Störf umboðsmanns Alþingis árið 1993.

1.

Skrifstofa umboðsmanns Alþingis að Rauðarárstíg 27, III. hæð, var á árinu opin almenningi kl. 9.00-15.00 frá mánudegi til föstudags. Auk mín voru starfsmenn þrír, Páll Hreinsson, sérstakur aðstoðarmaður umboðsmanns, Katrín Jónasdóttir, skrifstofustjóri, og Þórhallur Vilhjálmsson, lögfræðingur. Auk þeirra starfaði Benedikt Bogason, héraðsdómsfulltrúi, við embættið um tveggja mánaða skeið. Sem fyrr naut ég aðstoðar nokkurra manna vegna einstakra viðfangsefna.
Ég ákvað að víkja sæti í tveimur málum og skipaði forseti Alþingis Friðgeir Björnsson, dómstjóra, til að fara með þau, sbr. 14. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis. Auk þess fjallaði Stefán Már Stefánsson, prófessor, um tvö mál á árinu. Hafði hann verið skipaður af forseta Alþingis til að fara með þau á árinu 1992 og hafði hann lokið umfjöllun um þau. Komu þau á ný til athugunar á árinu 1993.

2.

Á árinu 1993 voru skráð 238 ný mál. Á árinu tók ég þrjú mál upp að eigin frumkvæði. Skráð mál á grundvelli kvartana, sem bornar voru fram, voru 235. Tekið skal fram, að mál er því aðeins skráð að skriflegt erindi hafi borist, oftast í formi skriflegrar kvörtunar, eða að umboðsmaður taki mál upp að eigin frumkvæði. En einnig er algengt að menn hringi eða komi á skrifstofu umboðsmanns og beri upp mál sín og leiti upplýsinga. Er þá oftast greitt úr málum með skýringum eða með því að koma þeim í réttan farveg innan stjórnsýslunnar, án þess að til skráningar komi. Þessi þáttur í starfi umboðsmanns er tímafrekur eins og áður.
Í öðrum kafla skýrslu þessarar eru ýmsar nánari upplýsingar um mál þau, er ég tók til meðferðar á árinu 1993, og í þriðja kafla eru niðurstöður og álit í einstökum málum.

3.

Hinn 1. janúar 1994 gengu í gildi stjórnsýslulög nr. 37/1993 og 30. maí 1994 lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Þessi lög efla rétt einstaklinga og hafa því mikla þýðingu fyrir starf umboðsmanns Alþingis, svo sem það hefur verið ákveðið í 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Má í rauninni fullyrða, að lög þessi marki þáttaskil í þeim efnum. Hér er rétt að minna á, að Ísland hefur staðfest ýmsa fleiri sáttmála til verndar réttindum einstaklinga en Mannréttindasáttmála Evrópu. Gætir áhrifa þessara sáttmála í vaxandi mæli hér á landi. Meðal þessara samninga er Evrópusamningur um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Kom sendinefnd Evrópunefndar um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT) hingað til lands í júlímánuði 1993 til að athuga fangelsi og aðrar stofnanir, sem undir sáttmálann falla. Kom sendinefndin á minn fund 12. júlí 1993 og átti ég gagnlegar viðræður við hana.

4.

Skýrsla mín til Alþingis fyrir árið 1992 var rædd á Alþingi 18. nóvember 1993. Áður hafði ég ásamt aðstoðarmanni mínum, Páli Hreinssyni, komið á fund allsherjarnefndar Alþingis, sem fjallaði um skýrsluna. Ræddum við skýrsluna við nefndarmenn og gáfum skýringar. Er af því mikill ávinningur fyrir embætti umboðsmanns Alþingis, að Alþingi fylgist með störfum þess og fylgi eftir ábendingum umboðsmanns, eftir því sem við á.
Í nefndum umræðum á Alþingi 18. nóvember 1993 ræddu þingmenn meðal annars tvö mál, sem ég hafði tekið til athugunar og látið uppi álit mitt á í tilefni af tveimur kvörtunum, sem beindust að utanríkisráðuneytinu. Skiptar skoðanir eru á því, hvort þjóðþing sé heppilegur vettvangur fyrir umræður um álit umboðsmanna í einstökum málum. Að sjálfsögðu er það Alþingis að ákveða, hvaða hátt skuli hafa þar á. Ég legg hins vegar í því sambandi áherslu á nauðsyn þess, að ráðuneyti og aðrar stjórnsýslustofnanir fari að lögum um umboðsmann Alþingis og gefi Alþingi fullnægjandi upplýsingar um einstök mál, ef umræða um þau er tekin upp. Þar skorti verulega á í viðbrögðum utanríkisráðuneytisins við áliti mínu í nefndum tveimur málum, eins og ég hef gert grein fyrir í bréfi mínu til ráðuneytisins, dags. 26. ágúst 1994, en bréf þetta er rakið á bls. 194 og 344 í skýrslu þessari. Samkvæmt bréfi utanríkisráðuneytisins til mín frá 13. október 1994 og bréfi 18. október 1994, ásamt meðfylgjandi greinargerð, hefur ráðuneytið gert ráðstafanir til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Er fyrrnefnt bréf og greinargerð birt á bls. 344 í skýrslu þessari.

5.

Í starfi mínu hefur það í ýmsum tilvikum vakið athygli mína, hve lög eru oft óskýr um stöðu stofnana og embætta í stjórnsýslukerfinu. Það veldur þá meðal annars vafa á því, hvort aðila máls er heimilt að kæra ákvörðun hlutaðeigandi stjórnvalds til ráðuneytis svo og hverjar stjórnunarheimildir ráðherra séu gagnvart umræddu stjórnvaldi. Í íslenskri stjórnskipan er gengið út frá því, að ráðherrar, hver á sínu sviði, fari ávallt með yfirstjórn stjórnsýslu, nema hún sé að lögum undanskilin. Af þessu leiðir, að kveði lög ekki skýrt á um sjálfstæði stjórnvalds og verði sú ályktun heldur ekki leidd af ákvæðum laga með fullri vissu, yrði talið að um lægra sett stjórnvald væri að ræða. Staða slíks stjórnvalds í stjórnsýslukerfinu felur m.a. í sér að ráðherra sá, sem umræddur málaflokkur heyrir undir skv. lögum og reglugerð um Stjórnarráð Íslands, fer þá almennt með yfirstjórn þeirra mála, er undir valdsvið stjórnvaldsins heyra. Þá verður stjórnvaldsákvörðunum lægra setts stjórnvalds skotið til ráðherra skv. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kveði lög aftur á móti svo á, að stjórnvald skuli teljast sjálfstætt, eru réttaráhrifin m.a. þau, að stjórnvaldsákvörðunum þess verður almennt ekki skotið til æðra stjórnvalds, nema lög heimili það sérstaklega.
Ég tel mikilvægt, að heimildir að lögum til að skjóta stjórnvaldsákvörðunum til æðra stjórnvalds séu skýrar, einfaldar og aðgengilegar, enda er hér um að ræða mikilsvert úrræði fyrir borgarana, sem grundvallað er á sjónarmiðum um aukið réttaröryggi og réttarvernd borgaranna, svo og ýmsu hagræði af slíkri málsmeðferð. Ég tel að nokkuð hafi skort á, að þessu vandamáli hafi verið gefinn nægilegur gaumur við lagasetningu hér á landi. Þar sem reynt hefur á þetta atriði í svo mörgum málum, sem komið hafa til meðferðar hjá embætti mínu, tel ég rétt að vekja athygli Alþingis á því.