Störf umboðsmanns Alþingis árið 1991.

1.

Skrifstofa umboðsmanns Alþingis að Rauðarárstíg 27, III. hæð, var á árinu opin almenningi kl. 9.00-15.00 frá mánudegi til föstudags. Auk mín voru starfsmenn þrír, Katrín Jónasdóttir, skrifstofustjóri, Þórhallur Vilhjálmsson, lögfræðingur, og Páll Hreinsson, lögfræðingur, sem frá 22. ágúst 1991 gegndi hálfu starfi í stöðu aðstoðarmanns umboðsmanns Alþingis. Þau voru öll ráðin tímabundið, þar sem heimildir til fastráðningar eru ekki fyrir hendi. Auk þess hef ég notið aðstoðar nokkurra manna vegna einstakra viðfangsefna. Ég ákvað að víkja sæti í tveimur málum og skipaði forseti Alþingis Friðgeir Björnsson, yfirborgardómara, til að fara með annað þessara mála, og Þorgeir Örlygsson, prófessor, til að fara með hitt málið, sbr. 14. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis. Forsetar Alþingis og nú síðast forseti Alþingis, frú Salóme Þorkelsdóttir, og forsætisnefnd hafa veitt umboðsmanni Alþingis þýðingarmikinn stuðning.

2.

Á árinu 1991 voru skráð 170 ný mál. Á árinu tók ég tvö mál upp að eigin frumkvæði. Skráð mál á grundvelli kvartana, sem bornar voru fram, voru 168. Tekið skal fram, að mál er því aðeins skráð að skriflegt erindi hafi borist, oftast í formi skriflegrar kvörtunar, eða að umboðsmaður taki mál upp að eigin frumkvæði. En einnig er algengt að menn hringi eða komi á skrifstofu umboðsmanns og beri upp mál sín og leiti upplýsinga. Er þá oftast greitt úr málum með skýringum eða með því að koma þeim í réttan farveg innan stjórnsýslunnar, án þess að til skráningar komi. Þessi þáttur í starfi umboðsmanns er tímafrekur eins og áður. Í öðrum kafla skýrslu þessarar eru ýmsar nánari upplýsingar um mál þau, er ég tók til meðferðar á árinu 1991, og í þriðja kafla eru niðurstöður og álit í einstökum málum.

3.

