14. janúar 2020

Eftirlit með aðbúnaði gæsluvarðhaldsfanga á Hólmsheiði

Í gær hófst eftirlitsheimsókn umboðsmanns og starfsfólks hans í fangelsið á Hólmsheiði í Reykjavík. Að þessu sinni eru skoðaðar aðstæður fólks þar sem sætir gæsluvarðhaldi, bæði í einangrun og lausagæslu.

Á Hólmsheiði er pláss fyrir 56 fanga og var fangelsið opnað í áföngum þar til það var komið í fulla notkun til í fyrra. Þar er bæði gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi með deild fyrir kvenfanga og aðstöðu fyrir afplánun styttri og lengri dóma og vararefsinga. Hægt er að skipta deildum upp eftir þörfum. Heimsókn umboðsmanns lýkur á morgun.

Þetta er liður í OPCAT-eftirliti umboðsmanns með aðstæðum fólks sem hefur verið svipt frelsi sínu og fimmta heimsókn hans í tengslum við það. Auk þess að kynna sér aðbúnað og starfshætti á viðkomandi stað er lögð áhersla á trúnaðarsamtöl við þá sem þar dvelja hverju sinni og starfsfólk. Verklag er lýtur að hugsanlegum þvingunum og öryggisráðstöfunum skoðað og sérstaklega er kannað hvernig skráningu á ýmsum atriðum er háttað. Gerð er skýrsla eftir hverja heimsókn þar sem greint er frá niðurstöðum og eftir atvikum bent á leiðir til úrbóta í starfseminni. Heimsóknarskýrslur verða birtar á vefsíðu umboðsmanns.

 

 

Tengdar fréttir:

Ófullnægjandi lagastoð til inngripa í stjórnarskrárvarin réttindi sjúklinga á geðdeildum

OPCAT-heimsókn í fangelsið á Sogni

Eftirlitsheimsókn í fangageymslu lögreglunnar á Hverfisgötu

Eftirlitsheimsókn á neyðarvistun Stuðla

Fyrsta OPCAT-heimsókn umboðsmanns