15. október 2019

Ófullnægjandi lagastoð til inngripa í stjórnarskrárvarin réttindi sjúklinga á geðdeildum

Ljóst er að fullnægjandi lagaheimildir eru ekki til staðar í íslenskri löggjöf til að taka ákvarðanir gagnvart frelsissviptum einstaklingum á geðheilbrigðisstofnunum sem geta falið í sér inngrip í réttindi sem varin eru í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Þótt sjúklingur sé frelsissviptur á grundvelli lögræðislaga eða dóms veitir það starfsmönnum geðheilbrigðisstofnana ekki sjálfkrafa heimild til þess að skerða slík réttindi sjúklinga.

Þetta kemur fram í fyrstu skýrslu umboðsmanns á grundvelli OPCAT-eftirlits hans þar sem farið var á þrjár lokaðar deildir geðsviðs Landspítalans á Kleppi í Reykjavík, réttargeðdeild, öryggisgeðdeild og sérhæfða endurhæfingargeðdeild, en þar hafa frelsissviptir einstaklingar verið vistaðir. 

Í skýrslunni kemur fram að ekki verði annað séð en að sjúklingar á deildunum þremur á Kleppi búi almennt við góðan aðbúnað. Þá er afþreying, tómstundaaðstaða og endurhæfing almennt í góðu horfi sem og mönnun á deildunum þremur. Í þessum efnum eru þó settar fram ábendingar og tilmæli í skýrslunni varðandi tiltekin atriði í þessu sambandi.

Ýmis atriði er snerta lagalegan grundvöll vistunar sjúklinga og meðferð þeirra á deildunum þremur, þörfnuðust meiri athugunar en gert hafði verið ráð fyrri í upphafi. Skýrist það m.a. af því að hér á landi er ekki fyrir hendi sérstök heildstæð geðheilbrigðislöggjöf, ólíkt því sem gerist t.a.m. á hinum Norðurlöndunum, eða annar fullnægjandi lagagrundvöllur fyrir ákvörðunum sem teknar eru í tengslum við meðferð frelsissviptra einstaklinga á geðheilbrigðisstofnunum umfram það sem fellur undir læknismeðferð.

Við athugun umboðsmanns kom í ljós að vistun og meðferð sjúklinga sem glíma við alvarlegan geðrænan vanda felur í núverandi framkvæmd í sér frávik frá meginreglunni um sjálfsákvörðunarrétt sjúklinga. Af hálfu stjórnenda deildanna hefur inngrip í frelsi og friðhelgi einkalífs sjúklinganna, umfram það sem leitt verður af núgildandi lagaheimildum, jafnframt verið talið nauðsynlegt við ákveðnar aðstæður, s.s. með vísan til öryggissjónarmiða. Í skýrslunni er bent á að mörkin milli annars vegar meðferðarsjónarmiða og hins vegar öryggissjónarmiða og annarra sjónarmiða geti verið óljós þegar teknar eru ákvarðanir um meðferð og líf sjúklinga á Kleppi. Þrátt fyrir að ekki verði séð að sjúklingar þar séu beittir ómannlegri eða vanvirðandi meðferð verði ekki fram hjá því litið að ráðstafanir sem kunni að skerða stjórnarskrárvarin réttindi einstaklinga verði að eiga sér fullnægjandi lagastoð.

Á meðan ekki hefur verið bætt úr þessari stöðu er það niðurstaða umboðsmanns að beina því til Landspítalans að taka skipulag og starfsemi deildanna þriggja á Kleppi til skoðunar með framangreind atriði í huga. Að þeirri greiningu lokinni sé rétt að spítalinn upplýsi viðkomandi ráðuneyti um niðurstöður hennar og í hvaða tilvikum spítalinn telji þörf á sérstökum lagaheimildum af þessu tilefni. Þá bendir umboðsmaður m.a. á að huga þurfi að því að skilgreina hvaða ákvarðanir spítalans teljist stjórnvaldsákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga og tryggja að málsmeðferð og verklag sé í samræmi við lögin sem og að tryggja að upplýsingar um lögbundnar kvörtunarleiðir vegna athugasemda við þjónustu og meðferð á deildunum séu aðgengilegar sjúklingum og aðstandendum þeirra.

Tilteknum ábendingum og tilmælum um lagaleg álitaefni er beint til heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra. Að lokum er athygli félagsmálaráðherra vakin á skorti á félagslegum búsetuúrræðum sem geti valdið því að vistun fólks á spítalanum verði lengri og þungbærari en ella þyrfti. Skýrslan var jafnframt send þremur nefndum Alþingis til upplýsinga. Öll tilmæli og ábendingar umboðsmanns til stjórnvalda getur að líta í köflum 8 – 15 í skýrslunni.

Umboðsmaður mun áfram fylgjast með þróun þessara mála en óskar eftir því að bæði Landspítali og önnur stjórnvöld geri grein fyrir viðbrögðum sínum í tilefni af skýrslunni fyrir 1. maí 2020.

---

OPCAT stendur fyrir valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (e. Optional Protocol to the Convention against Torture). Meginmarkmið OPCAT er virkt eftirlit til að hindra að pyndingar eða önnur grimmileg, ómannleg eða vanvirðandi meðferð eigi sér stað. Á grundvelli þess heimsækir umboðsmaður og starfsmenn hans staði þar sem einstaklingar eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu. Með frelsissviptingu er hér átt við hvers konar fangelsun, vistun eða gæslu einstaklings, samkvæmt fyrirmælum eða að undirlagi yfirvalda, á opinberri stofnun eða heimili á vegum einkaaðila, þar sem hann er ekki frjáls ferða sinna. Eftirlitið felur meðal annars í sér að rætt er í einrúmi við frelsissvipta einstaklinga sem dvelja á þessum stöðum og aðra þá sem geta veitt nauðsynlegar upplýsingar vegna þess. Jafnframt er aðbúnaður tekinn og skýrsla gerð eftir hverja heimsókn þar sem greint er frá stöðu mála og bent á hvað hugsanlega megi færa til betri vegar.

Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit á geðdeildum Landspítalans á Kleppi