Á fundi Alþingis 18. desember 1991 var ég endurkjörinn umboðsmaður Alþingis til fjögurra ára frá 1. janúar 1992. Ég tók við því kjöri með bréfi til forseta Alþingis 3. janúar 1992. Ég tel nokkurt tilefni til að víkja hér að viðbrögðum stjórnvalda við starfi umboðsmanns Alþingis undanfarin fjögur ár. Þeirrar skoðunar hefur gætt, að algengt sé að stjórnvöld hafi álit, tilmæli og tillögur umboðsmanns að engu. Ég tel, að þar sé ekki rétt lýst afstöðu stjórnvalda, þótt vissulega séu dæmi þess, einkum á fyrstu starfsárum umboðsmanns, að stjórnvöld hafi beinlínis virt álit umboðsmanns að vettugi. Slíkt heyrir þó undantekningum til og skal það skýrt nokkru nánar. Er þar rétt að hafa í huga, að um niðurstöður athugana umboðsmanns eru ýmis tilbrigði. a) Stundum lætur umboðsmaður við það sitja að gagnrýna tiltekna ákvörðun stjórnvalds eða það hvernig að henni var staðið, án þess að mælast til neinna sérstakra aðgerða af stjórnvaldi í framhaldi af því. Eru ekki dæmi þess, að stjórnvöld hafi í slíkum tilvikum andmælt gagnrýni umboðsmanns, en reyndar er aðstaðan hér oft sú, að stjórnvöld hafa ekki séð ástæðu til að skýra viðhorf sitt til gagnrýni umboðsmanns fyrir umboðsmanni. b) Fyrir kemur að umboðsmaður telur óhjákvæmilegt að stjórnvald taki mál til athugunar og ákvörðunar á ný, vegna þess að skoðun umboðsmanns er sú, að ákvörðunin fái ekki staðist að lögum eða að verulegir gallar hafi verið á málsmeðferð. Fá dæmi eru þess, að stjórnvöld hafi ekki tekið slík tilmæli til greina. Er hér þó að nefna synjun samgönguráðuneytisins 23. nóvember 1988 að skila þremur leigubifreiðastjórum atvinnuleyfum sínum, en þeir höfðu verið sviptir leyfum þessum, án þess að til þess væri lagaheimild, svo sem rökstutt var í áliti umboðsmanns frá 13. október 1988. Frá sjónarmiði umboðsmanns var þessi afstaða samgönguráðuneytisins óheppileg, þar sem hún snerti eitt af fyrstu álitum umboðsmanns. Þess er að geta, eins og rakið er á bls. 216-217 í skýrslu þessari, að ríkissjóður var með dómi bæjarþings Reykjavíkur 6. desember 1990 dæmdur til að greiða einum umræddra leigubifreiðastjóra skaðabætur vegna leyfissviptingarinnar. Annað dæmi er tregða Barnaverndarráðs Íslands að taka á ný ákvörðun um umgengnisrétt barns og föður þess, en frá því máli er skýrt í skýrslu fyrir árið 1989, bls. 79-83. Að lokum er hér að nefna sem þriðja dæmi þá ákvörðun félagsmálaráðuneytisins að sinna ekki tilmælum umboðsmanns um að úrskurða um lögmæti tiltekinna ákvarðana sveitarstjórna, sem til ráðuneytisins hafði verið skotið. Nánari grein fyrir þessu máli er gerð á bls. 117-119 í skýrslu fyrir árið 1989 og á bls. 7 í sömu ársskýrslu fyrir nauðsyn þess að greitt sé úr þeim vanda, sem þessi afstaða félagsmálaráðuneytisins veldur. c) Athugun einstakra mála hefur í ýmsum tilvikum orðið tilefni tilmæla af hálfu umboðsmanns um að stjórnvöld breyttu starfsháttum sínum í ákveðnu tilliti. Yfirleitt hafa stjórnvöld tekið slík tilmæli til greina. Frá því eru þó undantekningar. Fyrst er að nefna andóf Barnaverndarráðs Íslands gegn ábendingum umboðsmanns um málsmeðferð við undirbúning umsagna í deilu foreldra um forsjá barna. Er viðbrögðum ráðsins lýst á bls. 72-77 í skýrslu fyrir árið 1989. Síðar komu, að því er best verður séð, fram önnur viðhorf til ábendinga umboðsmanns af hálfu menntamálaráðuneytisins og raunar einnig af hálfu Barnaverndarráðs Íslands, eins og greint er frá á bls. 78-79 í skýrslu fyrir árið 1989 og bls. 222-223 í þessari skýrslu. Annað dæmi eru viðbrögð Seðlabanka Íslands við áliti umboðsmanns varðandi starf bankaeftirlits Seðlabankans, en álitið er birt á bls. 41-87 í skýrslu fyrir árið 1990. Kom afstaða bankans fram í fréttatilkynningu, eftir umræðu um álit umboðsmanns í fjölmiðlum, án þess að bankinn gerði umboðsmanni sjálfum með formlegum hætti grein fyrir viðhorfi sínu til álits og tilmæla umboðsmanns. Í fáeinum tilvikum hafa stjórnvöld í fyrstu lagst gegn gagnrýni og tillögum umboðsmanns, en síðar látið af andstöðu sinni. Annars hafa stjórnvöld yfirleitt ekki gengið gegn tillögum og tilmælum umboðsmanns. Oft hafa þau brugðið skjótt við og breytt starfsháttum sínum. Í öðrum tilvikum hafa stjórnvöld lýst ásetningi sínum um breytingar og þá gjarnan gert einhverjar ráðstafanir í því skyni. Nokkur dæmi eru um að stjórnvöld virðast ekki hafa gert upp hug sinn eða ekki tekist sem skyldi að fylgja eftir áformum sínum um breytingar. Að því er tekur til síðastgreindra tilvika er óhjákvæmilegt að nefna starfsreglur og fyrirætlanir ráðuneyta um greið svör við erindum, sem þeim berast, en áliti umboðsmanns í þessu efni og viðbrögðum ráðuneyta er lýst á bls. 83-90 í skýrslu fyrir árið 1989. Enn virðist vera brotalöm á starfsháttum í stjórnsýslu að þessu leyti. Mun ég taka þann vanda fyrir nú á næstunni. d) Samkvæmt framansögðu er óhætt að segja, að stjórnvöld fylgi þeirri meginstefnu að taka álit, tillögur og tilmæli umboðsmanns til greina, þótt til séu þau frávik, sem gerð hefur verið grein fyrir, og má reyndar ekki taka þá greinargerð sem fyllilega tæmandi, meðal annars vegna skorts á upplýsingum frá stjórnvöldum. Rétt er að leggja sérstaka áherslu á, að ekki liggja fyrir nein dæmi um það frá síðasta ári, að stjórnvöld hafi risið öndverð við áliti umboðsmanns, en þó er hér að nefna viðbrögð stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem um er fjallað á bls. 71 o.áfr. í skýrslu þessari.

4.

Mannréttindasáttmálar, sem Ísland hefur fullgilt, hafa verulega þýðingu í starfi umboðsmanns Alþingis. Hliðsjón ber að hafa af slíkum samningum við skýringu íslenskra laga, eins og Hæstiréttur hefur lagt sérstaka áherslu á í nokkrum nýlegum dómum sínum (sjá sérstaklega dóm frá 6. janúar 1990 og nú síðast dóm 6. febrúar 1992). Það er og skoðun mín, að það verði að öllu jöfnu að teljast til "meinbuga" á lögum í skilningi 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, ef lög standast ekki þær kröfur, sem slíkir sáttmálar gera. Bæði Ráðgjafarþing og Ráðherranefnd Evrópuráðsins líta svo á, að umboðsmenn þjóðþinga séu vel til þess fallnir að gæta mannréttinda og efla þau. Hefur Evrópuráðið haft forgöngu um fundi á þriggja ára fresti með fyrirsvarsmönnum ýmissa stofnana ráðsins og umboðsmönnum, er starfa í ríkjum, sem aðild eiga að Evrópuráðinu. Hef ég sótt slíkan fund, sem haldinn var í Flórens á Ítalíu í nóvember 1991. Ég flutti erindi um þýðingu Mannréttindasáttmála Evrópu fyrir starf umboðsmanna þjóðþinga á norræna lögfræðingamótinu, sem haldið var í Reykjavík í ágúst 1990. Þá hafði ég framsögu um sama efni á fundi umboðsmanna þjóðþinganna á Norðurlöndum, sem haldinn var í Helsinki í september 1991. Á skrifstofu minni eru tiltækar upplýsingar um Mannréttindasáttmála Evrópu og meðferð mála fyrir stofnunum þeim, sem starfa samkvæmt honum, þ.e. Mannréttindanefndinni, Mannréttindadómstólnum og Ráðherranefndinni. Hef ég þar átt samvinnu við "The Human Rights Information Centre" í Strassborg.