viðbrögð stjórnvalda við tilmælum og ábendingum umboðsmanns verða birt þegar þau liggja fyrir.
Skýrsla umboðsmanns um heimsókn í öryggisúrræði á Akureyri