Þinglýsingar. Fjöleignarhús.

(Mál nr. 12399/2023)

Kvartað var yfir embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og laut að þinglýsingu á kaupsamningi á eignarhluta, sem viðkomandi var ekki eigandi að, í fjölbýlishúsi. 

Kvörtunin laut að því sama og tvær aðrar frá viðkomandi sem umboðsmaður hafði afgreitt fyrr á árinu. Ítrekaði umboðsmaður niðurstöðu sína í þeim málum, þ.e. að ágreiningsefnið félli utan starfssviðs síns og ætti undir dómstóla.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 17. október 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 8. október sl. sem beinist að embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og lýtur að þinglýsingu á kaupsamningi á eignarhluta, sem þér eruð ekki eigandi að, í fjölbýlishúsinu að [...], vestan megin fasteignarinnar. Ljóst er að kvörtun yðar lýtur að sömu atriðum og fyrri kvartanir yðar, sem hlutu málsnúmerin 11991/2022 og 12152/2023, en meðferð þeirra var lokið með bréfum umboðsmanns 11. janúar og 27. apríl sl., þ.e. að þér teljið óheimilt að þinglýsa kaupsamningum vegna fasteignarinnar fyrr en ný eignskiptayfirlýsing hefur verið gerð.

Kvörtun yðar fylgdi afrit af áskorun 29. ágúst 2018 til stjórnar húsfélags að halda húsfund, afrit af bréfi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 23. janúar sl. til yðar og yfirlýsing um skiptingu fasteignarinnar frá 21. október 1987. Þá óskaði starfsmaður minn eftir afriti af samskiptum yðar við embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í september sl., sem vísað var til í kvörtun yðar, en af þeim má ráða að þau hafi varðað sama efni og kvörtun yðar, nánar tiltekið þinglýsingu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á kaupsamningi sem þér eruð ekki aðili að.

Líkt og fram kom í framangreindum bréfum umboðsmanns til yðar segir í 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 að bera megi úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu undir héraðsdómara með nánar tilgreindum hætti. Í bréfi sýslumanns til yðar 23. janúar sl., sem jafnframt fylgdi kvörtun yðar sem fékk málsnúmerið 12152/2023, er einnig vakin athygli á þessu lagaákvæði.

Ástæða þess að umboðsmaður hefur vakið athygli á framangreindu ákvæði þinglýsingalaga er sú að samkvæmt c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til þess að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Af þessum sökum falla kvartanir, sem lúta að ágreiningi um þinglýsingar, almennt utan starfssviðs umboðsmanns og eru því að jafnaði ekki skilyrði að lögum fyrir umboðsmann til að fjalla um slík mál. Í ljósi framangreinds verður ekki séð að í máli yðar liggi fyrir ákvarðanir, athafnir eða athafnaleysi af hálfu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem falla undir starfssvið umboðsmanns. Brestur því lagaskilyrði til þess að ég geti fjallað frekar um kvörtun yðar.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.