1.
Skrifstofa umboðsmanns Alþingis að Rauðarárstíg 27, III. hæð, var á árinu opin almenningi kl. 9.00-15.00 frá mánudegi til föstudags. Auk mín voru starfsmenn þrír, Katrín Jónasdóttir, skrifstofustjóri, Þórhallur Vilhjálmsson, lögfræðingur, og Páll Hreinsson, lögfræðingur, sem frá 22. ágúst 1991 gegndi hálfu starfi í stöðu aðstoðarmanns umboðsmanns Alþingis, en hefur gegnt fullu starfi frá 1. apríl 1992. Þau voru öll ráðin tímabundið, þar sem heimildir til fastráðningar eru ekki fyrir hendi. Auk þess hef ég notið aðstoðar nokkurra manna vegna einstakra viðfangsefna.
Ég ákvað að víkja sæti í þremur málum og skipaði forseti Alþingis Stefán Má Stefánsson, prófessor, til að fara með tvö mál, og Eggert Óskarsson, héraðsdómara, til að fara með eitt mál, sbr. 14. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis.
2.
Á árinu 1992 voru skráð 194 ný mál. Á árinu tók ég fjögur mál upp að eigin frumkvæði. Skráð mál á grundvelli kvartana, sem bornar voru fram, voru 190. Tekið skal fram, að mál er því aðeins skráð að skriflegt erindi hafi borist, oftast í formi skriflegrar kvörtunar, eða að umboðsmaður taki mál upp að eigin frumkvæði. En einnig er algengt að menn hringi eða komi á skrifstofu umboðsmanns og beri upp mál sín og leiti upplýsinga. Er þá oftast greitt úr málum með skýringum eða með því að koma þeim í réttan farveg innan stjórnsýslunnar, án þess að til skráningar komi. Þessi þáttur í starfi umboðsmanns er tímafrekur eins og áður.
Í öðrum kafla skýrslu þessarar eru ýmsar nánari upplýsingar um mál þau, er ég tók til meðferðar á árinu 1992, og í þriðja kafla eru niðurstöður og álit í einstökum málum.
3.
Árið 1992 bárust mér fleiri kvartanir út af gjaldtöku og skattheimtu en árin á undan. Af því tilefni tel ég ástæðu til að árétta grundvallarreglur um skatta og gjöld. Um gjaldtöku, eða töku svonefndra "þjónustugjalda", verður að ganga út frá þeirri grundvallarreglu, að almenningur þurfi ekki að greiða sérstakt gjald fyrir afgreiðslu eða úrlausn stjórnvalda, nema heimild sé í lögum til heimtu gjalds. Þá er það meginregla, að lög þurfi að setja til að gjald megi taka fyrir þjónustu, sem hefur verið veitt almenningi að kostnaðarlausu eða byggt hefur verið á í lögum, að veita skuli endurgjaldslaust.
Þar sem heimild er í lögum til þess að taka gjald fyrir opinbera þjónustu, verður að gæta þess við ákvörðun fjárhæðar gjaldanna, að þau séu ekki hærri en sá kostnaður, sem almennt hlýst af því að veita umrædda þjónustu. Forsenda þess að stjórnvöldum sé heimilt að taka hærri fjárhæð fyrir opinbera þjónustu, sem lið í almennri tekjuöflun ríkisins, er sú, að fyrir sé að fara skattlagningarheimild í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e.a.s. að í lögum sé meðal annars kveðið á um skattskyldu og skattstofn og þar séu reglur um ákvörðun umrædds skatts.
Í starfi mínu hefur það í ýmsum tilvikum vakið athygli mína, hve stjórnvöld virðast oft grípa til setningar reglugerða eða annarra ráðstafana, þótt til þess sé ekki viðhlítandi grundvöllur í lögum. Ýmis mál á sviði gjaldtöku og skattheimtu eru dæmi um slíkt. Í slíkum tilvikum er eðlilegra að leitað sé fyrirfram eftir skýrri lagaheimild frá Alþingi.
4.
Umboðsmaður Alþingis kveður ekki upp úrskurði heldur lætur uppi álit. Það varðar því miklu fyrir starf umboðsmanns Alþingis, hver séu viðbrögð stjórnvalda við álitum umboðsmanns Alþingis. Á bls. 228 í þessari skýrslu er að finna bréfaskipti mín við fjármálaráðuneytið í tilefni af ummælum skrifstofustjóra ráðuneytisins í dagblaði. Þar voru höfð eftir honum þau ummæli, að ráðuneytið myndi ekki fara eftir niðurstöðu álits umboðsmanns Alþingis, ef hún yrði á tiltekinn veg. Þegar stjórnvöld telja ástæðu til, eins og í þessu tilviki, að kynna lagareglur um störf umboðsmanns Alþingis, er ófært að þau láti slík ummæli standa óleiðrétt.
5.
Ég hef í fyrri ársskýrslum mínum ítrekað rætt um nauðsyn á setningu stjórnsýslulaga. Vorið 1993 samþykkti Alþingi stjórnsýslulög. Undirbúningur og meðferð laganna á Alþingi voru vönduð. Frumvarpi til laganna fylgdi ítarleg greinargerð. Greinargerð þessi ætti að verða þeim, sem í stjórnsýslunni starfa, til leiðbeiningar við framkvæmd laganna og úrlausn mála.
Stjórnsýslulögin hafa að geyma flestar meginreglur, sem á reynir við meðferð mála í stjórnsýslu. En lögin taka af eðlilegum ástæðum ekki á öllum atriðum, sem þar reynir á. Ég tel mjög brýnt að setningu stjórnsýslulaganna verði fylgt eftir með fræðslu fyrir þá, sem að stjórnsýslu starfa um lögin og aðrar réttarreglur á sviði stjórnsýslu. Þessa fræðslu ætti ekki að einskorða við löglærða starfsmenn. Mér er kunnugt um, að forsætisráðuneytið ætlar að beita sér fyrir slíkri fræðslu.
Setning stjórnsýslulaganna og sá tími, sem gefst þar til lögin taka gildi, ætti að gefa einstökum stjórnvöldum og stofnunum tækifæri til að huga að því, hvort þörf sé breytinga á tilhögun á afgreiðslu mála hjá þeim. Nýjar reglur knýja á um ákveðnar breytingar en jafnframt getur verið ástæða til að breyta ýmsu í starfsháttum, sem mótast hafa á liðnum árum. Stjórnsýslulögin verða mikilvægur rammi um starfshætti í stjórnsýslunni.